Árið 1927 varð Halldór Laxness hríðtepptur í koti austur í Jökuldalsheiði sem liggur í um 500 metra hæð yfir sjávarmáli vestur af Jökuldal. Hann hafði lagt af stað úr byggðum árla morguns og ætlað alla leið í Möðrudal en ferðin sóttist seint þar eð birtu naut ekki af tungli að kvöldinu og skíðafæri í lakara lagi. Þessi næturstaður var langt frá mannabyggðum – að undanskildum nokkrum öðrum kotum, sem stóðu á víð og dreif um heiðina, var dagleið til byggða og þrjár dagleiðir í kaupstað, jafnvel að sumarlagi.

Halldór lýsti þessari heimsókn í grein sem nefnist „Raflýsíng sveitanna“ og birtist fyrst í Alþýðublaðinu í mars sama ár. Í formála sem fylgdi greininni sagði meðal annars: „H.K.L tók sér ferð á hendur á síðastliðnu sumri til að kynnast þjóð og háttum á þeim stöðum landsins sem liggja fjærst Reykjavíkurmenningunni. Hann var í þessari ferð til jóla og fór í svartasta skammdeginu landveg yfir öræfi Austur- og Norðurlands, gekk á skíðum af Austfjörðum alla leið norður á Akureyri og gisti hinar afskekktustu sveitir.“ Greinin er prentuð í heild sinni í bókinni Af menníngarástandi (1986) en sá hluti hennar sem hér er til umfjöllunar var áður prentaður í bókinni Dagleið á fjöllum (1937).

Að hafa nóg handa kindunum

Í greinarhlutanum, sem hlaut nafnið „Skammdegisnótt í Jökuldalsheiðinni“, segir Halldór Laxness: „Það var ekki sjónarmunur á kotinu og jöklinum; samferðamenn mínir hittu á það með því að að fylgja sérstökum miðum. Við geingum mörg þrep niðurí jökulinn til að komast inní bæardyrnar. Baðstofukytran var á loftinu, niðri var hey og fénaður. Hér bjó karl og kerlíng, sonur þeirra og móðir bónda, farlama gamalmenni. Bóndinn átti nokkrar kindur, en hafði slátrað einu kúnni til þess að hafa nóg handa kindunum. Hann sagði að það gerði minna til þótt fólkið væri mjólkurlaust og matarlítið, aðalatriðið væri að hafa nóg handa kindunum.“ Fólkið í heiðinni dró fram allt það besta handa ferðalöngunum: þeir fengu soðið beljukjöt um kvöldið og soðið beljukjöt morguninn eftir, kaffi og grjótharðar kleinur.

„Slá í gegn“ á dönskunni

Þessi skammdegisnótt í Jökuldalsheiðinni átti síðar eftir að bergmála í einu þekktasta verki Halldórs Laxness, Sjálfstæðu fólki (1935-35); sögunni um Bjart í Sumarhúsum sem býr í heiðinni með fjölskyldu sinni en þó öðru fremur með sauðfé og hundtík. Heimsóknin í kotið árið 1927 var þó ekki kveikja sögunnar. Hún hafði brotist lengur um í huga skáldsins. Fyrsta tilraun Halldórs til að gera hinum íslenska kotbónda skil, smásagan „Thordur i Kalfakot“, birtist á síðum danska blaðsins Berlingske Tidende árið 1920 og var sagan skrifuð á dönsku. Halldór dvaldi um það leyti í borginni við Sundin, hafði sent frá sér sína fyrstu skáldsögu, Barn náttúrunnar (1919) og hugðist nú hasla sér völl sem rithöfundur á danska tungu. Í jólabréfi til móður sinnar frá árinu 1919 sagði hann meðal annars: „ég hef heitið því, að koma ekki heim fyr, en ég sé búinn að „slá í gegn“ á dönskunni“. Sagan kom síðar út á íslensku undir heitinu „Kálfkotúngaþáttur“. Þessi tvö verk, Sjálfstætt fólk og smásagan, eru mjög ólík en greina þó bæði frá lífi í örreytiskoti þar sem fátækt og bjargarleysi ríkja og í báðum sögunum er komið að lifandi afkvæmi hjá látnu foreldri.

Salt jarðar

Verkið sótti áfram á Halldór Laxness og hann glímdi stundum „frammá nætur við þennan bóndadjöful sem ég hafði sært uppúr jörðinni í Danmörku“, eins og segir í minningasögunni Grikklandsárinu (1980) en náði ekki utan um efnið. Átti verkið að heita Salt jarðar. Drögin urðu öll eftir hjá móður hans þegar skáldið hélt til meginlands Evrópu síðsumars 1921. Nú tóku við mikil mótunarár hjá Halldóri. Hann gerðist kaþólskur, dvaldi um hríð í klaustri þar sem hann skrifaði skáldsöguna Undir Helgahnúk (1924), var á Ítalíu um tíma þar sem hann setti saman Vefarann mikla frá Kasmír (1927) en með þeirri skáldsögu segist hann hafa skrifað sig frá kaþólskunni, lokað klausturportunum að baki sér. Eftir þetta hélt Halldór til Los Angeles þar sem hann reyndi fyrir sér í kvikmyndaiðnaðinum. Þar kynntist Halldór sósíalismanum sem hann hreifst mjög af. Og í lok vistarinnar vestra, átta árum eftir að hann skildi kotunginn eftir hjá móður sinni, í kæfandi sumarhita í Kaliforníu, skaut „bóndadjöfullinn“ upp kollinum á ný og Halldór fór enn að glíma við hann. Nú hét sagan Heiðin. Enn eina atrennu gerði hann að efninu í Berlín 1932, eftir að hafa sent Sölku Völku frá sér (1931-1932), og er Halldór kom frá Rússlandi sama ár small sagan saman og hann skrifaði hana á tveimur árum. Bókin kom síðan út í tveimur hlutum 1934-1935 undir heitinu Sjálfstætt fólk.

Konúngleg reisn

Halldór Laxness var ævinlega með minniskompur á sér og hripaði niður í þær athugasemdir, hugdettur og annað sem skipti máli fyrir þau verk sem hann vann að hverju sinni eða gátu nýst honum síðar. Í „nótissubókunum“ frá því að hann glímdi við kotbóndann má sjá margt forvitnilegt. Hann vísar í uppkastið frá Berlín hér og hvar en einnig lítillega í drögin frá Los Angeles. Í kompunum segir t.d.: „Í þessu mjög svo samþjappaða verki á að túlkast saga íslensku þjóðarinnar in nuce [í hnotskurn]“. Á einum stað hripar skáldið hjá sér eins og til áminningar: „Hið óheyrilega child labor [barnaþrælkun] á íslenskum kotbæum“. Við sjáum í minnisbókunum að nafnið á aðalsöguhetjunni, Bjarti, kom ekki strax. Um tíma er talað um Páljón Sigursteinsson og „veraldarstríð“ hans, á öðrum stað heitir hann Þorleifur Jónatansson og í lokin kemur Guðbjartur Jónsson – Bjartur í Sumarhúsum. Í kompunum eru drög að köflum en einnig áminning til höfundarins á borð við: „Þarf að ljá öllu fólkinu persónulegar (sympatískar) línur, einkanl. konunum og dótturinni.“ Og á öðrum stað: „Laga samtölin à la Hemingway“. Einnig: „Gleyma aldrei eitt augnablik tilfinníngum samlíðunarinnar – með öllu sem er.“ Meðan Bjartur heitir ennþá Þorleifur segir á einum stað: „Gæta þess ennfr. að láta Leifa aldrei tapa sinni konúnglegu reisn alt í gegn um söguna, – þann eiginleik að vera hafinn yfir umhverfið.“

Þannig minnir skáldið sig á það í minniskompum sínum hvernig verkið skuli líta út, hvaða dráttum eigi að mála persónurnar og hvernig stíllinn skuli vera. Þarna er einnig að finna ýmislegt sem ekki rataði inn í hina endanlegu gerð, að minnsta kosti ekki í sama formi. Á einum stað nóterar skáldið hjá sér: „Þorleifur Jónatansson drap sín börn á heiðarlegan hátt,“ sem ekki er að finna í sögunni og á öðrum stendur: „Bjartur við Ástu Sóllilju: Hjá mér hefur altaf verið til nóg að bíta og brenna. Og ég hef altaf staðið í skilum, bæði við guð og menn. En ég hef orðið fyrir því óláni að eiga hjartveikar konur; sem er einsog hver annar guðs vilji.“ Síðari klausan er í sögunni en í öðru samhengi, lítillega breytt og í tvennu lagi. Fyrri hluti málsgreinarinnar kemur inn í samtal Bjarts við oddvitann sem ýjar að því að það sé laus vinnumannsstaða hjá sér til að losa kotunginn undan jarðakaupunum en þá segir Bjartur stoltur og sjálfstæður að hann hafi staðið „í skilum við guð og menn“. (126) Síðari hlutann er að finna í samtali Bjarts við hreppstjórann á Útirauðsmýri þegar sá síðarnefndi reynir að koma kú inn á fólkið í Sumarhúsum en af því tilefni segir bóndi: „ég hef orðið fyrir því óláni að eiga hjartveikar konur, sem er einsog hver annar guðs vilji og ílt innræti forsjónarinnar.“ (182)

Að sá í akur óvinar síns allt sitt líf

Sjálfstætt fólk gerist í upphafi 20. aldar og segir, eins og áður hefur komið fram, frá Guðbjarti Jónssyni sem lætur gamlan draum rætast með því að kaupa lítið kot sem hann nefnir Sumarhús. Bjartur er loksins orðinn sjálfstæður maður eftir 17 ára vinnumennsku, sjálfs sín herra sem þarf ekki að sækja neitt til ókunnugra. Hann berst við að halda svokölluðu sjálfstæði sínu allt til enda – ekki síst gagnvart fyrrum yfirboðurum sínum á Útirauðsmýri og færir fyrir það óbætanlegar fórnir. Öllum hlutum sögunnar lýkur t.d. með því að Bjartur missir eitthvað og má segja að „veraldarstríð“ hans kristallist í eftirfarandi tilvitnun: „Það er til í útlendum bókum ein heilög saga af manni sem varð fullkominn af því að sá í akur óvinar síns eina nótt. Sagan af Bjarti í Sumarhúsum er saga mannsins, sem sáði í akur óvinar síns alt sitt líf, dag og nótt. Slík er saga sjálfstæðasta mannsins í landinu.“

Í minniskompunum hnykkir Halldór á þessu með eftirfarandi orðum: „Framtak einstaklíngsins í þúsund tilfellum á Íslandi: Bjartur í Sumarhúsum. Hreppstjórinn á Útirauðsmýri táknar framtak einstaklíngsins í einu tilfelli af þúsund.“ Þannig gerir Halldór Bjart að eins konar tákni fyrir baráttu íslenskrar alþýðu fyrir því að fá að ráða sér sjálf – baráttu sem er dæmd til að mistakast. Á þessu hnykkir skáldið í minniskompu sinni: „Guðbjartur Jónsson í Sumarhúsum, sjálfstæðismaður og frelsishetja, fulltrúi íslensks þjóðernis.“

Skopleikur og harmleikur

Í uppkasti að bréfi til ensks útgefanda síns, sem dagsett er 22. október 1937, segir Halldór honum að kynna Bjart fyrir breskum lesendum sem Don Kíkóta norðursins þar sem hann sé „ódauðleg hetja í nútímabúningi sem berst fyrir sjálfstæði sínu og einstaklingshyggju gegn hrikalegu ofurefli illra afla og góðra og gefur hvergi eftir hvorki fyrir himni né jörð.“ Skáldið bætir því við að hér sé um að ræða „skopleik og harmleik einstaklingshyggjunnar“, Bjartur sé fús að láta hvaðeina af hendi og fórna jafnvel lífinu fyrir málstað sinn. Halldór bendir útgefandanum á að kynna þennan íslenska þrákálf fyrir Englendingum með eftirfarandi hætti: „Þetta er gegnheill Norðurlandabúi, víkingur og skáld, harðstjóri, býður guðunum byrginn, brúnir hans hélaðar og andlitið sem jökulbrynja, en innst í hjarta sínu er hann hinn harmsögulegi elskhugi eins lítils blóms – eitthvað á þessa leið.“ Í sama bréfi nefnir Halldór að á íslenskri kápu verksins sé teikning af hetjunni að bera ástvinu sína lengra inn í einveru fjallanna og sé þar vísað í höggmynd Einars Jónssonar, Útlagann (sem stendur nú við Hringbrautina í Reykjavík hjá gamla kirkjugarðinum); Bjartur sé þegar öllu er á botninn hvolft útlagi. (Þýðingin á þessum brotum úr bréfi Halldórs Laxness er eftir dr. Árna Sigurjónsson).

Nálega þremur áratugum síðar rifjaði Halldór upp kynni sín af Bjarti í Sumarhúsum í Skáldatíma (1963) og sagði: „þarna var einsog í íslendíngasögunum verið að útmála hetjuskap manns án tillits til málstaðar hans. Og málstaður Bjarts var vondur frá hérumbil öllum sjónarmiðum nema hetjuskaparins.“

Hljómkviða með mörgum stefjum

Í bók sinni Frá Ylfíngabúð til Urðarsels segir dr. Árni Sigurjónsson að Sjálfstætt fólk sé margt í senn: hetjusaga, ástarsaga, ljóðræn saga og skopfærð stjórnmálaádeila sem sé nátengd samtímaatburðum. Hann líkir sögunni við hljómkviðu, hún sé ofin úr mörgum stefjum og sum þeirra þekki lesendur úr öðrum bókum skáldsins. Þessi stef eru kærleikurinn eða samlíðunin, skáldskapurinn sem er mikilvægur þáttur sögunnar, þriðja stefið er ástarsagan og það fjórða hugmyndafræðin en sagan er beitt gagnrýni á kjör íslenskra bænda og andsvar gegn upphafningu á stöðu bóndans eins og hún birtist t.d. hjá norska skáldinu Knut Hamsun. Raunar má segja að Sjálfstætt fólk sé svar Halldórs við Gróðri jarðar eftir Hamsun. Skýrasta dæmið er kannski að fyrsta orðið sem Ísak, aðalpersónan í Gróðri jarðar, segir er „já“ en fyrsta orð Bjarts í Sjálfstæðu fólki er „nei“. Báðir hefja þeir búskap með tvær hendur tómar, Ísak verður „ríkisbubbi á sveitabúskap“ eins og Halldór skrifaði síðar í minningasögunni Úngur eg var (1976), en örlög Bjarts eru þveröfug.

Maður í stórhríð

Þó að Bjartur í Sumarhúsum sé Íslendingur í húð og hár er sagan þó sammannleg eins og vinsældir hennar út um víða veröld sýna. Kotbóndinn og þrákálfurinn virðist hafa haft djúpstæð áhrif á lesendur víða um heim. Halldór sagði einhverju sinni frá því þegar hann sat um vetur heima á Gljúfrasteini í Mosfellssveit og barið var að dyrum. Úti var stórhríð og enginn á ferli nema þeir sem brýn erindi áttu. Fyrir utan stóð maður og leigubíll beið eftir honum. Þetta var Bandaríkjamaður á leið til Evrópu en hafði millilent á Íslandi til að skipta um flugvél. Hann hafði náð sér í leigubíl og beðið hann um að aka sér heim til Halldórs Laxness. Eina erindið var að fá að taka í höndina á manninum sem skapaði Bjart í Sumarhúsum, fá hjá honum eiginhandaráritun, og segja að á Manhattan væru fleiri bræður Bjarts í Sumarhúsum en nokkurs staðar annars staðar í veröldinni. Hann var á hraðferð og taldi sig ekki hafa tíma til að þiggja kaffisopa og hvarf eftir stutta viðdvöl aftur út í hríðina.

Sjálfstætt fólk hefur nú komið út á 29 tungumálum í hátt í sextíu útgáfum. Þegar bókin var gefin út í Bandaríkjunum árið 1946 var hún bók mánaðarins í stærsta bókaklúbbi landsins, Book-of-the-Month-Club, og seldist hálf milljón eintaka af verkinu á tveimur vikum. Í kalda stríðinu lenti Halldór á eins konar svörtum lista hjá Bandaríkjamönnum. Hann var stimplaður kommúnisti og slíkir höfundar áttu ekki upp á pallborðið vestan hafs. Því varð ekki framhald á útgáfu á verkum hans hjá öflugum bókaforlögum þar í landi fyrr en árið 1997 þegar Sjálfstætt fólk var gefin út á ný af sama forlagi og fyrir hálfri öld. Viðtökur gagnrýnenda við þessari nýju útgáfu voru afar góðar og sýna svo ekki verður um villst að sagan af Bjarti í Sumarhúsum á erindi við fólk hvarvetna í heiminum og á öllum tímum; í henni er sleginn sammannlegur tónn. Lýsingar á gæðum bókarinnar voru hástemmdar, hún var sögð minna á Hundrað ára einsemd Nóbelsskáldsins Gabríel Garcia Marquez og sagt að þetta væru „gleðilegir endurfundir“.

Þannig er Sjálfstætt fólk hvorttveggja í senn eins íslensk saga og hugsast getur en um leið alþjóðleg. Með henni tókst Halldóri að reisa hinum íslenska kotbónda óbrotgjarnan minnisvarða – hinum sjálfstæða manni sem í miðjum ósigri sínum stendur uppi sem sigurvegari. Honum tókst að lokum að sigra sjálfan sig.

Formáli að útgáfu Vöku-Helgafells á Sjálfstæðu fólki í kilju árið 1998