Haustið 1991 var ég ráðinn í sex vikna verkefni hjá Vöku-Helgafelli sem á þeim tíma var ásamt Máli og menningu umsvifamesta bókaútgáfa landsins. Ég var þá að útskrifast sem cand.mag. í íslenskum bókmenntum frá Háskóla Íslands. Þessar sex vikur urðu að þrettán árum og var Vaka-Helgafell þá orðin hluti af Eddu sem síðar varð Forlagið. Ég varð útgáfustjóri Vöku-Helgafells vorið 1992. Útgáfan rak fjölda vinsælla klúbba og voru tugþúsundir heimila áskrifendur að bókum, tímaritum, spjöldum í safnmöppur og geisladiskum.

Fljótlega áttaði ég mig hins vegar á því að næst hjarta eigandans, Ólafs Ragnarssonar, stóðu verk Halldórs Laxness. 

Perlur og metnaður

Vaka-Helgafell var í raun skrifstofa Nóbelsskáldsins. Okkar hlutverk var að gæta hagsmuna Halldórs heima og erlendis, endurútgefa verk hans og setja þau í nýjan búning. Ólafur stofnaði hjá Vöku-Helgafelli Laxnessklúbbinn þar sem félagar fengu mánaðarlega 24 helstu verk hans ásamt bæklingi og gekk hann í nokkur ár. Við gáfum út bækur með tilvitnunum í skáldverkin (Perlur í skáldskap Laxness) og ritgerðasöfnin (Gullkorn í greinum Laxness), fengum listmálara til að mála eða velja málverk við nokkur af þekktustu ljóðum hans (Únglíngurinn í skóginum), gáfum út Lykilbók með orðskýringum að nokkrum skáldverkum hans, stofnuðum til Bókmenntaverðlauna Halldórs Laxness, efndum til Laxness-fyrirlestra í Norræna húsinu, lásum yfir nýjar leikgerðir upp úr verkum hans (og stoppuðum jafnvel af) og þar fram eftir götum. Þá lagði Ólafur mikinn metnað í það að verkin væru ævinlega til á lager, þótt sum seldust hægar en önnur, með tilheyrandi „fjárbindingu í birgðum“, eins og stundum var kvartað undan annars staðar í fyrirtækinu.

Að húkka sér far til Puerto Rico

Halldór Laxness lést að kvöldi 8. febrúar 1998. Ólafur Ragnarsson var þá nýfarinn í frí til Karabíska hafsins með vinum sínum. Hann hafði heimsótt Auði á Gljúfrastein og einnig Halldór á Reykjalund áður en hann flaug af landi brott og fullvissað sig um að ekkert benti til þess að það færi að draga til tíðinda – en enginn ræður sínum næturstað. Ég beið þar til klukkan var orðin hálf tíu morguninn eftir áður en ég hringdi í Ólaf vestur um haf og færði honum tíðindin. Þá var klukkan hálf sex að morgni hjá honum. Hann var um borð í skútu sem lá við stjóra á Trellis Bay sem er á Beef Island á Bresku Jómfrúreyjum. Skipstjórinn á skútunni, Gylfi Thorlacius hæstaréttarlögmaður, skutlaði honum óðara í land á léttabáti. Á Beef Island var á þeim tíma bara lítill flugvöllur og þangað flugu einungis minni vélar. Ólafur rölti að flugstöðinni með lágmarksfarangur og tókst að húkka sér far til Puerto Rico. Þaðan komst hann með millilandaflugi til Íslands. Innan við sólarhring síðar var hann mættur upp á Gljúfrastein að skipuleggja útför Nóbelsskáldsins. Eftir hádegi þann dag funduðum við með ritstjórum Morgunblaðsins um sérstakt aukablað um Halldór Laxness og þar fram eftir götum. Að jarðarförinni lokinni, viku síðar, flaug Ólafur aftur utan og kláraði siglinguna um Karabíska hafið.

Með Brekkukotsannál á Inter-Rail

Þegar ég hóf störf hjá Vöku-Helgafelli hafði ég ekki rannsakað verk Halldórs sérstaklega en var auðvitað kunnugur þeim. Ég hafði hlustað á leikgerð Íslandsklukkunar mér nánast til óbóta sem barn og unglingur, verkin voru til á mínu æskuheimili og fékk ég sum í jólagjöf frá foreldrum mínum. Við lásum Gerplu hjá Guðrúnu Bjartmarsdóttur íslenskukennara í MK. Ég tók Brekkukotsannál með mér á Inter-Rail ferð um Evrópu. Í námskeiði hjá Matthíasi Viðar Sæmundssyni í íslenskum bókmenntum í HÍ lásum við bæði Vefarann mikla frá Kasmír og Sjálfstætt fólk.

Ég var því þokkalega heima í verkunum og ferli skáldsins.

„Þegar öllu er á botninn hvolft“

Í apríl 1992 varð Halldór Laxness níræður og í tengslum við það fór ég að taka saman ýmislegt efni fyrir fjölmiðla um hann og það þróaðist út í það að ég skrifaði á næstu árum formála að sjö skáldsögum Halldórs sem komu út í kilju, hélt fyrirlestra heima og erlendis, birti greinar í blöðum og tímaritum og fleira í þeim dúr. Ég hafði afskaplega gaman af þessu grúski og Ólafur Ragnarsson studdi mig heilshugar í því. Það var ekki sjálfgefið að fá að verja dögum og jafnvel vikum í að vinna efni um Halldór Laxness sem skilaði kannski ekki miklu í kassann til skamms tíma.

Á afmælisdegi skáldsins, þann 23. apríl árið 2003, opnaði Auður Laxness, ekkja Halldórs, Orðstöðulykil Halldórs Laxness í höfuðstöðvum Eddu en undirbúningurinn hafði staðið árum saman. Um leið og verkin voru tölvusett fyrir nýjar útgáfur greindi Málvísindastofnun Háskóla Íslands hvert orð, svo að hægt væri að fletta því upp í öllum skáldverkum Halldórs og sjá í hvaða samhengi það birtist. Sem dæmi má nefna að orðtakið „þegar öllu er á botninn hvolft“ kemur fimmtíu sinnum fyrir í verkum Halldórs, allt frá Undir Helgahnúk 1924 til Guðsgjafaþulu 1972, og fylgir því síðan gjarnan einhver heimspekileg niðurstaða á borð við þessa úr Sjálfstæðu fólki: „Þegar öllu er á botninn hvolft, þá fer alt einhvernveginn, þótt margur efist um það á tímabili.“ Lykillinn sýnir að Halldór notar þetta orðatiltæki langmest í verkum frá fjórða áratugnum (40 tilvik af 50). Hvað segir það okkur? Fyrirmyndin að Laxness-lyklinum var að sjálfsögðu Orðstöðulykill Íslendingasagna en báðir eru þeir inni á snara.is.

Ferill minn hjá Vöku-Helgafelli var því býsna samofinn verkum Halldórs Laxness.

Að opna dyr og dýpka skilning

Ég sagði skilið við Vöku-Helgafell í febrúar 2004 og sama vor tók ég saman efni fyrir vef safnsins að Gljúfrasteini um Halldór. Ári síðar stofnaði ég eigið bókaforlag, Veröld, með Ólafi Ragnarssyni en hann varð að draga sig út úr því sama ár sökum heilsubrests. Það stoppaði hann þó ekki í því að ljúka þriðju bók sinni um Nóbelsskáldið: Til fundar við skáldið Halldór Laxness. Hann var þá langt leiddur af hrörnunarsjúkdómnum MND. Bókin kom út hjá Veröld haustið 2007. Áður hafði hann sent frá sér Lífsmyndir skálds (ásamt Valgerði Benediktsdóttur) árið 1992 og tíu árum síðar Halldór Laxness – Líf í skáldskap. En þar með má segja að ferðalagi mínu með Halldóri Laxness hafi lokið – nema ég nýt þess auðvitað áfram að lesa verk hans sem áhugamaður um bókmenntir – enda í nægu að snúast hjá Bjarti & Veröld sem ég stýri.

Med Olafi Ragnarssyni

Það var alla tíð markmið okkar Ólafs heitins Ragnarssonar að gera skáldskap Halldórs Laxness sem aðgengilegastan fyrir nýjar kynslóðir og ber efnið á skaldatimi.is vonandi þess merki. Á undanförnum árum hefur mér fundist sem ungt fólk hafi fjarlægst sagnaheim Halldórs. Ég ákvað því í tilefni af 120 ára afmæli hans árið 2022 að safna þessu efni mínu saman um hann og senda út í kosmosið í von um að það opni einhverjum dyr að verkum Nóbelsskáldsins og dýpki kannski skilning annarra á þeim.

Pétur Már Ólafsson