Um áratuga skeið sigldi Gullfoss með farþega milli Íslands, Leith í Skotlandi og Kaupmannahafnar. Fastagestur um borð var Halldór Laxness en hann vildi ógjarnan fljúga. Hann var flughræddur. Í einni ferðinni, þegar Gullfoss staldraði við í Leith, stóð Halldór úti á dekki í blíðskaparveðri. Þá sá hann hvar hafnarverkamaður var við vinnu sína á bryggjunni – algjörlega tannlaus. Þetta vakti forvitni Nóbelsskáldsins og bað hann skipverja að kalla á þennan mann svo hann gæti talað við hann. Þegar skoski verkamaðurinn var kominn til Halldórs spurði skáldið: „Er ekki vont að vera svona tannlaus? Af hverju færðu þér ekki falskar tennur?“ Verkamaðurinn svaraði þá: „Það er nú svo að konan mín er með tennurnar á daginn en ég fæ þær á pubinn á kvöldin.“ Þá varð Halldóri Laxness að orði: „Þetta hlýtur að vera gott hjónaband.“

Þessi litla saga sýnir margt sem einkenndi Halldór Laxness. Hann lét sig varða hag náungans, ekki síst þeirra sem minna mega sín, hann sá hlutina oft öðrum augum en við hin og honum var einkar lagið að sjá hinar kómískari hliðar mannlífsins. Alla þessa þætti getum við séð í verkum hans, þar á meðal Íslandsklukkunni sem ég ætla að að ræða um við ykkur hér í dag.

Mér skilst á kennurum ykkar að þið séuð orðin sérfræðingar í Halldóri Laxness og verkum hans, amk. var talið óþarft að gefa eitthvert almennt yfirlit yfir feril hans, þið væruð með það allt á hreinu. Eins og þið vitið þá var Halldór gríðarlega afkastamikill á löngum ferli, skrifaði þrettán stórar skáldsögur, fimm leikrit og leikgerð að einni skáldsögunni, fyrir utan smásagnasöfn, greinasöfn og endurminningarbækur. Síðasta minningasagan kom út meira en sextíu árum eftir að fyrsta skáldsaga hans kom út.

Bækur Halldórs hafa verið þýddar á 43 tungumál og komið út í meira en 500 útgáfum. Bækurnar hafa selst í miklum upplögum um allan heim, t.d. í hundruðum þúsunda eintaka í Bandaríkjunum. Ferill hans er einstakur, fjölbreytni verka hans á sér fáar hliðstæður og má segja að með hverri bók hafi hann komið að lesendum sínum úr óvæntri átt.

Ég held að flestir Íslendingar eigi sér sína uppáhalds-Laxnessbók. Ég veit ekki með ykkur – en þegar ég hef verið spurður um það hvaða bók Halldórs ég haldi mest upp á hefur mér gjarnan vafist tunga um höfuð. Oftast hef ég þó nefnt Íslandsklukkuna. Kannski af því að þetta var fyrsta bókin sem ég las eftir hann, kannski af því að ég las hana eitt sinn á Þingvöllum og fannst eins og ég væri áhorfandi að atburðarásinni, ég sæi Jón Hreggviðsson hlaupa undan réttvísinni norður í land. Kannski er það af því að Íslandsklukkan kemur mér alltaf á óvart. Ég finn þar ævinlega eitthvað nýtt.

Mér skilst að þið hafið lesið Sölku Völku í fyrra, Íslandsklukkuna í ár og í haust munið þið snúa ykkur að Sjálfstæðu fólki. Ef þið berið saman Sölku Völku og Íslandsklukkuna sjáið þið fljótt að þarna er um gjörólíkar sögur að ræða. Það sem fyrst kemur upp í hugann er vitaskuld sögusviðið. Salka Valka er félagsleg saga úr samtímanum – eins og Halldór einbeitti sér að á fjórða áratugnum – en Íslandsklukkan söguleg skáldsaga og í Íslandsklukkunni hefur Halldór gjörbreytt aðferð sinni frá fyrri bókum. Halldór velur sér þarna annan frásagnarmáta en hann notaði áður í verkum sínum. Hann lýsir öllu utan frá, útskýrir aldrei hvað persónum býr í huga, lætur þær lýsa sér með orðum sínum en beitir einnig umhverfislýsingum markvisst í því skyni. Þessa aðferð þiggur hann í arf frá þeim er rituðu fornar bókmenntir okkar. Sjálfur segir Halldór um þetta í samtali við Matthías Johannessen í Skeggræðum gegnum tíðina:

Þegar ég skrifaði Íslandsklukkuna var ég kominn á þá skoðun, að nauðsynlegt væri að strika sem mest út, og sá, þegar ég leit í mínar gömlu bækur, að þar var víða hægt að strika út heilar og hálfar setningar, stundum aðra hverja setningu, jafnvel heila kapítula. Íslandsklukkan er dregin saman í forminu. Óþarfa orðaskak er lagt niður, aldrei sagt hvað maðurinn hugsar, því það verður óendanlegt ef á að lýsa út í æsar hvað allir hugsa, og hlýtur að enda í óskapnaði sem er andstæður sögu … Í Íslandsklukkunni reyni ég að segja með sem fæstum orðum, hvernig persónan kemur fram í hverju atviki, hvað hún talar og hvernig hún svarar heiminum með hegðan sinni.

Íslandsklukkan var fyrsta sögulega skáldsaga Halldórs þar sem hann byggði á rituðum heimildum en fleiri áttu síðan eftir að bætast við. Íslandsklukkan kom út um miðjan fimmta áratuginn í þremur hlutum, um það leyti sem Íslendingar lýstu yfir stofnun lýðveldis og síðari heimsstyrjöldinni lauk. Þó að nokkur merki megi sjá um þessa atburði í sögunni er hún söguleg skáldsaga en öðru fremur túlkun á sögu þjóðarinnar og ætluð til að brýna sjálfstæðisvitun hennar.

Mynd Halldórs af Íslendingum um 1700 er hörmuleg: það ríkir hungursneyð, drepsóttir geisa og einokunarverslunin pínir landslýð. Klukka landsins er höggvin niður, lögréttuhús er í niðurníðslu, embættismenn drukknir við störf, réttarfar í molum og svo framvegis. En með einhverjum hætti lifir þetta fólk af; táknmynd þess, Jón Hreggviðsson, heldur sínu höfði hvernig sem allt veltist. Hann stelur snæri svo hann geti veitt sér fisk, hann er hýddur fyrir að hæðast að kónginum, á heimleiðinni bendir margt til þess að hann drekki böðli sínum í drullupytti og fyrir vikið er hann dæmdur til dauða.

Jón Hreggviðsson var til, eins og þið vitið, og kveikjan að sögunni var bréf frá Jóni til yfirvalda sem Halldór komst yfir. Hann velti sögu Jóns fyrir sér í ein átján ár og sagði meira að segja í útvarpserindi ári áður en bókin kom út:

Samtíminn, hið iðandi líf umhverfis höfundinn og í brjósti hans, neyðir uppá hann yrkisefnum sem hann hafði síst órað fyrir, yrkisefnum sem hann hefur kanski flúið árum saman, yrkisefnum sem hann mundi gefa aleigu sína, þótt hann væri miljónamæríngur, til að þurfa aldrei að færast í fáng. Til dæmis veit ég að höfundur einn er nýbyrjaður á bók sem hann hefur í átján ár verið að biðja guðina að forða sér frá að skrifa. Höfundinum finst sér verkið ofvaxið, hann hryllir við öllu þessu stríðandi lífi sem heimtar að hann gefi því mál og form, neitar þverneitar og þráneitar að leggja sig í þennan voða – en hann hefur nú einu sinni veðdregið sig sköpunaröflum lífsins og þau halda áfram að heimta hann óskiftan, og honum verður ekki undankomu auðið.

Samtímaatburðir þessir eru vitaskuld barátta Íslendinga fyrir sjálfstæði og heimsstríðið þar sem smáþjóðir voru innlimaðar í stærri ríki án fyrirvara.

Íslandsklukkuna má lesa með ýmsum hætti. Við getum lesið hana sem sögu um morð þar sem glæpurinn – ef hann var þá framinn – verður að lokum aukaatriði, svo sem nú er í tísku í glæpasagnabransanum. Að því leyti má segja að Íslandsklukkan sé langt á undan sinni samtíð. Það skiptir ekki máli hvort böðullinn drukknaði í pyttinum í ölæði eða hvort honum barst óvænt hjálp frá snærisþjófnum sem hann hafði nýlokið við að hýða. Samskipti persónanna skipta meira máli, þau eru notuð til að segja stærri sögu. En hvaða sögu?

Íslandsklukkan erlíka ástarsaga Snæfríðar Íslandssólar og Arnasar. Þau hittast þegar hún er unglingur en hann fulltíða maður, hann gefur henni hring og þau elska hvort annað upp frá því. En þeim er ekki ætlað að eigast. Arnas hefur varið auði sínum til bókakaupa og liggur við gjaldþroti. Hann leysir fjárhagsvanda sinn með því að kvænast ríkri ekkju í Kaupmannahöfn og þar með verður draumurinn um hjónaband þeirra Snæfríðar að engu. Þó að þau eyði síðar saman sumri og eigi saman nótt í sögulok í Kaupmannahöfn er saga þeirra tragísk, meðal annars vegna þess að makar þeirra hvors um sig eru hálfgerðar ófreskjur, annars vegar kroppinbakurinn danski með munninn á miðjum maga og hins vegar Magnús sem er ofdrykkjumaður og selur jarðir sínar og Snæfríði eiginkonu sína fyrir brennivín.

Hvers vegna geta Snæfríður og Arnas ekki gengið að eiga hvort annað? Hvað stendur í vegi fyrir þeim? Því má svara með einu orði: hugsjónamennska. Arnas fórnar sér fyrir bókmenntir Íslendinga og þar með fyrir þjóðina. Við getum sagt að Snæfríður sé sér meðvituð um þessa fórn og fallist á hana. Hún leysir Jón Hreggviðsson úr haldi nóttina áður en á að taka hann af lífi og sendir til Kaupmannahafnar til Arnasar. Skilaboðin sem hún sendir ástmanni sínum með Jóni ásamt hringnum sem Arnas gaf henni forðum eru þau að þó að hann vilji hana ekki og kjósi að bjarga sóma Íslendinga, þ.e.a.s. bókum þjóðarinnar, og þar með Íslendingum sjálfum fremur en njóta ásta hennar þá muni hún samt alltaf unna honum.

Snæfríður ber mikla virðingu fyrir hugsjón Arnasar en svo má spyrja: er þessi hugsjón ekki grimm? Má ekki líkja hugsjón Arnasar við drykkjusýki Magnúsar í Bræðratungu? Hann leggur allt í sölurnar fyrir bækur eins og hinn leggur allt í sölurnar fyrir brennivín. Arnas selur Snæfríði fyrir handritin meðan Magnús selur hana fyrir brjóstbirtu. Arnas svíkur að vísu ekki þjóðina en hann svíkur Snæfríði, fórnar einstaklingnum fyrir heildarhag. Í dag væru þeir Magnús og Arnas kallaðir fíklar hvor á sinn hátt og væntanlega sendir á Vog.

Svo snýst allt í höndunum á Arnasi. Hann verður sérstakur umboðsmaður Danakonungs á Íslandi. Hann berst með því fyrir réttlæti, lætur taka upp rangláta dóma og setja óhæfa embættismenn af, meðal annars föður Snæfríðar; en ekki fagna þeir sem áður voru hýddir og saklausir dæmdir. Bókasafnið sem hann kemur sér upp verður eldi að bráð í brunanum mikla í Kaupmannahöfn. Hann er orðinn þreyttur, honum finnst hann sigraður. Samvistir við kroppinbk, stríð við kaupmenn og spillta dómara hafa slökkt lífslöngun hans; hann er útbrunninn.

Ást og hugsjón takast á í Íslandsklukkunni, rétt eins og t.d. í Sölku Völku, þar sem Arnaldur velur frama sinn og hugsjón fremur en ást Sölku. Þannig sér maður hvernig samspil ástar og hugsjónar var Halldóri Laxness hugleikið. Það er engu líkara en ást og hugsjón geti ekki farið saman.

Ef við skoðum söguþráðinn í Íslandsklukkunni aðeins nánar sjáum við hversu mögnuð fléttan er. Á einum stað kærir Magnús Arnas fyrir ólögleg mök við Snæfríði eiginkonu sína sumarið sem þau áttu saman. Arnas kærir hann á móti fyrir rógburð og gerir kröfu um að eignir hans verði gerðar upptækar. Arnas og Snæfríður skiljast að og fer Snæfríður heim til Magnúsar. Jörð þeirra Snæfríðar hafði Magnús tapað á fylleríi en faðir hennar keypt aftur og gefið henni. Hún gefur nú Magnúsi jörðina Bræðratungu á ný. Þetta segist hún gera til þess að hann eigi einhverja eign ef hann skyldi verða dæmdur til eignamissis. Til hvers? spyr maður sig.

Þegar Arnas neitar að hafa haft mök við Snæfríði afneitar hann henni; en fái hann dóm því til staðfestingar hefur hann ekki aðeins afneitað henni heldur einnig gert hana eignalausa. Gangi dómur aftur á móti á hinn veginn teljast þau bæði sek um hór, sem hefði svipt þau ærunni ef ekki öðru og meira; en Magnús hefði þá átt jörðina, amk. fram að næsta fylleríi.

Með þessu gerir Halldór Laxness samskipti elskendanna afar þverstæðukennd og full af spennu. Sama er uppi á teningnum þegar þau hittast á gistihúsi í Kaupmannahöfn. Snæfríður hefur þá fengið dönsk yfirvöld til að ógilda dóma Arnasar og með því raunar rúið hann heiðrinum; en þó kýs hún að eyða með honum nótt og býðst til að rífa málsskjölin. Arnas er kunnugt um þessa tilraun hennar til að eyðileggja hann, en kemur þó til hennar engu að síður.

Og þrátt fyrir þessar langvarandi orrustur Snæfríðar og Arnasar eru þau eilíflega elskendur. Þannig spilar Halldór Laxness á þverstæður í Íslandsklukkunni og raunar í fleiri verkum.

Ég nefndi áðan að ég sæi alltaf eitthvað nýtt í Íslandsklukkunni þegar ég læsi hana. Það helgast kannski af því að það er hægt að túlka bókina á mismunandi hátt eftir því á hverja af aðalpersónunum maður leggur áherslu en í hverju bindi sögunnar er ein alltaf fyrirferðarmest. Í fyrsta hluta, Íslandsklukkunni, er Jón Hreggviðsson bóndi á Rein mest áberandi, í öðrum hluta, Hinu ljósa mani, er Snæfríður Björnsdóttir Eydalín í brennidepli og í þriðja og síðasta hluta, Eldi í Kaupinhafn, fer mest fyrir Arnasi Arnæusi.

Ef Jón Hreggviðsson er í brennidepli er hægt að leggja söguna út á þann veg að hún segi frá því hvernig valdið rís einstaklingi yfir höfuð. Honum verður það á að grípa snæri og upp frá því er eins og hann sé leiksoppur örlaganna. Leit hans að réttlæti verður löng og ströng, hann verður að peði í valdatafli þar sem hann sjálfur skiptir litlu máli eins og Arnas Arnæus segir við hann eftir að Jón: „þitt mál kemur þér sjálfum lítið við Jón Hreggviðsson. Það er miklu stærra mál. Hverjum er borgnara þó höfuð eins betlara sé leyst? Ein þjóð lifir ekki af náð.“

Einstaklingurinn skiptir ekki lengur máli heldur heildin, hann stendur frammi fyrir valdi sem er óskiljanlegt og óáþreifanlegt. Réttlætið verður afstætt. Snæfríður spyr Jón hvort honum hafi aldrei dottið í hug að lífið og réttlætið væru frændsystkin og réttlætið miðaði að því að tryggja fátækum manni lífið en Jón svarar því að hann hafi aldrei vitað réttlæti miða að öðru en svipta fátæka menn lífinu. Fyrir Arnasi snýr málið hins vegar öðruvísi við: Takist rétti að sanna glæp á saklausan mann er hann sekur. „það er hörð kenníng; en án hennar mundum við ekki hafa réttvísi.“

Líf smælingjans er með öðrum orðum aukaatriði, réttarkerfið verður að hafa sinn gang, – eins þótt það kunni að hafa rangt fyrir sér. Jafnvel Snæfríður víkur að því sama: „Hafi nú réttinum skeikað, og sé Jón Hreggviðsson saklaus, er þá ekki réttlætið meira virði en höfuð eins betlara? – jafnvel þó því kunni að skeika endrum og eins.“ Það er því kannski ekki að undra þótt Jóni verði að orði: „Vont er þeirra ránglæti, verra þeirra réttlæti.“

Jón Hreggviðsson er jafnframt annað og meira en venjulegur kotbóndi, hann verður í sögunni að tákni fyrir þrautseigju þjóðarinnar á erfiðum tímum, fulltrúi soltins og illa leikins íslensks almennings sem má sín einskis gagnvart hinu ópersónulega valdi.

Ef Arnas Arnæus er færður í brennipunkt sjáum við allt aðra sögu í Íslandsklukkunni. Kristján Karlsson hefur á það bent að lögmál verksins séu lögmál hins persónubundna harmleiks eins og þau birtast í grískum harmleikjum, leikritum Shakespeare og Íslendingasögum. Arnas er þá hin harmræna hetja sem form sögunnar er bundið. Forlög hans eru hið þrítekna meginþema þríleiksins.

Þetta meginþema er tryggðrof eða svik. Hann svíkur Snæfríði samkvæmt þessu þrisvar sinnum: fyrst í Íslandsklukkunni fyrir hinar fornu bækur, aftur í Hinu ljósa mani fyrir réttlætið og loks fyrir framtíð landsins sjálfs í Eldi í Kaupinhafn. Þó verður mikill hluti hinna fornu handrita eldi að bráð, réttlætið glatar merkingu í persónulegum og pólitískum átökum og framtíð landsins er ekki björt í sögulok. Arnas er að lokum sigraður maður en það eru einmitt lögmál harmleiksins; þar fer ævinlega allt illa að lokum.

Ekki stafa forlög hans af maklegum málagjöldum heldur er það óhamingja hans sem ræður. Algengasta verkfæri örlaganna í harmleikjum er ofmetnaður, það sem Grikkir kölluðu „hybris“. Arnas ætlar sér ofurmannlegt hlutverk, svíkur hið mannlega fyrir æðri tilgang, freistar þess að sveigja forlögin undir vilja sinn. Því fer sem fer. Hann á þó enn þann möguleika að skilja örlög sín, játast undir þau: „Nú er best goðin ráði. Ég er þreyttur“, segir Arnas þegar hann situr eftir sigraður maður. Örlög Snæfríðar má skilja á sömu forsendum. Þegar í fyrstu bók sögunnar segist hún heldur vilja þann versta en þann næstbesta. Í lokin gefur hún sig örlögunum á vald og giftist þeim næstbesta.

Segja má að í Snæfríði Íslandssól sameinist ævintýrið og draumurinn. Hún er álfkonan, álfakroppurinn mjói. Þótt hún segi að vettvangur dagsins sé ekki hennar staður og sterkir menn ríki yfir deginum þá er hún engu að síður þátttakandi í refskák réttvísinnar, glímir á þeim vettvangi við Arnas þótt hún elski hann. Stolt hennar krefst þess. Hún er sterk og heilsteypt, það góða afl sem fyrirgefur flest, „sú sanna drotníng alls Norðurheims“ eins og Jón Hreggviðsson kemst að orði. Hún er sú sem heldur fram heiðri landsins, heiðurinn er það sem allt snýst um. Hún sjálf skiptir ekki máli ef sómi lands og ættar er í veði eins og sést í því sem hún biður Jón Hreggviðsson að skila til Arnasar í Kaupmannahöfn: „Seg honum ef minn herra geti bjargað sóma Íslands, þótt mig áfalli smán, skal þó andlit hans jafnan lýsa þessu mani.“ Raunar er eins og henni finnist einstaklingarnir ekki skipta máli heldur orðstír lands og þjóðar, – þjóðarstoltið er ofar öllu. Þetta sést glögglega í samtali hennar við Gullinló höfuðsmann Íslands:

Mávera sigraðri þjóð sé best að útþurkast: ekki með orði skal ég biðja íslenskum vægðar. Vér íslenskir erum sannarlega ekki ofgóðir að deya. Og lífið er oss laungu einskisvert. Aðeins eitt getum vér ekki mist meðan einn maður, hvortheldur ríkur eða fátækur, stendur uppi af þessu fólki; og jafnvel dauðir getum vér ekki verið þess án; og þetta er það sem um er talað í því gamla kvæði, það sem vér köllum orðstír …

Kvæðið gamla sem hún vísar til er Hávamál og hefur hún vitnað til þess fyrr í samtali þeirra: „þó maður missi fé og frændur og deyi loks sjálfur, þá sakar það ekki hafi maður getið sér orðstír.“ Hann er það sem allt snýst um. Af þeim sökum er kannski vafasamt að segja að Arnas svíki eða selji Snæfríði í lokin fyrir framtíð landsins, eins og ég vék að áðan.

Þau hittast um nótt á gistihúsi í Kaupmannahöfn og hann segir henni að Þjóðverjum hafi boðist Ísland til kaups og þeir vilji fá hann fyrir landstjóra. Saman byggja þau upp draumsýn um fagurt mannlíf þar sem þau búa saman á Bessastöðum, fólkinu líður vel og þau ríða um landið á hvítum hestum. Loksins er sem elskendurnir geti náð saman, – í skjóli erlends valds. Ýmsir segja að Arnas sjái að sér, flytji þýskum þau skilaboð frá sjálfum sér að þetta sé blekking, hann geti ekki tekið við þessu embætti; sá sem bjóði landið falt geti ekki selt það því að hann sé ekki eigandi þess. Lýkur hann ræðu sinni með þeim orðum að spyrja hver væri orðinn hlutur þeirrar þjóðar sem skrifaði frægar bækur þegar risnir væru á Íslandsströnd þýskir fiskibæir með þýskum köstulum og málaliði? „þeir íslensku mundu þá í hæsta lagi verða feitir þjónar þýsks leppríkis. Feitur þjónn er ekki mikill maður. Barður þræll er mikill maður, því í hans brjósti á frelsið heima.“

Ef miðað er við að fyrir Snæfríði vaki það eitt að halda fram heiðri landsins, orðstír þess, liggur beint við að ætla að hún rífi niður draumsýn þeirra, komi Arnasi í skilning um að þetta sé tóm blekking en ekki öfugt. Á eftir er hann enda eins og rjúkandi rúst, ekkert skiptir hann lengur máli í lífinu, honum er sama þótt bækurnar brenni; allt er hrunið.

Þannig er hægt að velta fyrir sér ýmsum leiðum til að túlka það mikla verk Íslandsklukkuna og munum við seint komast að niðurstöðu um það hver sé hinn eini sanni kjarni bókarinnar. Hún hefur enda verið landsmönnum hugleikin allt frá útkomu hennar en einnig notið vinsælda erlendis, verið gefin út í á þriðja tug þjóðlanda.

Atburðir fjórða áratugarins knúðu Halldór Laxness til að takast á við söguna um Jón Hreggviðsson á Rein og hans vin og herra, Árna Árnason meistara; söguna sem stríddi á huga hans í átján ár. Efni hennar er engu að síður sígilt því að sjálfstæði smáþjóðar hefur aldrei verið sjálfsagt. Og einstaklingurinn er stöðugt að kljást við ópersónulegt vald sem rís honum gjarnan yfir höfuð. Þannig á sagan stöðugt erindi við nýjar kynslóðir.

Fyrirlestur fyrir 5. bekkinga í Verzlunarskóla Íslands, 4. mars 1999