Fyrir tveimur áratugum var gefin út hér á landi bókin Reginfjöll á haustnóttum eftir Kjartan Júlíusson á Skáldstöðum efri í Eyjafirði (sjá mynd af Kjartani og Halldóri Laxness hér að ofan). Þar er að finna frásagnir Kjartans af „skemtigaungum [hans] um reginfjöll á síðhausti“ en einnig sögur af „mönnum sem lenda í skrýtilegum lífsháska, tam vegna príls í klettum ellegar þeir eru eltir uppi af mannýgum nautum … Einnegin … skrýtlur um svipi og ýmiskonar spaugelsi sem sveitamanni er títt að hafa uppi til að kollvarpa fyrir okkur vísindum heimsins og umturna náttúrufræðinni.“ Þessi alþýðumaður og afdalabóndi bjó með innanvið tuttugu kindur, eina kú og geldkú af næsta bæ sem þjónaði sem stallsystir eða selskapsdama hjá Búkollu sem mjólkaði annars ekki sakir myrkfælni. Til hliðar við bústörfin setti Kjartan síðan á blað frásagnir sem komu út á bók fyrir tuttugu árum. Þættir þessir væru tæpast til umræðu hér ef Halldór Laxness hefði ekki skrifað formála að bókinni en þar segir Nóbelsskáldið meðal annars um höfundinn, Kjartan Júlíusson á Skáldstöðum efri:

Af bréfum hans, minnisblöðum og skrifuðum athugunum sá ég að þessi kotbóndi hafði snemma á valdi sínu furðulega ljósan hreinan og persónulegan ritstíl, mjög hugþekkan, þar sem kostir túngunnar voru í hámarki, blandnir norðlenskum innanhéraðsmálvenjum sem alt er gullvæg íslenska; og ég velti þessu hámentabókmáli fyrir mér af þeirri orðlausu undrun sem einstöku sinnum grípur mann gagnvart íslendíngi. Þarna skrifaði blásnauður afdalakall, ósnortinn af skóla, svo dönskuslettulaust, þeas svo lítt þrúgaður af kúgun fyrri alda, að maður gat lesið hann af álíka öryggi og Njálu … Ég spurði hvar hann hefði lært að stílsetja. Hann svaraði því til að hann hefði líkt eftir skrifuðu máli föður síns. Þau rit fékk ég að sjá og voru sumpart í annálastíl, sumpart með blæ þjóðsagna, en slíkur stílsmáti er alt að því fornmál og á, eins lángt og hann nær, innangeingt í íslendíngasögur. Þessi ósjálfráði snildarblær úr íslenskri hreintúngustefnu hafði geingið að erfðum frá föður til sonar, í afdölum Eyafjarðar, hver veit hvað leingi, hjá mönnum sem aldrei höfðu leitt danska bók augum né heyrt nokkurn mann sletta dönsku; því síður komist í tæri við fyrri tíma heldra fólk á Akureyri.

Halldór sér í þessum afdalabónda fulltrúa fornrar menningar, fagurrar íslensku og náttúruverndarmann að hætti nútíma, eins og hann víkur að annars staðar í formálanum, en þar segir að slíkur maður væri „sjálfkjörinn félagsmaður í náttúru­verndar­hreyfíng­unni og gegn meingun.“

Kannski eru það fordómar – en maður veltir óneitanlega fyrir sér hvernig standi á því að rithöfundur sem hlotið hefur Nóbelsverðlaunin í bókmenntum skuli sjá ástæðu til að skrifa formála að þáttum íslensks „afdalakalls“; frásögnum sem eru einkum og sérílagi um það sem gerist í sjálfum honum af því að stíga inn í þá mynd sem hann hefur haft fyrir augum heima á bæjarhellunni. Af hverju er maður sem skrifað hefur frægar bækur að verja dýrmætum tíma sínum í slík ritstörf? Hvað sá maður, sem bæði heima og erlendis hafði hitt ótölulegan fjölda svokallaðra stórmenna, í þessum skrifum og höfundi þeirra?

Halldór kallar Kjartan „kunníngja“ í formálanum og mun hafa heimsótt hann í afdalakotið nokkrum sinnum á ferðum sínum um landið. Ég held samt að það hafi ekki verið nóg að vera kunningi Halldórs Laxness til þess að hann skrifaði formála að bók eftir viðkomandi. Ég held að ástæðan fyrir þessum skrifum sé sú að Halldóri hafi fundist Kjartan hafa verið af „huldufólksættinni“, þeirri ætt sem Halldór hyllir í Brekkukotsannál. Og hvaða ætt er nú það? kynni einhver að spyrja.

Ég rakst einhvern tíma á hana í Brekkukotsannál en þar segir: „Eftirlitsmaðurinn okkar hefur líklega verið af huldufólksættinni, að minstakosti heyrði ég því aldrei fleygt að hann væri kominn af prestum sýslumönnum og skáldum.“

Eftirlitsmaðurinn er nefndur huldumaður á öðrum stað í bókinni en að öðru leyti er huldufólk ekki nefnt á nafn. Þessi undarlega huldufólksætt hefur fylgt mér um skeið, þ.e.a.s. ég hef ekki fundið almennilega skýringu á nafngiftinni, þótt vissulega gruni mann hvað þetta merki.

Ég fór að leita í öðrum verkum Halldórs að huldufólki – öðru en því sem byggir kletta og þekkt er úr þjóðtrú, enda sýnist mér ljóst að þessi umrædda ætt er á meðal okkar og af holdi og blóði. Ekki hefur mér tekist að finna þetta fólk í öðrum skáldverkum Halldórs en í minningasögunni Í túninu heima segir á einum stað:

Einusinni var ég á ferð í Kaupmannahöfn og sat þar veislu hjá íslendíngum. Áður en borð voru upp tekin reis úng kona úr sæti og rétti mér tímarit þar sem mynd af móður minni var prentuð á forsíðu, en hún var þá látin fyrir fjórum árum. Frúin bað mig segja veislugestum eitthvað frá móður minni.

Ég hafði reyndar laungu gleymt þessu atviki og veislunni sjálfri að mestu, en var mintur á það á dögunum. Ég vitna til þess hér eins og frásagnar um altannan mann. Mér var sagt að fyrst hefði ég horft leingi þegjandi á myndina í sæti mínu og loks þegar ég stóð upp hafi ég ekki sagt annað en þetta: Í rauninni þekti ég aldrei þessa konu. Hún var huldukona. En mér hefur þótt vænna um hana en aðrar konur.

Einhverjir hér inni minnast þess vafalaust að Valgerður Benediktsdóttir sem síðast talaði hér vék að hlutverki mæðra og amma alþýðunnar sem „kent hafa börnum sínum og barnabörnum ljóð skáldanna alla þjóðarævina, verið jarðvegur bókmenta á Íslandi. Þær hafa verið hinn nafnlausi og dularfulli hulduháskóli skáldskapar og túngu,“ eins og segir í greinasafninu Reisubókarkorni. Þarna er bersýnilega sama hugsun á ferð hjá Halldóri.

Annars staðar hef ég ekki fundið huldufólk af þessari náttúru í verkum skáldsins. Það er alkunna að hann var stöðugt að punkta hjá sér í minniskompur þegar hann vann að skáldsögum sínum. Og fyrir nokkrum vikum fékk ég leyfi hjá Auði Laxness til að blaða í kompum hans frá því að hann var að vinna að Brekkukotsannál. Og fremst í bókinni kom svarið við leit minni. Þar skrifar skáldið hjá sér hvað hann ætlar sér með bókinni:

Huldufólkið“ hið óbreytta „óspilta“ fólk – og þó svo óendanlega breyskt ef það er skoðað frá sjónarhorni móralteólógíunnar eða annarra siðferðiskerfa – bókin á að vera óður til þess, sönnun þess að það er einmitt þetta fólk, hið óbreytta fólk, sem fóstrar öll mannleg friðsamleg verðmæti. Sögupersónan á rætur sínar í hinu kyrra djúpi alþýðunnar, og [það góða fólk], sem hann mætir í æsku, verður þess valdandi að öll heimsins dýrð verður honum einskisverð þann dag sem honum stendur hún til boða – sakir þeirrar þrár sem hann ber til að komast aftur heim, finna hið kyrra djúp óbreytts mannlífs á nýaleik.

Brekkukotsannáll er með öðrum orðum hylling á því alþýðufólki sem vinnur störf sín af trúmennsku og stærir sig ekki af þeim, óður til óbreytts mannlífs og þess fólks sem Halldóri þótti vænna um en annað fólk. Og til að hnykkja enn frekar á þessu segir nokkru síðar í minniskompunni:

Tvennskonar íslendíngar: hinir extróvertu fantastísku, sem eru síkjaftandi og símontandi sig, og setja svip sinn á þjóðlífið og stjórna hólfélaginu – og svo huldufólkið … sem hefur flest það er menn má prýða, en er með öllu laust við sérframtrönulegheit en það er kjarninn bakvið, það element sem því hefur ráðið að mannlíf er á Íslandi enn, það fólk sem vinnur öll afrek en aldrei montar sig og ekkert heyrist um og hólfélagið mun aldrei uppgötva.

Fyrir utan orðið „sérframtrönulegheit“ sem skýrir sig sjálft er líklega eitt orð sem veldur því að menn sperra eyrun: hólfélagið. Á öðrum stað í minniskompunni er skilgreining á því og hún er svona:

„Hólfélagið – samábyrgð míkróskópískra lókalstærða um að hæla hver öðrum.“ Hólfélagið er með öðrum orðum það sem gjarnan er nefnt nú á dögum skjallbandalag eða aulabandalag.

Huldufólkið er þannig hinn þögli hópur sem geymir öll þau verðmæti sem einhvers eru verð; alþýða manna. Við lestur Brekkukotsannáls kemst maður ekki hjá því að tengja við hana ýmis gildi og skoðanir. Fólkið í Brekkukoti lifir reglubundnu lífi sem er í föstum skorðum, virðir rétt manna til að vera öðruvísi og sýnir engum manni áreitni. Þar eru orðin of dýr til að eyða þeim í gálaust hjal, kerskni eða lygar; forvitni og stelvísi eru lagðar að jöfnu. Heimurinn innan við krosshliðið er líkastur Paradís. Þar hafa menn enga trú á peningum né öðrum nýmælum. Amma og afi í Brekkukoti eru manna geðþekkust og standa föstum fótum í liðnum tíma. Í huga þeirra er sá auður einn sannur sem ekki verður af mönnum tekinn.

Eftirlitsmaðurinn – huldumaðurinn – er annar fulltrúi þessara viðhorfa og talar hann nánast í orðskviðum. Þegar þeir Garðar Hólm ræðast við um nótt falla mörg gullkorn af vörum hans en þar segir hann meðal annars: „Hátt og lágt vinur … ég veit ekki hvað það er.“ Og í sama samtali: „Lífið hefur … kent mér að gera ekki mun á hetju og litlum karli; á stórtíðindum og titlíngaskít. Úr mínum bæjardyrum eru menn og atburðir nokkurnveginn jafnir.“ Hann er gersneyddur allri tilhneigingu til að prédika fyrir öðru fólki. Í augum hans eru allir menn jafn gildir. Breytni hans einkennist af takmarkalausri hjálpsemi, samfara rótgróinni andúð á að grípa fram fyrir hendurnar á öðrum eða hafa áhrif á örlög meðbræðra sinna. Þessi gildi hafa menn stundum kennt við taóisma en kjarninn í taó Halldórs felur í sér virðingu fyrir öllu lífi, trú á óbrotinn mannkærleika, trygglyndi og hreinlyndi. Þessa fyrirmynd mannlegrar breytni sem sett var fram í kínversku kveri fyrir þúsundum ára, Bókinni um veginn, finnur Halldór meðal venjulegs íslensks alþýðufólks. Þetta óbreytta alþýðufólk – huldufólkið – er síðan andstæða hólfélagsins, þeirra sem eru sífellt að trana sér fram án þess endilega að hafa innistæðu fyrir því.

Og Kjartan Júlíusson á Skáldstöðum efri var án efa hluti af þessari undarlegu fjölskyldu, huldufólksættinni. Það má því segja að virðing Halldórs fyrir þessu fólki hafi birst í því að hann ritaði formála að bók sem nefnist Reginfjöll á haustnóttum og hefur að geyma þjóðlegan fróðleik eftir alþýðumann og afdalakall. Því er gjarnan haldið fram að Halldór taki að upphefja „huldufólkið“, sem við getum kallað svo, á efri árum, frá miðjum sjötta áratugnum eða þar um bil.

En þessi virðing birtist ekki bara í Brekkukotsannál og formálanum að bók Kjartans á Skáldstöðum efri, eða í síðari verkum hans; mér sýnist hún vera eins og rauður þráður í skrifum hans frá fyrstu tíð og fram á síðustu ár.

Í bókinni Af menníngarástandi eru prentaðar greinar Halldórs Laxness frá því á þriðja áratugnum. Ein þeirra ber heitið „Raflýsíng sveitanna“. Þá þegar er hann farinn að taka upp hanskann fyrir alþýðu manna, enda segir hann þar að númer eitt sé að berjast fyrir bættum lífskjörum fátæks fólks: „Menníng er umfram alt það að hafa sigrast á fátækt og vesaldómi, eignast falleg híbýli með rúmgóðum stofum, stóran spegil, mjúkan sófa, góðan kakalón, hagnýta heimspeki, þægileg föt, gott að éta, en helst hætta að reykja.“ Og síðar í greininni segir hann:

Maðurinn er ekki urðarköttur, heldur aðalborin vera! Hann er skapaður í guðs mynd og á að hafa rafljós og rafhitun og stóran spegil svo að hann geti nógu oft virt fyrir sér hvernig mynd guðs lítur út.“ Í lok greinarinnar segir síðan: „Sannkristna manneskja! Þú átt að berjast gegn lúsinni, fylliríinu og örbirgðinni, raflýsa sveitabæina og kenna að dansa og sýngja. Hvað er fegurra og æðra en Kristur og kirkja hans? Ekki neitt; satt er það.

En primum vivere deinde philosophere, sagði gamall prestur á latínu, sem þýðir: fyrst er að lifa, síðan að hugsa um heimspeki. Fólkið verður að lifa og Kristur vill að mönnunum líði vel, mun hann hugga þá sem haldnir eru ólæknandi meinum. Hann vill að þeir búi í rúmgóðum og þokkalegum húsakynnum. Hann vill að þeir búi við góð lífskjör og hafi menníngu.

Í raun gætu þessi orð staðið í Alþýðubókinni sem Halldór sendi frá sér tveimur árum eftir að þessi grein birtist. Þá hafði hann dvalið í Bandaríkjunum og snúist til sósíalisma svo sem frægt er en boðskapur þeirrar bókar um kjör mannanna er ekki svo fjarri því sem kemur fram í „Raflýsíngu sveitanna“. Þar hefur hann að vísu undanskilið guð í boðskapnum og segir: „Maðurinn er fagnaðarboðskapur hinnar nýu menníngar, maðurinn sem hin fullkomnasta líffræðileg tegund, maðurinn sem félagsleg einíng, maðurinn sem lífstákn og hugsjón, hinn eini sanni maður, – Þú.“

Um leið og hann beitir sér fyrir bættum kjörum hins vinnandi manns talar hann til þessa sama manns í umvöndunartóni. Forsenda þess að hægt sé að bera virðingu fyrir einhverjum er enda sú að viðkomandi beri virðingu fyrir sjálfum sér. Og Halldór Laxness hvetur menn í Alþýðubókinni til að taka sig nú saman í andlitinu, ef svo má segja, og tileinka sér hætti siðaðra manna:

„Þótt alkunnugt sé að íslendíngar eru náttúraðir fyrir óþverraskap, spillir ekki að ámálga þessa heimsfrægð vora einu sinni enn. Verður þá fyrst að minnast á þá ósvinnu sem lýsir sér í leti þeirra að hirða líkama sinn,“ ritar hann í kaflanum „Um þrifnað á Íslandi.“ Hann segir að þeim sem stundi erfiðisvinnu sé sérstök nauðsyn á að lauga sig daglega og það sé til háborinnar skammar að það skuli sjást verkamannabústaðir til sjávar og sveita sem ekki eru útbúnir baðherbergi með heitu og köldu vatni. Síðan segir Halldór: „Hreinn líkami veldur þokkalegu sálarlífi. Menn fara að hugsa bjartara; menn fara að vilja fegur. Hreinir menn eru geðslegir í umgeingni. Viti maður sig geðslegan fyrir sjálfum sér verður hann ósjálfrátt geðslegur gagnvart öðrum. Maður sem veit sig ógeðslegan með sjálfum sér hagar sér ruddalega gagnvart öðrum. Sóðaskapur og ókurteisi helst í hendur.“ Hann kvartar undan salernisaðstöðu sem hann segir vera bæði þjóðarskömm og allsherjarviðbjóð í senn og spyr sig: „… til hvers er skáldskapur og fagrar listir meðan fólk hefur ekki smekk til þess að hirða sig?“ Halldór heldur áfram og snýr sér nú að „tönnunum í háttvirtum kjósendum“: „Það er einn átakanlegastur misbrestur í uppeldi íslenskrar alþýðu að hún lærir ekki að hirða tennur sínar.“ Fyrir utan ýmsa sjúkdóma sem af þessu hljótast nefnir hann að „ein orsökin til þess hve íslendíngum hættir til að nota andstyggilegan munnsöfnuð [sé] vafalaust meðvitund þeirra um að munnur þeirra sé skemdur og óhreinn.“ Og bætir svo við:

Hefði ég efni á að gefa öllum íslendíngum tannbursta, mundi ég gera þjóðinni meira gagn en þótt ég skrifaði handa henni ódauðleg ljóð. En nú hef ég ekki efni á að kaupa hundrað þúsund tannbursta, og bið menn að afsaka það. Ég verð að láta nægja að skrifa bók.

Halldór víkur einnig að hrækingum þjóðarinnar í Alþýðubókinni og fer um þær hörðum orðum sem ég ætla ekki að fara nánar út í hér en um áratug síðar, þegar komið er inn í síðari heimsstyrjöld, heldur hann áfram á svipaðri línu:

Íslenskar kirkjuræskíngar eru fornfrægar – kirkjuhóstinn. Nú er ekki þar með sagt að íslendíngar þjáist af meiri brjósthroða en aðrir menn, þótt þeir elski þetta ófagra „kropphljóð“ heitar. Spurníngin er aðeins um mannasiði. Látum vera að menn stundi þessa íþrótt í einrúmi, en þá keyrir um þverbak þegar menn, sem eiga að flytja alþjóð fróðleik og aðra skemtan orðsins úr fjölheyrðustu ræðustólum landsins, einsog td Ríkisútvarpinu, gera sér leik að því að liðka þessi óhljóð „líkt og þeir væru að búa sig undir að hrækja á allan landslýðinn“.

Þegar hillir undir það að Íslendingar segi skilið við dönsku krúnuna skrifar Halldór greinina „Gagnrýni og menníng“, sem prentuð var síðar í Sjálfsögðum hlutum. Þar segir hann að þjóðin sé að rísa úr ösku eftir aldalanga erlenda kúgun.

Nú gerum við kröfu til þess að heita siðmentuð þjóð og móðgumst við hvern þann sem kallar okkur eitthvað annað – en hinu megum við ekki heldur gleyma, að þessa kröfu verðum við fyrst og fremst að gera til okkar sjálfra. … Við erum að stíga frammí ljós heimssögunnar sem sjálfstæð og fullvalda þjóð. Hvorki með vopni gulli né höfðatölu getum við skapað okkur virðíngu heimsins né viðurkenningu sjálfstæðis okkar, aðeins með menníngu þjóðarinnar. Vesalasta skepna jarðarinnar er ósiðaður maður; og hirðulaust ógagnrýnið fólk, lint í kröfum til sjálfs sín, sem kann ekki til verka og unir ómyndarskap, hneigt fyrir sukk og drabb, verðskuldar ekki að heita sjálfstæð þjóð og mun ekki heldur verða það.

Þegar fram líða stundir dregur úr áherslunni á þrif og mannasiði í skrifum Halldórs Laxness enda komast þessi mál þá væntanlega í betra horf. Hann hefur þó vakandi auga með þjóðinni og gjörðum hennar á ýmsum sviðum, þótt fókusinn breytist. Hann sér til dæmis ástæðu til þess í grein í Reisubókarkorni frá síðari hluta fimmta áratugarins að taka upp hanskann fyrir útigangshross og finnst meðferðin á þeim vera blettur á þjóðlífinu. Ill meðferð á dýrum ber ekki aðeins vott um grimmt og guðlaust hjarta heldur sæmir einfaldlega ekki siðuðum mönnum:

Útigángshrossin eru meira en leifar gamallar vanmenníngar einsog lús, þau eru bókstaflega skömm á íslensku þjóðlífi. Menn sem hafa ánægju af að láta þessar veslíngs skepnur standa úti í vetrarfárviðrum, og naga sinu, mold og klaka, eru ósviknir dýrakvalarar. Í fornum trúarbrögðum eru dýrakvalarar taldir meðal þeirra sem muni fyrstir brenna í eilífum eldi.

Þíngmaður einn úr einu mesta útigángshrossahéraði landsins flutti í vetur lagafrumvarp um að taka skemtanaskattinn af þjóðleikhússjóði og byggja fyrir hann samkomuhús og leikhús í sveitum. Þeir sem hafa með menskum tilfinníngum horft á útigángshross í Skagafirði skjögrandi af hor á vordegi eftir harðan lángan vetur munu sannarlega ekki sjá eftir fé úr þjóðleikhússjóði né öðrum sjóðum til samkomuhúsa í því héraði – handa útigángshrossum framar öllu. Menníng sveitanna byrjar nefnilega ekki á leikhúsi, heldur því að hafa skýli og fóður handa skepnunum. Menn sem hafa ánægju af að kvelja dýr eiga ekki að fá leikhús, heldur tukthús. En menn sem láta skepnur sínar vera ekki kvaldari á þorranum en þær eru á slætti munu fá öll leikhús bæði þessa heims og annars.

Kannski finnst ykkur þessi umræða öll heyra sögunni til og óþarft að rifja upp í aldarlok. Það kann að vera. Nú þrífur þjóðin sig, bæði huldufólkið og hólfélagið, upp á hvern dag, burstar tennur, hrækir ekki á almannafæri, útvarpsmenn eru að mestu hættir að búa sig undir að hrækja á landslýð og horfallin útigángshross eru sem betur fer sjaldséðari en áður þótt vissulega megi þar margt betur fara. Ég hef ekki skemmt ykkur í þessu spjalli mínu með tilvitnunum í greinar Halldórs um drykkjuskap Íslendinga, enda væru þær efni í sérstakt erindi. Ég held raunar að fáir fari jafn illa út úr skáldsögum Halldórs og ofdrykkjumenn. En þar má kannski segja að við eigum enn nokkuð í land til að ná sama þróunarstigi og siðmenntaðar þjóðir. Mig langar hins vegar að víkja að umfjöllun Halldórs um umhverfismál frá upphafi áttunda áratugarins. Í greinasafninu Yfirskygðir staðir er grein sem ber heitið Hernaðurinn gegn landinu. Þessi grein gæti að mörgu leyti hæglega verið skrifuð núna nýverið, jafnvel hafa birst í Morgunblaðinu í dag. Hún hefst með þessum orðum:

Af öfugmælanáttúru sem íslendíngum er lagin kappkosta sumir okkar nú að boða þá kenníngu innan lands og utan, einkum og sérílagi þó í ferðaauglýsingum og öðrum fróðleik handa útlendíngum, að Ísland sé svo landa að þar gefi á að líta óspilta náttúru. Margur reynir að svæfa minnimáttarkend með skrumi og má vera að okkur sé nokkur vorkunn í þessum pósti. Hið sanna í málinu vita þó allir sem vita vilja, að Ísland er eina landið í Evrópu sem er gerspilt af mannavöldum. Því hefur verið spilt á umliðnum þúsund árum samtímis því að Evrópa hefur verið ræktuð upp.

Hann rekur síðan hvernig búsmali nagaði ofan í mold þann gróður sem fyrir var í landinu og vindurinn sá síðan um afganginn. „Enn í dag verður miklu meira land örfoka á ári hverju en nemur árlegri viðbót í ræktun,“ segir þar. Nóbelsskáldið heldur svo áfram:

Á síðustu áratugum hafa menn verið verðlaunaðir af hinu opinbera fyrir að ræsa fram mýrar, lífseigustu gróðursvæði landsins, undir yfirskini túnræktar. Seigar rætur mýrargróðursins halda gljúpum jarðveginum saman og vatnið nærir fjölda lífrænna efna í þessum jarðvegi og elur smádýralíf sem að sínu leyti dregur til sín fugla. Mýrarnar eru stundum kallaðar öndunarfæri landsins. Þúsundir hektara af mýrum standa nú með opnum skurðum sem ristir hafa verið í þeim tilgángi að draga úr landinu alt vatn; síðan ekki söguna meir: eftilvill var aldrei meiníngin í alvöru að gera úr þessu tún. Fer ekki að verða mál til að verðlauna menn fyrir að moka ofaní þetta aftur?

Núna eru starfræktar opinberar nefndir um endurheimt votlendis og veitir víst ekki af. Í síðari hluta greinarinnar fjallar Halldór síðan um stóriðju og þau áform sem uppi voru í byrjun áttunda áratugarins. Hann fer hörðum orðum um það þegar virkjunarfyrirtækjum eru veitt fríbréf til að „darka í landinu eins og naut í flagi og jafnvel hyllast til þess að skaðskemma ellegar leggja í eyði þau sérstök pláss sem vegna landkosta, náttúrudýrðar ellegar sagnhelgi eru ekki aðeins íslensku þjóðinni hjartfólgin, heldur njóta frægðar um víða veröld sem nokkrir eftirlætisgimsteinar jarðarinnar.“

Og nú kynni einhver að segja: Hljómar þetta ekki kunnuglega? Er þessi umræða ekki enn í gangi, tæpum þremur áratugum síðar? Á þessum tíma var jafnvel rætt um að þurrka upp Gullfoss vegna virkjanaframkvæmda en undanfarið hefur Dettifoss verið til umfjöllunar af sama tilefni og talað um að það fari saman að virkja fossinn og hafa sem túristaattraktsjón, eins og sagt er. Ég ætla að fara með svolitla tilvitnun í þessa grein, „Hernaðurinn gegn landinu„, og bið ykkur um að setja Dettifoss í staðinn fyrir Gullfoss og Jökulsá á Fjöllum í stað Hvítár. Halldór skrifar:

Málsvari Orkustofnunar lýsti því að væntanleg virkjun fossins [þ.e. Gullfoss] yrði framkvæmd þannig að farvegi Hvítár yrði breytt en fossstæðið þurkað. Þó hafði hann í pokahorninu einkennilega viðbót við hugmynd sína. Hann gerði ráð fyrir að tilfæríngar yrðu settar í ána til að hleypa fossinum á aftur ef túristar kæmu, svo hægt væri að kræla útúr þeim svolítinn aðgángseyri. Spurníng: Hvað eigum við íslendíngar að gera við alla þessa penínga þegar búið er að útanskota fyrir okkur fegurstu stöðum landsins? Hugsanlegt svar: Fljúga til Majorku þar sem þeir ku skeinkja rommið ómælt.

Í ljósi alls þessa er kannski ekki að undra að Halldór Laxness skuli hafa skrifað formála að bókinni Reginfjöll að haustnóttum eftir Kjartan Júlíusson á Skáldstöðum efri í Eyjafirði. Hann sá í honum fulltrúa huldufólksins sem fóstrar öll mannleg friðsamleg verðmæti, hefur ræktað í sínum ranni hina sönnu íslensku menningu öld fram af öld; hann sá í honum fólkið sem hann hafði undanfarna áratugi verið að ræða við með skrifum sínum; siða til og kenna að bera virðingu fyrir sjálfu sér, ásamt því að berjast fyrir bættum kjörum þess.

Heimurinn innan við krosshliðið í Brekkukoti leið undir lok í enda sögunnar. Huldufólkið heldur samt áfram að lifa en hefur flutt sig um set. Og hólfélagið lætur ekki að sér hæða og heldur sínu striki. Því er kannski enn brýnna en áður að halda fram þeim gildum sem huldufólkið stendur fyrir; að vera trúr yfir litlu, bera virðingu fyrir öllu því sem lífsanda dregur; skepnum og mönnum og jörðinni sem við göngum á.

Laxnessfyrirlestur í Norræna húsinu 26. febrúar 1998