Síðasta þjóðskáld Evrópu

Halldór Laxness var risi í íslenskum bókmenntum og menningarlífi á 20. öld. Hann ber höfuð og herðar yfir aðra íslenska rithöfunda á 20. öld. Ferill hans var einstakur, fjölbreytni verka hans á sér fáar hliðstæður og má segja að með hverri bók hafi hann komið að lesendum sínum úr óvæntri átt. Laxness fæddist í Reykjavík þann 23. apríl árið 1902 og lést 8. febrúar árið 1998. Hann var sonur hjónanna Sigríðar Halldórsdóttur húsfreyju (1872-1951) og Guðjóns Helga Helgasonar vegaverkstjóra (1870-1919). Fyrstu árin bjó fjölskyldan í höfuðstaðnum en í júnímánuði árið 1905 flutti hún í Mosfellssveit og settist að í Laxnesi þar sem þau hófu búskap

Laxness var sískrifandi sem barn og árið 1919, ári eftir að fyrri heimsstyrjöld lauk, kom fyrsta skáldsaga hans fyrir augu lesenda, Barn náttúrunnar. Upp frá þessu sendi hann frá sér bók nánast á hverju ári, stundum fleiri en eina um áratuga skeið; skrifaði þrettán stórar skáldsögur, fimm leikrit og leikgerð að einni skáldsögunni, fyrir utan smásagnasöfn, greinasöfn, ljóð og endurminningarbækur. Verk hans hafa verið þýdd á meira en 40 tungumál og komið út í yfir 500 útgáfum. Að auki þýddi hann verk höfunda á borð við Voltaire og Ernest Hemingway. Síðasta bókin frá hendi hans, Dagar hjá múnkum, þar sem hann skrifaði um veru sína í klaustri á þriðja áratugnum, kom á markað tveimur árum áður en Berlínarmúrinn féll. Allan þennan tíma – í næstum 70 ár – var hann áberandi í íslensku þjóðlífi og evrópsku menningarlífi.

Laxness gerði uppreisn gegn hinu hefðbundna formi skáldsögunnar en sættist síðan við það, og kunnustu verk hans eru breiðar, epískar skáldsögur. Þeirra þekktast er án efa Sjálfstætt fólk sem út kom í tveimur hlutum 1934-35.

Laxness var ekki bundinn einni lífsskoðun alla sína ævi. Hann skírðist til kaþólskrar trúar 6. janúar árið 1923 og dvaldi í klaustri um hríð. Nokkrum árum síðar snerist hann til sósíalisma en um það bil sem hann hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1955 má segja að hann hafi verið orðinn afhuga kenningum. Þannig sveiflast hann frá kaþólsku til sósíalískrar róttækni, frá Lenín til Laotse, frá breiðum epískum skáldsögum til absúrd leikrita, frá súrrealískum ljóðum til viðkvæmra „essay-rómana“ um bernskuna. Verkin spegla 20. öldina – öld öfganna – og því er ekki að undra að þegar hann lést hafi verið sagt að hún hafi verið öld Halldórs Laxness.

Hann var lengi mjög umdeildur höfundur meðal Íslendinga sjálfra, ekki síst vegna pólitískra skoðana sinna. Menn fylgdu honum eða ekki, létu sig varða allt sem hann skrifaði, engum stóð á sama um hann. Í því ljósi má segja að hann hafi verið síðasta þjóðskáld Evrópu. Eftir að hann hlaut Nóbelsverðlaunin má segja að Íslendingar hafi tekið hann í sátt.

Halldór Laxness gekk að eiga Ingibjörgu Einarsdóttur en þau skildu síðar. Með henni eignaðist Halldór einn son, Einar. Auður Laxness var seinni kona Halldórs. Þau eignuðust tvær dætur, Sigríði og Guðnýju. Áður en Halldór kvæntist í fyrra skiptið hafði hann eignast dóttur, Maríu, með Málfríði Jónsdóttur.

Auður og Halldór byggðu sér hús skammt frá æskuheimili hans í Laxnesi og fluttu þangað árið 1945. Þau kölluðu húsið Gljúfrastein og var heimili þeirra þar upp frá því. Nú er þar safn um ævi og störf Halldórs Laxness þar sem heimili og vinnustaður hans eru látin haldast óbreytt.