Garðar Hólm er líklega einhver þekktasta persóna Halldórs Laxness. Segja má að hann hafi öðlast sjálfstætt líf í gegnum tíðina; nafn hans er orðið að samheiti yfir þá Íslendinga er hafa orðið heimsfrægir – í fjölmiðlum frekar en í veruleikanum. En Garðar Hólm er líka annað og meira. Hann er fánaberi „hólfélagsins“ – eða ætti kannski öllu heldur að segja fórnarlamb þess? Er hann fulltrúi hinna „extróvertu fantastísku“ sem eru „síkjaftandi og símontandi sig“ og andstæða „huldufólksins“ – eða er hann „huldumaður“? Brekkukotsannáll er einmitt um þessa tvenns konar Íslendinga: Hina extróvertu – hólfélagið – og huldufólkið. Þið megið ekki halda að þessi hugtök séu frá mér komin heldur eru þau fengin úr minniskompu Halldórs Laxness frá þeim tíma er hann skrifaði Brekkukotsannál og mun ég vitna til hennar hér á eftir.1
Garðar Hólm á sér lengri aðdraganda en ætla mætti. Eðlilegt væri að álykta sem svo að þessi persóna hefði leitað á Halldór þegar hann var sjálfur á hátindi ferils síns, frægðarsól hans í hádegisstað. Hann var nýbúinn að fá Nóbelinn þar sem hann sagði meðal annars í þakkarræðu sinni: „hvað má frægð og frami veita skáldi? Vissulega velsælu af því tagi sem fylgir hinum þétta leir. En ef íslenskt skáld gleymir upphafi sínu í þjóðdjúpinu þar sem sagan býr; ef hann missir samband sitt og skyldu við það líf sem er aðþreingt, það líf sem hún amma mín gamla kendi mér að búa öndvegi í huga mér – þá er frægð lítils virði; og svo það hamíngjulán sem hlýst af fé.“2
Frægð Garðars Hólm er blásin út í íslenskum blöðum en þegar til á að taka reynist harla lítil innistæða vera fyrir henni. Af þessum sökum hafa ýmsir velt því fyrir sér hvort Brekkukotsannáll sé um fánýti frægðarinnar eða hvort frægð sé þar alls ekkert til umræðu. Vissulega er þetta átakanleg saga um hinn eilífa frægðardraum landans sem úr eymd eða fásinni leitar utan til að sigra heiminn en kemur aftur sigraður. Sannleikurinn er hins vegar sá að Garðar Hólm er í sögunni hvort tveggja í senn frægasti maður Íslands og óbreyttur sjómaður á Jótlandi. Persóna söngvarans er þannig þversagnakennd; hann er bæði Georg Hansson og Garðar Hólm en sem manni verður honum sú þversögn að lokum ofurefli. Útkoman er mannleg harmsaga.
Til hærri drauma og fegurri söngva
Persóna Garðars Hólm varð ekki til á sjötta áratugnum. Í nótissubókum Halldórs frá því að hann vann að Sjálfstæðu fólki tveimur áratugum fyrr segir:
Alheimssaungvarinn: Sambland úr „the unsuccessful“ (Eggert Stefánsson), „the charlatan“ [loddari] Sölvi Helgason, „the enthusiast“ [eldhugi] (Björn að baki Kára, Grétar Ó. Fells), The outlaw (Grettismótívið), The vagabond [förumaður] (Jón Pálsson), The genius (Jón Þorbergsson í Los Angeles), and The dranker, The original.“.
Síðan punktar skáldið hjá sér hugmynd að lokum skáldsögu um þennan söngvara: „Schluss: Vindurinn „meldar“ sig til að bjóða saungvaranum að leggja undir sig heiminn.“3
Þannig virðist sagan um alheimssöngvarann hafa leitað á Halldór Laxness um tveggja áratuga skeið áður en hann sendi frá sér Brekkukotsannál. En hverjir eru þessir menn sem Halldór tiltekur og hversu mikið lifði af þeim í endanlegri gerð Garðars Hólm?
„The vagabond“ eða förumaðurinn er Jón Pálsson sem Halldór komst í kynni við á unga aldri og segir hann m.a. frá honum í Úngur eg var. Þess má einnig geta að Steinn Steinarr orti um Jón hið fræga ljóð: „Til minningar um misheppnaðan tónsnilling“ sem hefst á: „Vort líf, vort líf Jón Pálsson er líkt og nóta fölsk.“4 Halldór skrifar í minningasögu sinni að Jón Pálsson hafi ævinlega spilað sömu gavottu eftir Bach, hvenær sem hann komst í hljóðfæri með nótnaborði og ævinlega spilað sömu feilnótuna – án þess að taka eftir því.
Halldór segir enn fremur frá því í Úngur eg var að Jón Pálsson hafi verið kostaður til tónlistarnáms í Vín af Ludvig Guðmundssyni (sem höfundurinn lýsir á kostulegan hátt). Hann skyldi læra á trommu. Það fór litlum sögum af trumbunámi Jóns í Vín en hins vegar sneri hann heim til Íslands með óbó undir hendinni, fyrstur manna, segir Halldór í Úngur eg var.5 Hann ritar að Jón hafi aldrei gefið mikið út á það þegar menn spurðu hvort hann ætti óbó. Hann lýsir því síðan þegar Jón bauð honum loksins heim með sér að sjá óbóna:
Óbóan lá þar skorðuð í silkifóðruðum öskjum sínum, og í henni blundaði ekki aðeins siðmenníng Vínar heldur tónlist heimsins; og hann, Jón Pálsson frá Hlíð, var sá maður sem flutt hafði þennan töfragrip til Íslands. Saunggyðjan var þögul. Ég var þakklátur hinni þöglu gyðju fyrir að mega standa þarna þessi fáu andartök ásamt Jóni í Hlíð, og horfa á hljóðfæri sem býr yfir tóni örlaganna. Sjálfur varaðist eigandinn að snerta hljóðfærið með bláköldum höndum sínum; mér virtist hann meira að segja gæta þess að anda ekki á það; síðan lokaði hann hylkinu þögull og vafði dúknum aftur. … Einn morgun nokkrum dögum seinna fréttist að lík Jóns Pálssonar frá Hlíð hefði fundist sjórekið í Effersey.6
Jón Pálsson var semsé kostaður til tónlistarnáms án þess endilega að vera miklum hæfileikum gæddur og stytti sér að lokum aldur. Það vill svo til að Grétar Fells, sem einnig er nefndur sem hluti af alheimssaungvaranum, orti minningarljóð um Jón Pálsson. Grétar var mikill guðspekimaður og ritaði fjölmargt um þau málefni en Halldór kallaði hann eldhugann í minniskompunni. Í ljóðinu talar skáldið um að mörg vonabygging Jóns hafi oltið um koll „og víst kom það fyrir að hjartanu blæddi“ en lokaerindi ljóðsins hljóðar svo:
Svo hef ég þig til flugs, til að hreinsa þín sár
og hisminu fánýtu burtu að slöngva,
og seiði þig eilífðar himinninn hár
til hærri drauma og fegurri söngva.7
Tveir söngvarar
Eggert Stefánsson sem fyrstur er nefndur í tengslum við alheimssöngvarann hefur gjarnan verið talin bein fyrirmynd Garðars Hólm, eins og menn þekkja. Halldór kallar Eggert „the unsuccessful“ en honum er skemmtilega lýst í Skáldatíma. Þar segir Halldór frá tónleikum sem Eggert Stefánsson bauð honum til í Gamla bíói á fjórða áratugnum. Halldór var einn gesta í salnum fyrir utan móður söngvarans. Síðan ritar Halldór Laxness:
Mörgum árum síðar skrifaði ég skáldsögu um íslenskan saungvara Garðar Hólm sem ekki saung nema í eitt skifti og það var fyrir móður sinni daufri og blindri. Af öllum íslenskum saungvurum ósammælanlegum við alt annað var Eggert Stefánsson ólæsanlegastur í formúlu. Einusinni sagði hann uppúr þurru: „Ég gerði aðeins eina villu og hún var sú að sýngja. Garðar Hólm saung aldrei.“8
Halldór Laxness kynntist Jóni Þorbergssyni í Los Angeles ágætlega á þriðja áratugnum. Í minniskompunni sagði um þennan drátt í alheimssöngvaranum: „The genius (Jón Þorbergsson í Los Angeles)“. Magnús Á. Árnason, vinur Halldórs frá Ameríkuárunum, segir frá Jóni í bókinni Gamanþættir af vinum mínum þar sem hann ritar neðanmáls eftirfarandi lýsingu á félaga sínum:
Jón Þorbergsson hafði fegurstu söngrödd sem ég hefi nokkru sinni heyrt úr íslenzkum barka. … Því miður varð ekkert úr hans hæfileikum sökum erfiðra heimilisástæðna og heilsubrests (bronkítis).9
Útlagaminnið er sterkt í Garðari, eða Grettismótífið, eins og Halldór kallar það í minniskompunni. Segja má að Garðar sé útlagi því að hann hann getur í raun ekki komið heim nema sem gestur. Þá myndi blöffið komast upp.
Megindrættir alheimssöngvarans virðast þannig þegar orðnir ljósir um tveimur áratugum áður en Halldór Laxness sendi frá sér Brekkukotsannál.10
Samábyrgð míkróskópískra lókalstærða
Ég spurði í upphafi hvort Garðar Hólm væri fánaberi hólfélagsins eða fórnarlamb þess. Sá ágæti félagsskapur er andstæða huldufólksins. En hvað er þetta hólfélag og hvað á Halldór við með huldufólki? Fremst í minniskompu Halldórs Laxness frá þeim tíma er hann vann að Brekkukotsannál stendur:
„Huldufólkið“ hið óbreytta „óspilta“ fólk – og þó svo óendanlega breyskt ef það er skoðað frá sjónarhorni móralteólógíunnar eða annarra siðferðiskerfa – bókin á að vera óður til þess, sönnun þess að það er einmitt þetta fólk, hið óbreytta fólk, sem fóstrar öll mannleg friðsamleg verðmæti. Sögupersónan á rætur sínar í hinu kyrra djúpi alþýðunnar, og [það góða fólk], sem hann mætir í æsku, verður þess valdandi að öll heimsins dýrð verður honum einskisverð þann dag sem honum stendur hún til boða – sakir þeirrar þrár sem hann ber til að komast aftur heim, finna hið kyrra djúp óbreytts mannlífs á nýaleik.11
Brekkukotsannáll er með öðrum orðum hylling á því alþýðufólki sem vinnur störf sín af trúmennsku og stærir sig ekki af þeim, óður til óbreytts mannlífs og þeirra sem Halldóri þótti vænna um en aðra. Og til að hnykkja enn frekar á þessu segir nokkru síðar í minniskompunni:
Tvennskonar íslendíngar: hinir extróvertu fantastísku, sem eru síkjaftandi og símontandi sig, og setja svip sinn á þjóðlífið og stjórna hólfélaginu – og svo huldufólkið … sem hefur flest það er menn má prýða, en er með öllu laust við sérframtrönulegheit en það er kjarninn bakvið, það element sem því hefur ráðið að mannlíf er á Íslandi enn, það fólk sem vinnur öll afrek en aldrei montar sig og ekkert heyrist um og hólfélagið mun aldrei uppgötva.12
Á öðrum stað í minniskompunni er skilgreining á hólfélaginu: „Hólfélagið – samábyrgð míkróskópískra lókalstærða um að hæla hver öðrum.“13
Huldufólkið er þannig hinn þögli hópur sem geymir öll þau verðmæti sem einhvers eru verð; alþýða manna. Hólfélagið er síðan andstæða alls þess sem hún stendur fyrir. Ókrýndur konungur hólfélagsins í Brekkukotsannál er Gúðmúndsen kaupmaður. Í minniskompunni gengur hann framan af undir heitinu Burgeisinn. Þar segir á einum stað: „Burgeisnum er blöffið alveg jafndýrmætt og sönn list. Í mörgu falli er blöffið betri verslunarvara en sönn list. Þetta er annar heimur en í Brekkukoti,“ nóterar skáldið hjá sér.14
Álfgrímur ekki „keyptur“
Í minniskompunni talar Halldór framan af um „platsaungvarann“, eins og Garðar Hólm sé þátttakandi í blöffinu.
Platsaungvarinn sonur klukkarans. Saungvarinn sem kemur heim til að hvíla sig og hefur náð einhverri ógurlegri heimsfrægð. (Alt blekkíng sjálfs hans). Hámark í plati hans er þegar hann heldur konsert fyrir móður sína blinda í kirkjunni og hún er eini áheyrandinn fyrir utan söguhöfundinn sem hefur frétt þetta og læðist inn. Hann er ekki aðeins að plata sjálfan sig og heiminn, heldur framar öllu móður sína sem hann elskar of mikið til þess að láta hana nokkru sinni vita annað en hann sé heimssaungvari.15
Þetta verður allt miklu flóknara í sögunni. Þar aðstoðar Álfgrímur Garðar á tónleikunum – og jafnvel er Kristín gamla í Hríngjarabænum sjálf orðin þátttakandi í leiknum. Hversu mikið veit hún? Hún biður Álfgrím að færa barnabörnunum gjafir rekist hann á frú Hansen í Danmörku. Hvað merkir það? Veit hún allt um Garðar – músina á hlöðuloftinu? Veit Garðar að móðir hans veit? Hver er að blekkja hvern? Eða eru þau einfaldlega að leika leikritið til enda?
Framarlega í minniskompunni punktar Halldór hjá sér drög að lýsingu á því hvernig Álfgrímur afhjúpar söngvarann sem þá heitir enn Garðar Matthíasson:
Þegar söguhetjan heimsækir hann, eftir að hafa grafið upp heimilisfáng hans með erfiðismunum í London, þekkir saungvarinn ekki skjólstæðíng sinn og er sjálfur tötramaður í furðulegri eymd (ath. með konu og börn). … nokkrum árum síðar finnur hann heimili platsaungvarans í Khöfn, þar fær hann að sofa á þverbitum í húsi nokkru, og liggur þar innvafinn í Politiken.16
Í sögunni er þessum kafla alveg sleppt en við sjáum leifar af þessu í því að Garðar vefur sig inn í London Times á hlöðuloftinu – og fast heimili hans virðist vera á Jótlandi.
Síðar í minniskompunni hefur höfundinum greinilega snúist hugur í því hversu langt hann eigi að fylgja Álfgrími. Þar segir:
Hvernig Álfgrímur er „keyptur“ að lokum og sendur útí heim á auðsmanns kostnað til saungnáms …
Saga Garðars gerist að miklu leyti í ævintýrakendum reyfara utanlands, en Álfgrími er ekki fylgt leingra en út að krosshliðinu í Brekkukoti.17
Með því að ljúka sögunni þegar Álfgrímur kveður Brekkukot verður hún knappari í forminu og rammi hennar skýrari. Eins fer Álfgrímur utan með annað vegarnesti en Garðar Hólm. Hann er ekki keyptur og sendur á auðsmanns kostnað heldur fjármagna amma og afi nám hans.
Frægðin léttvæg
Þegar maður ber saman lýsinguna á alheimssöngvaranum í minniskompunni frá fjórða áratugnum við hina endanlegu útgáfu af Garðari Hólm sést hversu skýr persónan er þá þegar í huga skáldsins. Þarna blandast saman ólíkir þættir eins og hann ætlar sér: Eggert Stefánsson sem gerði þá einu villu að syngja; Jón Pálsson sem var styrktur til að læra á trumbu en kom heim með óbó sem hann vildi ekki sýna nokkrum manni – og stytti sér að lokum aldur; Grettismótífið sem dregur fram hina harmrænu þætti Garðars Hólm – hann vill eitt en lendir í öðru og reynir síðan að standa sig í því hlutverki meðan stætt er; Sölvi Helgason – loddarinn – er þarna líka; svo og Jón Þorbergsson með fallegu röddina sem ekkert varð úr. Ég þekki ekki nógu vel til Grétars Ó. Fells til að dæma um hlut hans í endanlegri mynd alheimssöngvarans. Hins vegar finnst manni Garðar Hólm ekki beint vera eldhugi í sögunni.
Jafnvel þótt persóna Garðars Hólm hafi þegar á fjórða áratugnum fengið á sig heillega mynd hjá Halldóri virðist hún hafa þróast mjög og dýpkað meðan hann vann að Brekkukotsannál. Það er eins og hann hafi hugsað sér í upphafi að platsöngvarinn væri með í plottinu en í sögunni verður persóna hans miklu margræðari, hann breytist úr því að vera fánaberi hólfélagsins yfir í að verða fórnarlamb þess ágæta félags. Hér skal ósagt látið hvort Halldór Laxness hafi óttast að hljóta þau hin sömu örlög á sjötta áratugnum. Þá hafði hann náð „ógurlegri heimsfrægð“, sem að vísu var ekki „blekkíng sjálfs hans“, eins og hann kallar það í minniskompunni. Frægðin var honum í það minnsta hugleikin og hversu léttvæg hún er ef listamaðurinn missir samband sitt og skyldu við huldufólkið, „það líf sem hún amma mín gamla kendi mér að búa öndvegi í huga mér,“18 svo aftur sé vitnað í Nóbelsræðu Halldórs.
Erindi á Laxnessþingi 2002
1 Halldór Laxness: Minnisbók I. Í vörslu Auðar Laxness.
2 Halldór Laxness: „Ræða haldin á nóbelshátíð í Stokkhólmsráðhúsi 10. desember 1955“. Gjörníngabók. Reykjavík 1959, bls. 53.
3 Halldór Laxness: Stúdíur að skáldsögunni Heiðin. Minnisbók í vörslu Auðar Laxness, bls. 3-4.
4 Steinn Steinarr: Ljóðasafn. Rvík 1991, bls. 126.
5 Halldór Laxness: Úngur eg var. Rvík 1976, bls. 241.
6 Halldór Laxness: Úngur eg var, 242-43.
7 Grétar Fells: „Jón Pálsson frá Hlíð – In memoriam“, Vísir, 27. janúar 1938, 28. ár, 22. tbl., bls. 3
8 Halldór Laxness: Skáldatími. Reykjavík 1963, bls. 256
9 Magnús Á. Árnason: Gamanþættir af vinum mínum. Reykjavík 1967, bls. 52
10 Bergljót Kristjánsdóttir minnti mig á Laxnessþinginu á umfjöllun Halldórs Laxness um Jóhann Jónsson þar sem vikið er að sögu um stórsöngvara. Í grein um vin sinn látinn ritaði Halldór. „Seinast heimsótti ég hann síðsumars árið 1932 suðrí Leipzig. Þá lá hann fyrir dauðanum. Ég sat við rúmstokk hans heilan dag og lángt frammá nótt og hann sagði mér stórfeinglegt skáldverk sem hann hafði fullsamið í huganum.; það var um íslenskan saungvara sem saung fyrir heiminn, líf hans, stríð og heimkomu.“ Sjá Halldór Laxness: „Af Jóhanni Jónssyni“, Vettvángur dagsins. Reykjavík 1986, bls. 146.
11 Halldór Laxness: Minniskompa I, 3-4
12 Halldór Laxness: Minniskompa I, 21-2
13 Halldór Laxness: Minniskompa I, 16
14 Halldór Laxness: Minniskompa I, 77
15 Halldór Laxness: Minniskompa I, 7-8.
16 Halldór Laxness: Minniskompa I, 20.
17 Halldór Laxness: Minniskompa I, 69.
18 Halldór Laxness: Gjörníngabók, 53.