„Þetta eru gleðilegir endurfundir,“ ritaði gagnrýnandi bandaríska stórblaðsins Washington Post um Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness þegar bókin kom aftur út vestra eftir hálfrar aldrar hlé árið 1997. Í umsögninni sagði einnig: „Sum árin – mörg hin síðari, raunar – hafa Nóbelsverðlaunin fallið í skaut lítt þekktum höfundum sem hafa komið fram til þess eins að falla í gleymsku. Öðru máli gegnir sem betur fer um Halldór Laxness: hann er mikill rithöfundur frá litlu landi.“ Aðrir fjölmiðlar vestra tóku í sama streng, m.a. sagði gagnrýnandi New York Times að Sjálfsætt fólk væri meðal hundrað mestu bókmenntaverka sögunnar.

Óskarsverðlaunahafi skrifar handrit

Á liðnum árum hefur orðið mikil vakning í útgáfu á verkum Halldórs Laxness erlendis. Forleggjarar í löndum sem hafa haft takmarkaðan áhuga á honum eru nú sem óðast að koma skáldsögum hans á markað. Nægir þar að nefna að Sjálfsætt fólk er loksins væntanlegt á frönsku, ný hollensk útgáfa er í bígerð, einnig portúgölsk og svo mætti lengi telja. Bækur Halldórs Laxness hafa um áratuga skeið notið mikilla vinsælda í Þýskalandi. Á undanförnum árum hefur verið gert átak í því að koma verkum hans þar út í nýjum eða endurskoðuðum þýðingum Huberts Seelow. Auk þess hefur hinn enskumælandi heimur opnast verkum Halldórs á nýjan leik en þar voru þau ófáanleg um langt árabil.

Nú er í undirbúningi alþjóðleg stórmynd undir forystu Snorra Þórissonar byggð á Sjálfstæðu fólki. Ruth Prawer Jhabvala vinnur að gerð handrits eftir sögunni en hún hefur tvívegis fengið Óskarsverðlaun fyrir kvikmyndahandrit, fyrir A Room With a View og Howards End. Leikstjóri myndarinnar verður Hector Babenco sem meðal annars hefur verið tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir að leikstýra Kiss of the Spider Woman en hann er einnig þekktur fyrir að hafa leikstýrt myndinni Ironweed með Jack Nicholsson og Meryl Streep sem bæði voru tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir þá mynd. Það er ljóst að gangi allt upp varðandi kvikmyndina mun hún verða mikil lyftistöng fyrir verk Halldórs Laxness um víða veröld.

„Uppgjör við Halldór“

Ég rifja þetta  upp hér þar sem þann 23. apríl næstkomandi verða eitt hundrað ár liðin frá fæðingu Halldórs Laxness. Í upphafi afmælisársins hefur borið á vilja einstakra manna til „að gera upp við Halldór“, án þess að tilgreina af hverju slíkt uppgjör eigi að fara fram eða í hverju það eigi að felast. Að vísu er oft tvennt nefnt til: að eftir sé að gera upp pólitíska fortíð Halldórs og ekki hafi mátt halla orði að honum. Hvort tveggja er rangt. Halldór var gríðarlega umdeildur höfundur frá fyrstu tíð en nokkur sátt náðist um hann eftir að hann fékk Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1955, mestu viðurkenningu sem rithöfundi getur hlotnast á alþjóðavettvangi. Sumir sættust aldrei við hann, fyrirgáfu ekki skrif hans um íslenska bændur, pólitík eða annað.

Umskipti á sjötta áratugnum

Undir lok ævinnar sat Halldór Laxness á friðarstóli á Gljúfrasteini án þess að menn sæju sérstaka ástæðu til að „gera upp við hann“ – meðan hann var sjálfur til að svara fyrir sig. Enda hafði hann sjálfur gert upp við Stalín og Sovétríkin í Skáldatíma sem út kom árið 1963 – fyrir hartnær fjórum áratugum. (Bókin nefndist raunar Uppgjör skálds í danskri þýðingu.) „Það er fróðlegt að sjá hvernig Stalín varð með hverju árinu meira skólabókardæmi þess hvernig valdið dregur siðferðisafl úr mönnum þannig að maður sem náð hefur fullkomnu alræðisvaldi innan umhverfis síns er um leið orðinn algerlega siðferðislaus“, segir þar. Og á öðrum stað í bókinni ritar Halldór: „Stærsta axarskaft okkar vinstrisósíalista fólst í trúgirni. Það er í flestum tilfellum meiri glæpur að vera auðtrúa en vera lygari. Við höfðum hrifist af byltíngunni og bundum vonir okkar við sósíalisma. …Við trúðum ekki þó við tækjum á því hvílíkt þjóðfélagsástand var í Rússlandi undir Stalín.“ Útgáfa Skáldatíma vakti mikla athygli en í raun var bókin aðeins staðfesting á því sem mátti lesa úr skrifum Halldórs á sjötta áratugnum.

Fyrirheitna landið

Í Gerplu (1952) hæddist Halldór að hinni fornu hetjuhugsjón Íslendingasagna en boðskapur sögunnar beindist ekki síður að nútímanum því að trú á vald og ofbeldi hefur löngum verið helsta bjargráð þeirra landstjórnarmanna sem ekkert óttast meira en þegna sína. Þeir sem vildu gátu séð þarna deilt á Hitler og Stalín – leiðtogadýrkun – en í bókinni upphefur hann einnig andstæðu þeirra samfélaga þar sem ríkja sterkir leiðtogar eða einræðisherrar en slíkt fyrirmyndarsamfélag fann hann meðal inúíta á Grænlandi. Frumbyggjarnir þekkja ekki annað en að allir séu jafnir og lifi í sátt og samlyndi og þeir hafa enga leiðtoga.

Í Paradísarheimt sem út kom árið 1960 sagði frá manni sem fór yfir hálfan hnöttinn í leit að fyrirheitna landinu en fann það að lokum í túninu heima. Út úr verkinu má hæglega lesa uppgjöf höfundarins, vonbrigði hans vegna liðsinnis við volduga hugmyndafræði og brostna drauma um fyrirheitna landið. Hann hafi kostað öllu til, eins og aðalpersóna Paradísarheimtar, en ekki fundið það sem hann vonaðist eftir.

Ef kenningin virkar …

Í Gjörníngabók (1959) þar sem Halldór safnaði saman ýmsum greinum sínum frá síðari hluta sjötta áratugarins gætti hvergi heiftúðugra árása á Bandaríkjamenn og Nato, eins og hann hafði áður verið kunnur fyrir, en vonbrigðin með framkvæmd sósíalismans fyrir austan járntjald urðu þeim mun meira áberandi. Í bókinni fer ekki á milli mála að hrifning Halldórs á Sovétríkjunum hafði á þessum tíma minnkað til mikilla muna.

Halldór Laxness hafði enga eina lífsskoðun alla sína ævi. Á þriðja áratugnum aðhylltist hann kaþólsku og boðaði hana af miklum hita. Eftir það snerist hann til sósíalisma og barðist af engu minni krafti fyrir málstað hans. Í ritgerðum Gjörníngabókar virðist hann vera búinn að fá sig fullsaddan af kenningum; menn máttu hafa sína trú eða hugmyndafræði í friði en sjálfur aðhylltist hann nú umburðarlyndi umfram allt – mannúðarstefnu – og auk þess hagnýtissjónarmið sem segir: ef kenningin virkar er hún að minnsta kosti góð að því marki.

Uppgjör Halldórs við Stalín og Sovétríkin átti sér þannig stað lungann úr sjötta áratugnum en kristallaðist í Skáldatíma 1963. Það er því rangt að halda því fram að hann hafi ekki horfst í augu við fortíð sína. Hann reyndi ekki að dylja fyrri skoðanir sínar, sem hann hafði kannski snúist gegn, og leit á þær sem fróðlegan part af sjálfum sér. „Hver sá maður sem gengur með æskuhugsjón sína eins og steinbarn innan í sér alla sína hundstíð, er ekki mikils virði sem skáld; varla heldur sem manneskja,“ sagði hann síðar í samtali við Matthías Johannessen.

Dýrmætur arfur

Það kemur manni óneitanlega spánskt fyrir sjónir að þegar heimurinn er að uppgötva verk Halldórs Laxness á nýjan leik skuli aldarafmælisár hans hér á landi fara af stað með því að menn beina sjónum sínum helst að þeim hlutum sem hann gerði upp af miklum heilindum og hugrekki fyrir fjórum áratugum. Slíkt sætir engum tíðindum nú og er ekki efni í frjóa umræðu þegar kalda stríðinu er lokið og önnur spursmál sannarlega brýnni en hitamál þess.

Í bókum hans á íslenska þjóðin dýrmætan arf sem mun fylgja henni um ókomin ár. Við eigum að að ræða verkin, deila um þau eins og þjóðin hefur gert um áratuga skeið, – án þess að falla í skotgrafir fyrri tíma sem löngu eru hættar að hafa þýðingu fyrir nútíðarfólk.

Það er von mín að sem flestir íslenskir lesendur eigi gleðilega endurfundi við verk Halldórs Laxness nú á þessu afmælisári sem endranær.

Birt í Morgunblaðinu 20. janúar 2002