Brekkukotsannáll er að mínu mati kjarnaverk á ferli Halldórs Laxness. Hann ritaði söguna þegar hann var kominn á sextugsaldur, nýbúinn að sigra heiminn, ef svo má segja, með Nóbelsverðlaununum og verk hans komin út í stórum upplögum út um allar jarðir. Á þessum tímamótum í lífi sínu setti hann saman skáldsögu sem er óður til þeirra sem hann mat mest – huldufólksins. Sagan lýsir í grunninn tvennskonar Íslendingum: hinum extróvertu fantastísku, sem eru síkjaftandi og símontandi sig og svo huldufólkinu. Og þessi upphafning á huldufólkinu er í raun kjarninn í skrifum Halldórs um áratuga skeið. En hvaða fólk er þetta huldufólk? kann einhver að spyrja. Og hverjir eru hinir extróvertu fantastísku? Þessi orð eru ekki frá mér komin heldur úr minniskompum skáldsins frá þeim tíma er hann skrifaði Brekkukotsannál og mun ég vitna til hér á eftir.

Mætt með riffli

Óhætt er að segja að menn hafi beðið með eftirvæntingu eftir því að Halldór Laxness sendi frá sér nýja skáldsögu eftir að hafa hlotið Nóbelsverðlaunin í bókmenntum 1955. Ástæður eftirvæntingarinnar eru einfaldar. Menn voru forvitnir að sjá hvernig skáldið skrifaði eftir að hafa hlotið þessa miklu upphefð að utan og Halldór kom lesendum sínum ævinlega á óvart með verkum sínum, var óhræddur að breyta um stíl og yrkisefni. Verk hans vöktu ævinlega deilur, engum stóð á sama um hann, en þó gátu menn ekki verið þekktir fyrir annað en að lesa þau, enda sagði Elías Mar í ritdómi um Brekkukotsannál: “Þeir Íslendingar, sem ekki lesa núorðið hverja nýja bók eftir Laxness strax er hún kemur út, eru varla mælandi málum”.

Deilurnar um Laxness snerust ekki um listrænt gildi bókanna heldur efni þeirra. Hann kom við kaunin á mönnum, skrifaði óhræddur um lúsina og skítinn sem landinn neitaði að kannast við. Og ekki stóð á viðbrögðum Íslendinga. Halldór var annaðhvort hataður eða dáður, ýmist naut hann gestrisni bænda á ferðum sínum um landið eða honum var meinaður aðgangur að landareign bóndans með riffli!

Umdeildur höfundur

Á fjórða áratugnum skrifaði Halldór sögur úr samtímanum: Sölku Völku (1931–32) um fiskverkunarstúlku í litlu þorpi; Sjálfstætt fólk (1934–35) um kotunginn Bjart í Sumarhúsum og Heimsljós (1937–40) um skáldið Ólaf Kárason Ljósvíking. Þar deildi Halldór á þjóðskipulagið og rangláta skiptingu auðs enda var hann þá orðinn sannfærður sósíalisti. Bækur þessar eru þó fráleitt einfaldar áróðursbókmenntir. Halldór nær að gera þær sammannlegar þótt þær spretti úr íslenskum veruleika, t.d. kom Amríkani eitt sinn að máli við Halldór og tjáði honum að í New York einni væru hundrað þúsund bænda sem lifðu og hrærðust alla sína hundstíð undir sams konar siðferðilögmáli og Bjartur í Sumarhúsum.

Íslandsklukkan (1943–6) um þau Jón Hreggviðsson, Snæfríði Íslandssól og Arnas Arnæus var fyrsta verk Halldórs sem naut almennrar hylli íslenskra lesenda en þar skrifaði hann sögulega skáldsögu frá 17. öld sem byggði að miklu leyti á rituðum heimildum. Hann var hins vegar ekki lengi að vekja deilur á ný, því að í Atómstöðinni (1948) tók hann á afar viðkvæmu máli, sölu landsins eða þátttöku þjóðarinnar í vestrænu varnarsamstarfi, eftir því hvar menn skipuðu sér í fylkingar

Aftur vakti Halldór athygli og deilur með Gerplu (1952) þar sem hann hæddist að hinni fornu hetjuhugsjón Íslendingasagnanna en boðskapur sögunnar beindist ekki síður að nútímanum því að trúin á valdið og ofbeldið er enn helsta bjargráð þeirra landstjórnarmanna sem ekkert óttast meira en þegna sína. Þeir sem vildu gátu séð þarna deilt á Hitler og Stalín en í bókinni birtist einnig andstæða þeirra samfélaga þar sem ríkja sterkir leiðtogar eða einræðisherrar en slíkt fyrirmyndarsamfélag finnur hann meðal grænlenskra eskimóa. Núítar, sem skáldið nefnir svo, þekkja ekki annað en að allir séu jafnir og lifi í sátt og samlyndi. Þeir eru eins konar huldufólk, en ég kem betur að því hér á eftir.

Óhæfuverk Stalíns

Það var ekki aðeins að menn fyndu að Halldór væri að feta sig inn á nýjar brautir í skáldverkum sínum því að á þessum árum, um og eftir miðjan sjötta áratuginn, mátti líka greina aðrar áherslur í greinaskrifum hans. Í Gjörníngabók (1959) safnar Halldór saman greinum sínum frá árunum 1954–58 og koma þessar breytingar þar glögglega fram.

Árin eftir síðari heimsstyrjöld einkenndust af hatrömmu köldu stríði þar sem voru “við” og “þeir”. Menn skipuðu sér í tvær fylkingar undir merkjum Bandaríkjanna og Sovétríkjanna, – kapítalisma og kommúnisma. Halldór Laxness hafði um árabil verið ötull baráttumaður sósíalismans, lofað Sovétríkin í hástert og leiðtoga þeirra, Jósef Stalín, en deilt að sama skapi harkalega á höfuðvígi auðvaldsins, Bandaríkin. Í Gjörníngabók gætir hins vegar hvergi heiftarlegra árása á Bandaríkjamenn og Nato en hann heggur þeim mun oftar í aðra og óvænta átt. Hann lýsir þar þeirri sorg sem sósíalistar heimsins fylltust þegar Krúsjoff, aðalritari sovéska kommúnistaflokksins, fletti ofan af grimmdarverkum Stalíns. „Svo fáránleg eru þau óhæfuverk sem ljóstað hefur verið upp um, að ef við hefðum ekki fyrir okkur menn úr insta hríng ráðstjórnarinnar, menn með fullkomnu áhrifavaldi til að gera sig trúanlega, þá hefðu flestir skelt skolleyrum við slíkum ósögum eða talið þær með óráðshjali geggjaðra andstæðínga byltíngarinnar.“ (82)

Halldór er einnig harmi sleginn yfir fréttum um innrás Sovétmanna í Ungverjaland 1956 til að kveða niður uppreisnina í Búdapest og segir tíðindin „hljóta að gera oss vinum verklýðsbyltíngarinnar mjög þúngt í skapi“. Hann bætir svo við: „Sú ógæfa sem hent hefur ráðstjórnarmenn í Úngverjalandi tekur mjög á mig sem íslenskan sósíalista.“

Það ber því ekki á öðru en Halldór sé kominn með miklar efasemdir um sæluríki sósíalismans, Sovétríkin. Og ekki nóg með það: hann virðist vera búinn að fá sig fullsaddan af kenningum. Á þriðja áratugnum aðhylltist hann kaþólsku og boðaði hana af miklum krafti. Eftir það snerist hann til sósíalisma og barðist fyrir honum af engu minni ákafa. Endanlegt uppgjör Halldórs við sósíalismann og Stalín fór síðan fram í Skáldatíma (1963) en ég held að það sé einhver sársaukafyllsta bók sem ég hef lesið. Þar skrifaði skáldið: „Það er fróðlegt að sjá hvernig Stalín varð með hverju árinu meira skólabókardæmi þess hvernig valdið dregur siðferðisafl úr mönnum þannig að maður sem náð hefur fullkomnu alræðisvaldi innan umhverfis síns er um leið orðinn algerlega siðferðislaus.“

Annar Halldór

Af framansögðu má sjá að sá Halldór Laxness sem sendi frá sér Brekkukotsannál á útmánuðum 1957 var annar Halldór en sá sem skrifaði Sjálfstætt fólk rúmum tveimur áratugum áður þótt segja megi að efnið sé svipað: íslenskur kotbóndi á fyrri hluta tuttugustu aldar og fjölskylda hans. Hann kemur aftur að gömlu yrkisefni en án þeirra pólitísku viðmiðana sem settu mark sitt á verk hans á fjórða áratugnum.

Brekkukotsannáll er frásögn Álfgríms af afa og ömmu í Brekkukoti í Reykjavík og stórsöngvaranum Garðari Hólm. Álfgrím langar að læra að syngja og finna hinn hreina tón. Garðar virðist hafa höndlað frægðina en ekki er eins víst að hann hafi fundið tóninn hreina. Hann þiggur fé af Gúðmúnsen kaupmanni og kemst áður en lýkur að niðurstöðu: “Sá maður sem er einhvers virði eignast aldrei gimstein.” Garðar Hólm verður Álfgrími að nokkru leyti fyrirmynd og hvatning uns beiskur sannleikurinn um stórstjörnuna lýkst upp fyrir honum smátt og smátt

Hægt er að nálgast Brekkukotsannál með ýmsu móti, t.d. sem bók um tvo ólíka heima, gamlan og nýjan, sannan og falskan, heim huldufólksins og heim hinna extróvertu fantastísku, eða sem harmsögu

Innan og utan við krosshliðið

Við skulum fyrst líta á Brekkukotsannál sem sögu um ólíka heima, gamlan og nýjan, en krosshliðið í Brekkukoti markar landamærin, „þar sem skilur tvo heima“, eins og segir á einum stað í sögunni

Innan við krosshliðið eru engar kröfur gerðar, hvorki veraldlegar né andlegar, enda lifir fólkið lífi sem hefur þótt nógu gott fyrir landsmenn öldum saman. Fólkið í Brekkukoti lifir reglubundnu lífi sem er í föstum skorðum, virðir rétt annarra til að vera öðruvísi og sýnir engum manni áreitni. Þar eru orðin of dýr til að eyða þeim í gálaust hjal, kerskni eða lygar; forvitni og stelvísi lagðar að jöfnu. Heimurinn innan við krosshliðið er líkastur Paradís. Þar er rekið ókeypis gistihús fyrir alla sem vilja. Þar hafa menn enga trú á peningum né öðrum nýmælum. Amma og afi í Brekkukoti eru manna geðþekkust og standa föstum fótum í liðnum tíma. Í huga þeirra er sá auður einn sannur sem ekki verður af mönnum tekinn. „Auðæfi eru það sem ekki aðrir ná af manni,“ segir amma við Álfgrím undir lok sögunnar. Utan við krosshliðið er annar heimur, annar tími, annað samfélag. Brekkukot og Gúðmúnsensbúð eru tákn tveggja viðhorfa í sögunni. Brekkukot táknar hreinlyndi, hógværð og iðni – eða hinn hreina tón – en Gúðmúnsensbúð allt hið gagnstæða, – og hinn nýja tíma. Sú list sem þar á sér griðastað er ekki sönn. Hinn kyrrstæði heimur innan við krosshliðið felur í sér dýrmæta menningu, sérstætt gildismat og býr yfir ákveðnum töfrum en hann byggir á sögulegum og félagslegum forsendum sem eru að bresta í bókinni. Nýi tíminn heldur innreið sína í Reykjavík. Nútíminn er að bresta á með breyttum atvinnuháttum sem leggja grunn að nýju samfélagi.

Í síðari bókum sínum kemur Halldór aftur og aftur að því að eiginlega skipti litlu máli fyrir líf okkar hér á jörð hvaða trúarlegar eða heimspekilegar formúlur við aðhyllumst. Það séu hinir mannlegu eiginleikar sem úrslitum ráði, hin mannlega reisn. Margar persónur bóka hans einkennast af þessu. Líf þeirra byggir á umburðarlyndi gagnvart náunganum og er algjörlega laust við hvers kyns ofstæki. Hvað sem á gengur birtir fólkið sína sérstæðu afstöðu með óbifanlegri rósemi, einungis með því að breyta eins og því er eðlilegt.

Lífsskoðun af þessu tagi líkist mjög taóisma sem á rætur að rekja allt austur til Kína. Þótt Brekkukot sé óneitanlega íslenskt alþýðuheimili skoðar höfundur sögunnar heimilisfólkið í ljósi taós. Að vísu er taó aldrei nefnt á nafn en návist þess leynir sér ekki, t.d. í 19. kapítula þar sem Álfgrímur segir frá morgunverkunum með Birni í Brekkukoti:

Þessir mornar þegar við vorum að vitja um hrokkelsin á Skerjafirði, og þeir voru í raun og veru allir einn og sami morguninn: altíeinu eru þeir liðnir. Stjörnur þeirra eru fölnaðar; kínversku bókinni þinni lokað.

Þessi kínverska bók er Bókin um veginn eftir spekinginn Lao–tse, eins konar spakmælasafn sem líkist fremur samtíningi en heildstæðu hugmyndakerfi

Kostgripir hins vitra manns eru samkvæmt henni hófsemd, sparsemi (í víðtækri merkingu) og lítillæti

Þær persónur sem eru mest áberandi í Brekkukoti eru “afi” og “amma” Álfgríms. Amman heldur öllu saman á heimilinu, hún innir af hendi dagleg störf sín svo að segja ósýnilega, án erfiðismuna og fyrirgangs og breiðir öryggiskennd yfir allt sem umhverfis hana er. Sama má segja um Björn í Brekkukoti. Það er ekki að ástæðulausu að menn hafa séð samlíkingu með ömmu Álfgríms og ömmu Halldórs, Guðnýju Klængsdóttur, en ætli hún sé ekki frægasta skáldamma íslenskra bókmennta, svo oft hefur Halldór vitnað til hennar. Raunar vísar hann til hennar í minniskompu sinni sem ég vitnaði til hérna á undan. Þar segir Halldór að skv. orðum nágranna þeirra hafi amma hans sagt við hann: „Kondu hérna Dóri minn, ég ætla að segja þér fyrir. … Síðan hvíslaði hún einhverju að mér áður en ég fór – kanski því að muna eftir að þakka fyrir mig eða drepa ekki flugur á ókunnugum bæ.“ Þið kannist væntanlega öll við áminninguna um að veitast ekki að flugum í annarra manna húsum. Á öðrum stað segir Halldór í kompunni: „Amma mín kendi mér að sýna öllum mönnum kurteisi og góðvild, en þó sérstaklega fátæklíngum og gamalmennum. Í umgeingni, framkomu gagnvart dýrum gilti hjá henni sérstakur codex ethicus,“ nóterar skáldið hjá sér. Sú siðfræði birtist aðeins síðar í kompunni með þessum orðum: „Mórall: Aldrei tala illa um kýr. Aldrei tala vel um hunda og ketti. Aldrei segja grey um hest eða kind. Ekki drepa flugu í öðrum húsum.“ Þarna er flugnafriðunarákvæðið ítrekað. Og ögn aftar punktar Halldór hjá sér: „Dreingurinn sýngur vögguljóð við hundinn, bölvar kúnum, hvorttveggja stránglega bannað.“

Amma og afi í Brekkukoti lifa lífi sínu á ósjálfráðan hátt og virðast ekki velta vöngum yfir lífsstefnu sinni eða sambandi sínu við aðrar manneskjur eða umheiminn. Eftirlitsmaðurinn sem býr undir sama þaki og þau hefur aftur á móti kosið sér hlutskipti og hann getur rætt um lífsviðhorf sín. Hann var áður bóndi en seldi eigur sínar til þess að geta hlýtt þeirri köllun sinni að gera salernin við höfnina í Reykjavík hrein og ilmandi „einsog apótekið hjá þeim danska manni Mikael Lúnd“ og viðhalda því hreinlæti. Hann ætlar sér þannig að gera hið auvirðilegasta í bænum göfugt, upphefja hið lága, en hátt og lágt eru andstæður sem skipta hann engu máli eða eins og segir í sögunni: „Hátt og lágt vinur, sagði eftirlitsmaðurinn og skríkti ofurlítið – í hljóði: ég veit ekki hvað það er“. Fyrir honum er hið hærra hætt að vera hærra og lægra hætt að vera lægra. Hann er gersneyddur allri tilhneigingu til að prédika siðfræði fyrir öðru fólki. Í augum hans eru allir menn jafn gildir. Breytni hans einkennist af takmarkalausri hjálpsemi, samfara rótgróinni andúð á að grípa fram fyrir hendurnar á öðrum eða hafa áhrif á örlög meðbræðra sinna. Afstaða hans getur virst einkennast af taó, því afli er smýgur gegnum allt og drottnar yfir öllu þótt það sé kyrrlátt og geri engar kröfur, sé meira að segja afskiptalaust, en þegar Álfgrímur rifjar þetta upp löngu síðar ber hann þetta saman við annað siðgæðiskerfi. Honum finnst hann hafa orðið áheyrsla þess er fullkominn vinur manna mælti orðum kirkjufeðra og heilagra manna en með gagnstæðum formerkjum: hann upphóf manninn meðan kirkjunnar menn töluðu af fullkomnum viðbjóði um sköpun mannsins. Eftirlitsmaðurinn er þó ekki kristinn heldur blátt áfram laus við alla guðfræði enda viðurkennir hann ekkert yfirnáttúrlegt nema tímann. Hins vegar virðist slíkur maður auðugri af taó en flestir aðrir samkvæmt túlkun Halldórs Laxness á því hugtaki.

Kjarninn í taó Halldórs felur í sér virðingu fyrir öllu lífi, trú á óbrotinn mannkærleika, trygglyndi og hreinlyndi. Þessa fyrirmynd mannlegrar breytni sem sett var fram í kínversku kveri fyrir þúsundum ára finnur hann meðal venjulegs íslensks alþýðufólks

Halldór teflir fram þessari angurværu mynd af lífinu í Brekkukoti gegn nútímanum þar sem önnur gildi eru hafin til vegs. Í bókarlok vitum við að heimurinn innan við krosshliðið er á hverfanda hveli. Álfgrímur stígur skrefið til fulls, yfirgefur Brekkukot til að fara út í heim til að læra að syngja og feta þannig í fótspor stórsöngvarans Garðars Hólm.

Huldufólkið

„Eftirlitsmaðurinn okkar hefur líklega verið af huldufólksættinni, að minstakosti heyrði ég því aldrei fleygt að hann væri kominn af prestum sýslumönnum og skáldum,“ segir Álfgrímur í sögunni. Eftirlitsmaðurinn er nefndur huldumaður á öðrum stað í bókinni en að öðru leyti er huldufólk ekki nefnt á nafn. Og þá komum við aftur að þessum undarlega þjóðflokki sem ég vék að í upphafi. Þessi undarlega huldufólksætt fylgdi mér lengi, þ.e.a.s. ég fann hvergi almennilega skýringu á nafngiftinni, þótt vissulega grunaði mig hvað þetta merki.

Ég leitaði í öðrum verkum Halldórs að huldufólki – öðru en því sem byggir kletta og þekkt er úr þjóðtrú enda sýnist mér ljóst að þessi umrædda ætt er á meðal okkar og af holdi og blóði. Ekki hefur mér tekist að finna þetta fólk í öðrum skáldverkum Halldórs en í minningasögunni Í túninu heima segir á einum stað:

Einusinni var ég á ferð í Kaupmannahöfn og sat þar veislu hjá íslendíngum. Áður en borð voru upp tekin reis úng kona úr sæti og rétti mér tímarit þar sem mynd af móður minni var prentuð á forsíðu, en hún var þá látin fyrir fjórum árum. Frúin bað mig segja veislugestum eitthvað frá móður minni.

Ég hafði reyndar laungu gleymt þessu atviki og veislunni sjálfri að mestu, en var mintur á það á dögunum. Ég vitna til þess hér eins og frásagnar um altannan mann. Mér var sagt að fyrst hefði ég horft leingi þegjandi á myndina í sæti mínu og loks þegar ég stóð upp hafi ég ekki sagt annað en þetta: Í rauninni þekti ég aldrei þessa konu. Hún var huldukona. En mér hefur þótt vænna um hana en aðrar konur.

Í Reisubókarkorni víkur Halldór að mæðrum og ömmum alþýðunnar sem „kent hafa börnum sínum og barnabörnum ljóð skáldanna alla þjóðarævina, [og] verið jarðvegur bókmenta á Íslandi. Þær hafa verið hinn nafnlausi og dularfulli hulduháskóli skáldskapar og túngu.“ Þarna er bersýnilega sama hugsun á ferð hjá Halldóri.

Það var ekki fyrr en Auður Laxness lofaði mér að glugga í minniskompur Halldórs frá þeim tíma er hann vann að Brekkukotsannáls að ég fann lykilinn að þessari gátu. Þar skrifar skáldið hjá sér hvað hann ætlar sér með bókinni:

„„Huldufólkið“ hið óbreytta „óspilta“ fólk – og þó svo óendanlega breyskt ef það er skoðað frá sjónarhorni móralteólógíunnar eða annarra siðferðiskerfa – bókin á að vera óður til þess, sönnun þess að það er einmitt þetta fólk, hið óbreytta fólk, sem fóstrar öll mannleg friðsamleg verðmæti. Sögupersónan á rætur sínar í hinu kyrra djúpi alþýðunnar, og [það góða fólk], sem hann mætir í æsku, verður þess valdandi að öll heimsins dýrð verður honum einskisverð þann dag sem honum stendur hún til boða – sakir þeirrar þrár sem hann ber til að komast aftur heim, finna hið kyrra djúp óbreytts mannlífs á nýaleik.“

Brekkukotsannáll er með öðrum orðum hylling á því alþýðufólki sem vinnur störf sín af trúmennsku og stærir sig ekki af þeim, óður til óbreytts mannlífs og þess fólks sem Halldóri þótti vænna um en annað fólk. Og til að hnykkja enn frekar á þessu segir nokkru síðar í minniskompunni:

Tvennskonar íslendíngar: hinir extróvertu fantastísku, sem eru síkjaftandi og símontandi sig, og setja svip sinn á þjóðlífið og stjórna hólfélaginu – og svo huldufólkið … sem hefur flest það er menn má prýða, en er með öllu laust við sérframtrönulegheit en það er kjarninn bakvið, það element sem því hefur ráðið að mannlíf er á Íslandi enn, það fólk sem vinnur öll afrek en aldrei montar sig og ekkert heyrist um og hólfélagið mun aldrei uppgötva.

Fyrir utan orðið „sérframtrönulegheit“ sem skýrir sig sjálft er líklega eitt orð sem veldur því að menn sperra eyrun: hólfélagið. Á öðrum stað í minniskompunni er skilgreining á því og hún er svona:

„Hólfélagið – samábyrgð míkróskópískra lókalstærða um að hæla hver öðrum.“ Hólfélagið er með öðrum orðum það sem gjarnan er nefnt nú á dögum skjallbandalag eða aulabandalag.

Huldufólkið er þannig hinn þögli hópur sem geymir öll þau verðmæti sem einhvers eru verð; alþýða manna. Hólfélagið er síðan andstæða alls þess sem hún stendur fyrir. Ókrýndur konungur hólfélagsins í Brekkukotsannál er Gúðmúndsen kaupmaður. Í minniskompunni gengur hann framan af undir heitinu Burgeisinn. Þar segir á einum stað: „Burgeisnum er blöffið alveg jafndýrmætt og sönn list. Í mörgu falli er blöffið betri verslunarvara en sönn list. Þetta er annar heimur en í Brekkukoti,“ nóterar skáldið hjá sér.

Eftirlitsmaðurinn lýsir lífsskoðunum sínum í bókinni á meðan afi og amma lifa einfaldlega í samræmi við sín lífsgildi ósjálfrátt, að því er virðist. Orð hans eru samkvæmt sögunni sprottinn úr djúpi alþýðunnar en gætu eins verið orðskviðir frá Austurlöndum fjær. Álfgrímur verður áheyrsla að samtali Garðars Hólm og Eftirlitsmannsins sem hann kallar raunar meistara. Þá spyr alheimssöngvarinn hvort hann viti nema hann sé að styrkja hann til að verða afbrotamann og eftirlitsmaðurinn svarar: „Jafnvel þó mús kæmi til mín og segðist ætla að fara fljúgandi yfir sjóinn og assa segðist vera að hugsa um að grafa sér holu oní jörðina, þá mundi ég segja veskú. Það á að minstakosti að leyfa hvurjum einum að lifa einsog hann sjálfur vill meðan hann aftrar ekki öðrum frá að lifa einsog þeir vilja. … Ég álít að upphaf vellíðunar sé fólgið í því að vera ekki að skrifta sér af hvurt aðrir menn ætla.“ Hver maður er með öðrum orðum ábyrgur fyrir sínu lífi, honum ber að lifa í því í sátt við sjálfan sig og bera virðingu fyrir skoðunum annarra. Í minniskompunum er að finna áréttingu á þessu en þar hamrar skáldið á því að líf þessa fólks einkennist af grandvarleika, lífstrú, bjartsýni, takmarkalausum góðvilja, fátækt sem það sé hafið yfir. Afstaðan til höfðíngjanna sé „neutral respekt“.“ Í upphafi virðist Halldór hafa ætlað sér að láta eftirlitsmanninn setja fram lífsfílósófíu sína með afdráttarlausari hætti en varð á endanum því að í kompunum er klausa þar sem segir einfaldlega: „Meistarinn og lærisveinn hans. Meistarinn: Vertu altaf tilbúinn að snúa baki við því öllu saman og segja – það er einskisvert. Hvað er þá einhversvert? Svar: Það að vera maður.“ Þessa klausa rataði hins vegar ekki inn í lokagerð bókarinnar.

Þetta skýrir kannski af hverju ég tel Skáldatíma vera svo fulla af sársauka: Halldór gerir upp við fortíð sem ekki er fögur, hann hafði lofsungið einræðisherra sem var algerlega siðferðislaus og lifði andstætt gildum eftirlitsmannsins – og huldufólksins – sem Halldór upphefur í Brekkukotsannál.

Virðing fyrir alþýðu landsins

Ég nefndi í upphafi að ég teldi Brekkukotsannál vera kjarnaverk á ferli Halldórs Laxness því að hvergi rísa lýsingar hans á huldufólkinu hærra, því fólki sem stóð honum næst – og tákngerist kannski í móður hans og ömmu. Í raun má segja að í verkum sínum upphefji hann ævinlega þetta fólk. Virðingin fyrir huldufólkinu er að mínu viti kjarninn í verkum hans. Við sjáum þetta í stórbrotnum skáldsögum hans, hvort sem hann er að skrifa um Sölku Völku, Bjart í Sumarhúsum eða hetjur fornaldar. Við sjáum þetta líka í greinaskrifum hans. Á þriðja áratugnum var hann að kenna þjóðinni að þrífa sig og bursta tennurnar; á fimmta áratugnum lét hann gamminn geisa um það hvernig þjóð sem vildi verða sjálfstæð yrði að haga sér til þess að hún væri virt og aðrir tækju mark á henni; á áttunda áratuggnum reyndi hann að koma vitinu fyrir ráðamenn í umgengni þeirra um landið í anda náttúruverndarsinna nútímans og svo mætti lengi telja. Hann vildi að þjóðin bæri virðingu fyrir sjálfri sér – enda gæti hún ekki fyrr ætlast til þess að aðrir bæru virðingu fyrir henni.

Ég gæti í sjálfu sér gripið víða niður í ritgerðir Halldórs og bent á dæmi um virðingu hans fyrir alþýðu landsins en læt eitt duga sem hluta fyrir heild.

Fyrir tveimur áratugum var gefin út hér á landi bókin Reginfjöll á haustnóttum eftir Kjartan Júlíusson á Skáldstöðum efri í Eyjafirði. Þar er að finna frásagnir Kjartans af „skemtigaungum [hans] um reginfjöll á síðhausti“ en einnig sögur af „mönnum sem lenda í skrýtilegum lífsháska, tam vegna príls í klettum ellegar þeir eru eltir uppi af mannýgum nautum … Einnegin … skrýtlur um svipi og ýmiskonar spaugelsi sem sveitamanni er títt að hafa uppi til að kollvarpa fyrir okkur vísindum heimsins og umturna náttúrufræðinni.“

Þessi alþýðumaður og afdalabóndi bjó með innanvið tuttugu kindur, eina kú og geldkú af næsta bæ sem þjónaði sem stallsystir eða selskapsdama hjá Búkollu sem mjólkaði annars ekki sakir myrkfælni. Til hliðar við bústörfin setti Kjartan síðan á blað frásagnir sem komu út á bók fyrir tuttugu árum. Halldór Laxness ritaði formála að bókinni en þar segir Nóbelsskáldið meðal annars um höfundinn, Kjartan Júlíusson á Skáldstöðum efri:

Af bréfum hans, minnisblöðum og skrifuðum athugunum sá ég að þessi kotbóndi hafði snemma á valdi sínu furðulega ljósan hreinan og persónulegan ritstíl, mjög hugþekkan, þar sem kostir túngunnar voru í hámarki, blandnir norðlenskum innanhéraðsmálvenjum sem alt er gullvæg íslenska; og ég velti þessu hámentabókmáli fyrir mér af þeirri orðlausu undrun sem einstöku sinnum grípur mann gagnvart íslendíngi.

Þarna skrifaði blásnauður afdalakall, ósnortinn af skóla, svo dönskuslettulaust, þeas svo lítt þrúgaður af kúgun fyrri alda, að maður gat lesið hann af álíka öryggi og Njálu … Ég spurði hvar hann hefði lært að stílsetja. Hann svaraði því til að hann hefði líkt eftir skrifuðu máli föður síns. Þau rit fékk ég að sjá og voru sumpart í annálastíl, sumpart með blæ þjóðsagna, en slíkur stílsmáti er alt að því fornmál og á, eins lángt og hann nær, innangeingt í íslendíngasögur. Þessi ósjálfráði snildarblær úr íslenskri hreintúngustefnu hafði geingið að erfðum frá föður til sonar, í afdölum Eyafjarðar, hver veit hvað leingi, hjá mönnum sem aldrei höfðu leitt danska bók augum né heyrt nokkurn mann sletta dönsku; því síður komist í tæri við fyrri tíma heldra fólk á Akureyri.

Halldór sér í þessum afdalabónda fulltrúa fornrar menningar, fagurrar íslensku og náttúruverndarmann að hætti nútíma, eins og hann víkur að annars staðar í formálanum, en þar segir að slíkur maður væri „sjálfkjörinn félagsmaður í náttúru­verndar­hreyfíng­unni og gegn meingun.“

Kannski eru það fordómar – en maður veltir óneitanlega fyrir sér hvernig standi á því að rithöfundur sem hlotið hefur Nóbelsverðlaunin í bókmenntum skuli sjá ástæðu til að skrifa formála að þáttum íslensks „afdalakalls“; frásögnum sem eru einkum og sérílagi um það sem gerist í sjálfum honum af því að stíga inn í þá mynd sem hann hefur haft fyrir augum heima á bæjarhellunni. Af hverju er maður sem skrifað hefur frægar bækur að verja dýrmætum tíma sínum í slík ritstörf? Hvað sá maður, sem bæði heima og erlendis hafði hitt ótölulegan fjölda svokallaðra stórmenna, í þessum skrifum og höfundi þeirra?

Halldór kallar Kjartan „kunníngja“ í formálanum og mun hafa heimsótt hann í afdalakotið nokkrum sinnum á ferðum sínum um landið. Ég held samt að það hafi ekki verið nóg að vera kunningi Halldórs Laxness til þess að hann skrifaði formála að bók eftir viðkomandi. Ég held að ástæðan fyrir þessum skrifum sé sú að Halldóri hafi fundist Kjartan hafa verið af „huldufólksættinni“, þeirri ætt sem Halldór hyllir í Brekkukotsannál.

Garðar Hólm og Álfgrímur

Mér hefur orðið tíðrætt um þessa tvo heima í Brekkukotsannál sem krosshliðið skildi að og hvernig lesa má söguna sem átök milli þeirra. Önnur leið að Brekkukotsannál er að skoða söguna út frá sambandi Garðars Hólm og Álfgríms þar sem örlög söngvarans færast að miðju frásagnarinnar. Ef við höfum þá tvo í brennidepli má segja að Brekkukotsannáll sé harmsaga í ljósi tærrar bernsku; hamingja bernskunnar í skugga örlaganornarinnar. Annað býr undir kyrru yfirborði endurminninganna. Þegar Garðar Hólm kemur fyrsta sinni heim býður lesandann í grun að ekki sé allt sem sýnist, – hér sé harmsaga á ferð

Helsti stuðningsaðili Garðars Hólm á Íslandi er Gúðmúnsensbúð. Gúðmúnsen kaupmaður sem líta má á sem tákn „blöffsins“ sem Halldór kallar svo í minniskompunum er skringileg persóna en um leið aumkunarverð. Hann er menningarlaus. En hann hefur komist að því að þótt hann lifi góðu lífi án menningar getur „búðin“ ekki komist af án hennar – það vantar slaufu á saltfiskinn – og því leggur hún fram fé í „fyrirtækið“ Garðar Hólm. Seinna kemur í ljós að það fyrirtæki er vafasamt í meira lagi en „búðin“ má ekki við því að viðurkenna að hún hafi misreiknað sig í menningarfyrirtækinu, hún reynir að minnsta kosti að skjóta þeirri játningu á sem lengstan frest. Á meðan er meintri frægð söngvarans haldið að alþýðu manna, hún skal trúa því að Garðar sé stórsöngvari og í því skyni eru fluttar stöðugar fréttir af sigrum hans á erlendri grund. Og þessum blekkingum trúa menn. Garðar skilur sjálfur örlög sín, leikur hlutverk sitt meðan stætt er, en veraldarleiði hans er einlægur og kvöl hans uppgerðarlaus.

Frægð Garðars er blásin út en þegar til á að taka reynist vera harla lítil innistæða fyrir henni. Af þessum sökum hafa ýmsir velt því fyrir sér hvort Brekkukotsannáll sé um fánýti frægðarinnar eða hvort frægð sé þar alls ekkert til umræðu. Vissulega er þetta átakanleg saga um hinn eilífa frægðardraum landans sem úr eymd eða fásinni leitar utan til að sigra heiminn en kemur aftur sigraður. Sannleikurinn er hins vegar sá að Garðar Hólm er hvort tveggja í senn frægasti maður Íslands og óbreyttur sjómaður á Jótlandi. Þetta eru vitaskuld algjörar mótsagnir þannig að Garðar verður kannski ekki rökfræðilega “réttur” en í verkum sínum setti Halldór Laxness gjarnan fram tvær setningar, tvær hliðar máls eða persónu sem rekast óþyrmilega á: sannleikurinn kann þá að birtast í leiftrinu sem verður við áreksturinn. Af þeim sökum er Brekkukotsannáll um frægðina, – meðal annars. Andstæður tímans, andstæður þjóðfélagsins taka sér bústað í manninum Georg Hanssyni eða Garðari Hólm. Sem manni eru honum þær andstæður að lokum ofurefli. Niðurstaðan verður algild mannleg harmsaga.

Æska Álfgríms er með nokkrum hætti endurtekning á æsku Garðars Hólm. Báðir alast þeir upp við gamla kirkjugarðinn, þar syngja þeir báðir við smærri jarðarfarir hjá séra Jóhanni dómkirkjupresti og stefna báðir á frama í sönglist þegar þeir vaxa úr grasi. Saga drengsins er innskot í sögu heimssöngvarans en um leið er þetta þroskasaga Garðars. Ævi Álfgríms má þó ekki skoðast sem einhvers konar yfirnáttúrleg endurtekning á ævi Garðars.

Álfgrími er einmitt frjálst að leggja sinn skilning í hlutverk sitt sem arftaka söngvarans. Harmleikur Garðars er aðeins ein af mögulegum framtíðarleiðum Álfgríms. Í lok bókarinnar verður hann að velja sér veganesti á listabrautinni. Hann getur farið að dæmi Georgs Hanssonar og tekið við ávísun frá Gúðmúnsensbúð. Hann getur líka valið að hafa með sér arfleifðina úr Brekkukoti, bera virðingu fyrir menningu heimsins fyrir innan krosshliðið og gildum hans og taka með varúð því sem er fyrir utan það. Hann tekur ekki tilboði Gúðmúnsens og því má ætla að ferill hans verði annar en Garðars Hólm. Hins vegar getur samtal þeirra Álfgríms á leiði Gabríels undir lok bókarinnar vísað í aðra átt. Af hverju segir Álfgrímur alltaf að Garðar sé að segja ævisögu hans. Álfgrímur er sögumaður bókarinnar og ræður ferðinni – getum við treyst honum? Er lýsing Garðars Hólm á mögulegum ferli Álfgríms sönn eða bölsýni sigraðs manns?

Platsöngvarinn

Persóna Garðars virðist hafa þróast nokkuð meðan á samningu sögunnar stóð. Fremst í minniskompunum er hann kallaður „platsöngvari“ og þar segir:

Saungvarinn sem kemur heim til að hvíla sig og hefur náð einhverri ógurlegri heimsfrægð. (Alt blekkíng hans sjálfs) Hámark í plati hans er þegar hann heldur konsert fyrir móður sína blinda í kirkjunni, og hún er eini áheyrandinn fyrir utan söguhöfund sem hefur frétt þetta og læðist inn. Hann er ekki aðeins að plata sjálfan sig og heiminn, heldur framar öllu móður sína sem hann elskar of mikið til þess að láta hana nokkru sinni vita annað en hann sé heimssöngvari.

Þetta verður allt miklu flóknara í sögunni og raunar er lokahluti bókarinnar alveg sérstaklega magnaður. Hversu mikið veit t.d. móðir hans? Hún biður Álfgrím að færa barnabörnunum gjafir rekist hann á frú Hansen í Danmörku. Hvað merkir það? Veit hún allt um Garðar – músina á hlöðuloftinu. Veit Garðar að móðir hans veit? Hver er að blekkja hvern? Eða eru þau einfaldlega að leika leikritið til enda? Í það minnsta sýnist mér persóna Garðars Hólm hafa dýpkað mjög frá fyrstu drögum.

Annað sem hefur breyst á meðan Halldór ritaði bókina er hversu langt hann fylgir Álfgrími. Í minniskompunum er eftirfarandi lýsing á því hvernig hann afhjúpar platsöngvarann:

Þegar söguhetjan heimsækir hann, eftir að hafa grafið upp heimilisfáng hans með erfiðismunum í London, þekkir saungvarinn ekki skjólstæðing sinn og er sjálfur tötramaður í furðulegri eymd (ath. með konu og börn). … nokkrum árum síðar finnur hann heimili platsaungvarans í Khöfn, þar fær hann að sofa á þverbitum í húsi nokkru, og liggur þar innvafinn í Politiken.

Í sögunni er þessum kafla alveg sleppt en við sjáum leifar af þessu í því að Garðar vefur sig inn í London Times á hlöðuloftinu – og fast heimili hans virðist vera á Jótlandi. Þannig verður sagan kannski knappari í forminu, rammi hennar er skýr.

Ég rakst fyrir nokkru á eldri drög að alheimssöngvara í skrifum Halldórs en það er í minniskompum hans frá því að hann vann að Sjálfstæðu fólki. Þar segir:

Alheimssaungvarinn: Sambland úr „the unsuccsessful“ (Eggert Stefánsson), „the charlatan“ [loddari] Sölvi Helgason, „the enthusiast“ [eldhugi] (Björn að baki Kára, Grétar Ó. Fells), The outlaw (Grettismótívið), The vagabond [förumaður] (Jón Pálsson), The genius (Jón Þorbergsson í Los Angeles), and The dranker, The original.“ (3). Síðan punktar skáldið hjá sér hugmynd að lokum sögunnar: „Schluss: Vindurinn „meldar“ sig til að bjóða saungvaranum að leggja undir sig heiminn.

Þannig virðist sagan um alheimssöngvarann hafa leitað á Halldór Laxness um tveggja áratuga skeið áður en hann sendi frá sér Brekkukotsannál.

Langur meðgöngutími

Raunar varð það gjarnan svo að hann gekk með verkin lengi í maganum. Nægir þar að nefna Íslandsklukkuna og Paradísarheimt. Í upphafi fimmta áratugarins hélt Halldór Laxness útvarpserindi þar sem hann sagði:

Samtíminn, hið iðandi líf umhverfis höfundinn og í brjósti hans, neyðir uppá hann yrkisefnum sem hann hafði síst órað fyrir, yrkisefnum sem hann hefur kanski flúið árum saman, yrkisefnum sem hann mundi gefa aleigu sína, þótt hann væri miljónamæríngur, til að þurfa aldrei að færast í fáng. Til dæmis veit ég að höfundur einn er nýbyrjaður á bók sem hann hefur í átján ár verið að biðja guðina að forða sér frá að skrifa. Höfundinum finst sér verkið ofvaxið, hann hryllir við öllu þessu stríðandi lífi sem heimtar að hann gefi því mál og form, neitar þverneitar og þráneitar að leggja sig í þennan voða – en hann hefur nú einu sinni veðdregið sig sköpunaröflum lífsins og þau halda áfram að heimta hann óskiftan, og honum verður ekki undankomu auðið.

Halldór hafði með öðrum orðum þvælst með Jón Hreggviðsson innra með sér í tæpa tvo áratugi áður en hann afréð að skrá sögu hans á bók. Í þessu tilviki eru það ytri aðstæður, væntanlegt sjálfstæði þjóðarinnar, sem knýr Halldór kannski til verka. Íslandsklukkan var innlegg í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar en þar er að finna hin fleygu orð: „Feitur þjónn er ekki mikill maður. Barður þræll er mikill maður, því í hans brjósti á frelsið heima.“

Ólíkar ástæður virðast hafa legið til þess að hann réðst í að rita Paradísarheimt, næstu bók á eftir Brekkukotsannál. Hann lýsti í ritgerð upphafi þess að hann fór að leggja drög að sögunni um Steinar bónda undir Steinahlíðum sem fór til fyrirheitna landsins til þess eins að komast að því að það væri að finna í túninu heima:

Haustið 1927 þegar ég stóð í fyrsta sinni andspænis musterinu í Salt Lake City [höfuðborg Utah–ríkis] með hásmíðuðum turnum sínum þráðbeinum upp og ofan, og hinumegin við torgið kúrir tabernaklið ávalt og ílángt, að innan í laginu einsog Munnur Guðs, þá kom upp í hug mínum sagan sem ég hafði lesið af tilviljun dreingur, um pílagímsfarir lítils karls um veröldina í leit að fyrirheitna landinu, og ef hægt var, enn viðurhlutameiri raunir sem fólk hans rataði í eftir að hann var farinn. Ég vissi ekki fyr en ég var farinn að leiða saman sögu þessa við sjálfan veruleikann. Hugmyndin hélt síðan áfram að sækja á mig í meira en þrjátíu ár.

Saga Steinars eða Eiríks á Brúnum hefur væntanlega leitað útrásar af öðrum ástæðum og persónulegri en saga Jóns Hreggviðssonar, þó að bæði efni hafi hafi beðið lengi eftir því að komast á þrykk. Paradísarheimt má lesa sem uppgjör Halldórs við leitina að sæluríkinu: fyrst var það kaþólskan, þá sósíalisminn með Sovétríkin sem Paradís, en hvorugt reyndist traust hæli í heimi hér. Niðurstaða leitarinnar er að rækta eigin garð – heimspeki huldufólksins. Brekkukotsannáll er kannski af sama meiði, tilhlaup að þessari sömu niðurstöðu eins og kemur fram í orðum Garðars Hólm við Álfgrím:

… mundu mig um eitt: þegar heimurinn hefur gefið þér alt; þegar miskunnarlaust ok frægðarinnar hefur verið lagt á herðar þér og brennimarki hennar þrýst á enni þér, óafmáanlegu einsog þess manns sem varð uppvís að heimsglæp, mundu þá að þér er ekki athvarf nema í einni bæn: Guð taktu það alt frá mér – nema einn tón.

Eða eins og meistarinn sagði við lærisveininn og ég vitnaði til áðan úr minniskompunni: „Vertu altaf tilbúinn að snúa baki við því öllu saman og segja – það er einskisvert. Hvað er þá einhversvert? Svar: Það að vera maður.“

Hvað má frægð og frami veita skáldi?“

Raunar má greina óm af þessari hugsun í ræðu Halldórs á Nóbelshátíðinni, tveimur árum áður en Brekkukotsannáll leit dagsins ljós:

… hvað má frægð og frami veita skáldi? Vissulega velsælu af því tagi sem fylgir hinum þétta leir. En ef íslenskt skáld gleymir upphafi sínu í þjóðdjúpinu þar sem sagan býr; ef hann missir samband sitt og skyldu við það líf sem er aðþreingt, það líf sem hún amma mín gamla kendi mér að búa öndvegi í huga mér – þá er frægð lítils virði; og svo það hamíngjulán sem hlýst af fé.

Þetta er það vegarnesti sem Álfgrímur fær frá ömmu sinni og afa þegar hann heldur út í heim: „ef þú skyldir einhversstaðar í heiminum hitta fyrir þér kellíngarskar einsog mig, þá bið ég að heilsa henni,“ segir amma í Brekkukoti þegar hún kveður piltinn. Vertu trúr uppruna þínum og þá mun þér farnast vel, má segja að sé niðurstaðan, jafnvel þótt þú lendir í ferðalögum.

Ég hef rakið hér stuttlega tvær leiðir til að túlka Brekkukotsannál en það eru vissulega fleiri möguleikar á útleggingum á þessum ágæta texta. Þessar tvær leiðir eru hins vegar nátengdar. Garðar Hólm óx upp í sama umhverfi og Álfgrímur, var af sömu huldufólksættinni en villtist af leið, ef svo má segja. Það er harmleikur hans. Hann gekk á vit hólfélagsins sem er samábyrgð míkróskópískra lókalstærða um hæla hver öðrum, hann ætlaði sér hærra en að sýngja yfir moldum þeirra manna sem höfðu ekkert andlit.

Ég nefndi í upphafi að beðið hefði verið með eftirvæntingu eftir Brekkukotsannál. Sumir virtust ekki vera vissir um hvernig ætti að taka henni en Kristján Karlsson sagði í dómi um bókina þegar hún kom út: „Mér er ekki ljóst, hvort þessi sérkennilega íslenzka harmsaga með hið indæla ívaf muni verða talin með mestu verkum Halldórs Kiljans Laxness en hún stendur allt um það sem órengjanleg ávísun á mannlegar staðreyndir.“ Sigfús Daðason var hins vegar ekki í nokkrum vafa í grein sinni um verkið en þar segir hann að „Brekkukotsannáll sé „gallalausasta“ listaverk Halldórs Kiljans Laxness.“ Þótt við getum líklega seint sammælst um það hvert sé besta, mesta eða gallalausasta verk Halldórs getum við ugglaust tekið undir með gagnrýnanda Süddeutsche Zeitung fyrir nokkrum árum sem sagði að í Brekkukotsannál hljómaði hinn hreini tónn skýrar en í nokkurri annarri skáldsögu Halldórs Laxness.

Fyrirlestur í Endurmenntunarstofnun HÍ