Samtíminn, hið iðandi líf umhverfis höfundinn og í brjósti hans, neyðir uppá hann yrkisefnum sem hann hafði síst órað fyrir, yrkisefnum sem hann hefur kanski flúið árum saman, yrkisefnum sem hann mundi gefa aleigu sína, þótt hann væri miljónamæríngur, til að þurfa aldrei að færast í fáng. Til dæmis veit ég að höfundur einn er nýbyrjaður á bók sem hann hefur í átján ár verið að biðja guðina að forða sér frá að skrifa. Höfundinum finst sér verkið ofvaxið, hann hryllir við öllu þessu stríðandi lífi sem heimtar að hann gefi því mál og form, neitar þverneitar og þráneitar að leggja sig í þennan voða – en hann hefur nú einu sinni veðdregið sig sköpunaröflum lífsins og þau halda áfram að heimta hann óskiftan, og honum verður ekki undankomu auðið.

Þannig kemst Halldór Laxness að orði í útvarpserindi árið 1942 og prentað var í Vettvángi dagsins sama ár undir nafninu „Höfundurinn og verk hans“. Enginn þarf að fara í grafgötur með það að höfundurinn sem um ræðir er Halldór sjálfur. Og bókin sem hann hefur í átján ár, eða frá 1924, vikið sér undan að skrifa er Íslandsklukkan. Skáldverkið sem nú er nefnt Íslandsklukkan og prentað er hér í einu lagi kom upphaflega út í þremur hlutum en þeir nefndust Íslandsklukkan (1943), Hið ljósa man (1944) og Eldur í Kaupinhafn (1946).

Íslandsklukkan markar ákveðin tímamót á ferli Halldórs: þetta er söguleg skáldsaga en áður hafði hann ritað sögur úr samtímanum eða nálægri fortíð og frásagnarmátinn er annar, hann nálgast sögu sína á allt annan hátt en áður. Að auki má síðan bæta því við innan sviga að þetta var fyrsta verk Laxness sem naut almennrar hylli en hann var þó ekki lengi að splundra samstæðum lesendahópnum með næstu bók sinni, Atómstöðinni (1948), sem kom eins og sprengja inn í þjóðfélagsumræðuna á sínum tíma. Má segja að ekki hafi náðst sátt um hann á ný fyrr en eftir að hann hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum 1955, æðstu viðurkenningu sem rithöfundi getur hlotnast á alþjóðlegum vettvangi. Þótt Halldór nyti framan af ekki almennrar hylli lét þjóðin sig verk hans varða, menn lásu þau og tóku eindregna afstöðu til þeirra. Engum stóð á sama um bækur Laxness.

Þjóðleg skáld og alþjóðleg

Íslandsklukkan gerist á 17. öld, einu mesta niðurlægingarskeiði íslenskrar þjóðar. Fyrstu verk Halldórs, Barn náttúrunnar (1919) og Undir Helgahnúk (1924) eru sveitasögur í gömlum stíl en Vefarinn mikli frá Kasmír (1927) var aftur á móti nútímalegt verk, þar tókst skáldið á við samtíma sinn og hefur jafnvel verið sagt að með verkinu hefjist nútíminn í íslenskri sagnagerð. Eftir Vefarann skrifar Halldór sögur úr samtímanum sem kalla má félagslegar sögur, Sölku Völku (1931–32), Sjálfstætt fólk (1934–35) og Heimsljós (1937–40). Í þeim deilir hann hart á þjóðskipulagið og ranglega skiptingu auðs, enda var hann þá orðinn sannfærður sósíalisti. Bækur hans frá þessum tíma verða þó aldrei að klisjukenndum áróðursbókmenntum eins og vinsældir þeirra enn í dag sýna. Í Íslandsklukkunni snýr Halldór sér hins vegar að fortíðinni, ræðir við samtíð sína með sögum aftan úr öldum.

Þegar Halldór settist niður til að skrifa söguna af Jóni Hreggviðssyni, Snæfríði Íslandssól og Arnasi Arnæusi geisaði heimsstyrjöld. Heimurinn var í báli. Stórþjóðir hernámu smáþjóðir án þess að spyrja kóng eða prest. Réttur einstaklings til lífs og frelsis var fótum troðinn. Og stríðið gerði spurninguna um það hvað gerði þjóð að þjóð enn áleitnari en fyrr. Bretar hernámu Ísland 1940 og sagt var að þeir hefðu einfaldlega verið á undan Þjóðverjum sem þá höfðu m.a. náð Noregi og Danmörku á sitt vald. Jafnframt voru miklar umræður um þjóðlega list og óþjóðlega – eða alþjóðlega – eftir því hvernig menn litu á málið, enda fóru nasistar um þessar mundir sem logi um akur. Halldór fjallar í fyrrnefndri grein um þessi mál og segir þar að list sé ekki í eðli sínu þjóðleg heldur alþjóðleg, samþjóðleg. „Andi hvers tíma er ekki einskorðaður við sérstaka þjóð, heldur heil menníngarsvæði, margar þjóðir.“ Síðan segir hann:

Stundum rísa upp þussar og segja að skáld eigi að vera þjóðleg en ekki alþjóðleg. Hér er eingin spurníng um hvað eigi að vera, því það er staðreynd að öll almennileg skáld eru bæði þjóðleg og alþjóðleg í senn. Afturámóti eru ekki til nein skáld sem eru þjóðleg og aðeins þjóðleg, einsog fasistar halda fram, og það er af þeirri einföldu ástæðu að ekki er til neitt mannfólk sem hægt er að kalla þjóðlegt og aðeins þjóðlegt … Góð bók sem rituð er í Kína er rituð fyrir Ísland.

Halldór víkur síðan að stríðinu í framhaldi af þessu og segir: „Jafnvel á þessum styrjaldartímum erum við undir áhrifum fjarskyldustu og fjarlægustu þjóða. Stríð sem er háð hinumegin á hnettinum er einnig vort stríð.“ Þannig má segja að þótt Íslandsklukkan sé skrifuð á íslensku um Íslendinga, stöðu íslenskrar þjóðar á erfiðum tímum, þá er hún líka alþjóðlegt verk; aðrar smáþjóðir finna samsvaranir við eigin sögu í henni; velta fyrir sér sömu spurningunni um það hvað geri þær að sjálfstæðri þjóð; einstaklingar finna samsvörun við réttleysi mannsins gagnvart valdsmönnum; saga elskenda sem er ei skapað nema skilja er ekki bundin Íslandsströndum og svo mætti lengi telja, enda segir Halldór í greininni sem fyrr var vitnað til: „Túngurnar eru aðeins mismunandi ker fyrir hugsanir og hugmyndir sem eru samþjóðlegri en nokkru sinni áður í sögu heimsins.“

Þannig má segja að heimsstyrjöldin síðari og aðdragandi hennar hafi átt þátt í því að Halldór hóf að skrifa Íslandsklukkuna eftir að hafa ýtt henni á undan sér í átján ár. Einnig er víst að sambandsslitin við Dani hafa haft nokkuð að segja en þau voru í brennidepli á þessum árum og 1944 stofnuðu Íslendingar lýðveldi á Þingvöllum. Norræn skáld önnur leituðu einnig á vit fortíðar í sögu þjóða sinna á styrjaldarárunum. Að hluta til má rekja það til þess að dulbúa varð hættuleg viðfangsefni á líðandi stund en fjarlægð í tíma varpaði einnig skærara ljósi á hin þjóðlegu og sammannlegu verðmæti sem barist var um. Halldór var þannig ekki einn um að snúa sér að ritun sögulegra skáldsagna. Hins vegar er þess að geta að á árunum fyrir síðari heimsstyrjöld var hann þegar farinn að viða að sér ýmsu efni sem hann átti eftir að nota í Íslandsklukkunni. Og aldrei er hægt að segja að einhverjar ákveðnar ytri aðstæður í lífi höfundar, svo sem heimsviðburðir og tíðarandi, ráði því að hann sest niður og skrifar um tiltekið efni, jafnvel þótt það hafi leitað á hann hátt í tvo áratugi.

Persónurnar og fyrirmyndir þeirra

Halldór Laxness styðst mjög við sögulegar heimildir í Íslandsklukkunni og víkur í engu frá sögulegum staðreyndum svo stingi í augu, þótt hann túlki fortíðina á sinn hátt, sveigi hana undir lögmál skáldskaparins. Og sjálfur hefur Halldór bent á að í verkinu hafi hann vitnað til ýmissa atburða „sem virðast tómt grín og vitleysa“, en séu þó sögulegir. Aðalpersónur Íslandsklukkunnar eiga sér allar sögulegar fyrirmyndir.

Segja má að kveikjan að verkinu sé bréf sem Jón Hreggviðsson sendi Árna Magnússyni árið 1708 og prentað er aftast í þessari bók þar sem hann lýsir glímu sinni við réttvísina. Þessa sögu kynnti Jón Helgason prófessor í Kaupmannahöfn Halldóri þegar árið 1924 en tíu árum síðar gerði hann svo stutt yfirlit, tíu til tuttugu síður, um gang sögunnar en hófst ekki almennilega handa fyrr en um 1940. Bréf Jóns Hreggviðssonar segir merka sögu um réttlæti á Íslandi á 17. öld. Halldór fylgir þræðinum hjá honum en víkur til ýmsu til að fella betur að lögmálum skáldskaparins. Jóni Hreggviðssyni var þannig í raun og veru gefið að sök að hafa drekkt böðli sínum, Sigurði Snorrasyni, í forarpytti eftir að þeir höfðu ásamt sýslumanni og fleirum orðið „ofdrukknir“ og riðið út í nóttina, óvissir um stefnu og áttir. Hann var dæmdur til dauða en slapp úr haldi á Bessastöðum, flúði til Hollands og þaðan til Danmerkur þar sem hann fékk í gegn fyrir hæstarétti að mál hans skyldi aftur upp tekið á Alþingi. Sigurður Björnsson lögmaður og Heideman landfógeti stungu málinu hins vegar undir stól, hæstaréttarstefnan var aldrei birt í réttinum og Jón sendur heim með fyrirskipun um að umgangast aðra menn friðsamlega. Loks eftir tuttugu ár var Sigurði og Jóni stefnt til Alþingis 1708 í sambandi við almenna rannsókn á réttarfari og vafasömum dómsmálum. Árni Magnússon og Páll Vídalín voru þar umboðsdómarar og var Sigurður dæmdur frá æru og embætti en Jóni gert að útvega sér nýja hæstaréttarstefnu. Sigurði tókst hins vegar að fá málið tekið fyrir í yfirrétti á Alþingi 1710 þar sem Jón var dæmdur til þrælkunar á Brimarhólmi en Árna tókst að koma í veg fyrir að dóminum yrði fullnægt. 1715 féll svo loks dómur þar sem Jón var sýknaður af morðinu, þrjátíu árum eftir að hann var dæmdur til dauða. Ótrúleg saga en sönn um kotbónda sem verður fórnarlamb deilna embættismanna.

Árni Árnason eða Arnas Arnæus eins og hann er jafnan nefndur í Íslandsklukkunni á sér fyrirmyndir í Árna Magnússyni handritasafnara og Skúla Magnússyni landfógeta. Árni átti ásamt Páli Vídalín í baráttu við Sigurð Björnsson lögmann og lauk þeirri glímu með því að Sigurður var að lokum sýknaður í hæstarétti en Páll og Árni dæmdir til að greiða málskostnað. Í þessari togstreitu varð mál Jóns Hreggviðssonar nánast að aðalatriði og það virðist hafa orðið Árna metnaðarmál að fá Jón sýknaðan til að hefna sín fyrir niðurstöðuna í átökum þeirra lögmanns.

Þriðja aðalpersóna sögunnar, Snæfríður Íslandssól, er hins vegar að mestu leyti skáldskapur. Hún á sér þó að nokkru leyti fyrirmynd í Þórdísi Jónsdóttur, konu Magnúsar Sigurðssonar í Bræðratungu. Þórdís og biskupsfrúin í Skálholti voru systur en ekki dætur lögmanns eins og í sögunni. Þau Árni áttu að hafa átt í ástarsambandi í æsku. Með því að gera Snæfríði að dóttur lögmannsins eykur höfundurinn mjög á spennuna í sambandi þeirra Arnæusar. Sem erindreki konungs dæmir Arnas föður hennar frá æru og embætti en Snæfríður heldur málinu áfram stolt og ákveðin eftir dauða föður síns. Heiður ættarinnar krefst þess að Arnasi sé komið á kné. Ástin til hans er söm en hún kemur þessu máli ekki við.

Fjölmargar aðrar persónur sögunnar eiga sér sögulegar fyrirmyndir og atburðir tengdir þeim gerðust í raun og veru þótt það verði ekki tíundað hér. Halldór hefur því haft úr miklum efniviði að moða en það eitt og sér er ekki nóg, – þá er eftir að gæða efnið lífi og búa til úr því góða skáldsögu. Að öðrum kosti félli það dautt niður á fyrstu síðu.

Óþarfa orðaskak lagt niður

Halldór velur í Íslandsklukkunni frásagnarmáta sem hann hafði ekki notað áður í verkum sínum. Að því leyti var hún einnig nýjung á höfundarferli hans. Hann lýsir öllu utan frá, útskýrir aldrei hvað persónum býr í huga, lætur þær lýsa sér með orðum sínum en beitir einnig umhverfislýsingum markvisst í því skyni. Þessa aðferð þiggur hann í arf frá þeim er rituðu fornar bókmenntir okkar. Sjálfur segir Halldór um þetta í samtali við Matthías Johannessen í Skeggræðum gegnum tíðina:

Þegar ég skrifaði Íslandsklukkuna var ég kominn á þá skoðun, að nauðsynlegt væri að strika sem mest út, og sá, þegar ég leit í mínar gömlu bækur, að þar var víða hægt að strika út heilar og hálfar setningar, stundum aðra hverja setningu, jafnvel heila kapítula. Íslandsklukkan er dregin saman í forminu. Óþarfa orðaskak er lagt niður, aldrei sagt hvað maðurinn hugsar, því það verður óendanlegt ef á að lýsa út í æsar hvað allir hugsa, og hlýtur að enda í óskapnaði sem er andstæður sögu … Í Íslandsklukkunni reyni ég að segja með sem fæstum orðum, hvernig persónan kemur fram í hverju atviki, hvað hún talar og hvernig hún svarar heiminum með hegðan sinni.

Margslungið verk

Íslandsklukkan er margslungið verk og hægt að túlka það á ýmsan veg, allt eftir því að hverri aðalpersónanna þriggja við beinum kastljósinu en í hverju bindi sögunnar er ein alltaf fyrirferðarmest. Í fyrsta hluta, Íslandsklukkunni, er Jón Hreggviðsson bóndi á Rein mest áberandi, í öðrum hluta, Hinu ljósa mani, er Snæfríður Björnsdóttir Eydalín í brennidepli og í þriðja og síðasta hluta, Eldi í Kaupinhafn, fer mest fyrir Arnasi Arnæusi.

Ef Jón Hreggviðsson er í brennidepli er hægt að leggja söguna út á þann veg að hún segi frá því hvernig valdið rís einstaklingi yfir höfuð. Honum verður það á að grípa snæri og upp frá því er eins og hann sé leiksoppur örlaganna. Leit hans að réttlæti verður löng og ströng, hann verður að peði í valdatafli þar sem hann sjálfur skiptir litlu máli eins og Arnas Arnæus segir við hann eftir að Jón er búinn að hlaupa yfir það mjúka Holland og kominn til Kaupmannahafnar: „þitt mál kemur þér sjálfum lítið við Jón Hreggviðsson. Það er miklu stærra mál. Hverjum er borgnara þó höfuð eins betlara sé leyst? Ein þjóð lifir ekki af náð.“ Einstaklingurinn skiptir ekki lengur máli heldur heildin, hann stendur frammi fyrir valdi sem er óskiljanlegt og óáþreifanlegt. Réttlætið verður afstætt, Snæfríður spyr hann hvort honum hafi aldrei dottið í hug að lífið og réttlætið væru frændsystkin og réttlætið miðaði að því að tryggja fátækum manni lífið en Jón svarar því að hann hafi aldrei vitað réttlæti miða að öðru en svipta fátæka menn lífinu. Fyrir Arnasi snýr málið hins vegar öðruvísi við: Takist rétti að sanna glæp á saklausan mann er hann sekur. „Það er hörð kenníng; en án hennar mundum við ekki hafa réttvísi.“ Líf smælingjans er með öðrum orðum aukaatriði, réttarkerfið verður að hafa sinn gang, – eins þótt það kunni að hafa rangt fyrir sér. Jafnvel Snæfríður víkur að því sama: „Hafi nú réttinum skeikað, og sé Jón Hreggviðsson saklaus, er þá ekki réttlætið meira virði en höfuð eins betlara? – jafnvel þó því kunni að skeika endrum og eins.“ Það er því kannski ekki að undra þótt Jóni verði að orði: „Vont er þeirra ránglæti, verra þeirra réttlæti.“ Jón Hreggviðsson er jafnframt annað og meira en venjulegur kotbóndi, hann verður í sögunni að tákni fyrir þrautseigju þjóðarinnar á erfiðum tímum, fulltrúi soltins og illa leikins íslensks almennings sem má sín einskis gagnvart hinu ópersónulega valdi.

Ef Arnas Arnæus er færður í brennipunkt sjáum við allt aðra sögu í Íslandsklukkunni. Kristján Karlsson hefur á það bent að lögmál verksins séu lögmál hins persónubundna harmleiks eins og þau birtast í grískum harmleikjum, leikritum Shakespeare og Íslendingasögum. Arnas er þá hin harmræna hetja sem form sögunnar er bundið. Forlög hans eru hið þrítekna höfuðþema þríleiksins. Þetta meginþema er tryggðrof eða svik. Hann svíkur Snæfríði þrisvar sinnum: fyrst í Íslandsklukkunni fyrir hinar fornu bækur, aftur í Hinu ljósa mani fyrir réttlætið og loks fyrir framtíð landsins sjálfs í Eldi í Kaupinhafn. Þó verður mikill hluti hinna fornu handrita eldi að bráð, réttlætið glatar merkingu í persónulegum og pólitískum átökum og framtíð landsins er ekki björt í sögulok. Arnas er að lokum sigraður maður en það eru einmitt lögmál harmleiksins; þar fer ævinlega allt illa að lokum. Ekki stafa forlög hans af maklegum málagjöldum heldur er það óhamingja hans sem ræður. Algengasta verkfæri örlaganna í harmleikjum er ofmetnaður, það sem Grikkir kölluðu „hybris“. Arnas ætlar sér ofurmannlegt hlutverk, svíkur hið mannlega fyrir æðri tilgang, freistar þess að sveigja forlögin undir vilja sinn. Því fer sem fer. Hann á þó enn þann möguleika að skilja örlög sín, játast undir þau: „Nú er best goðin ráði. Ég er þreyttur“, segir Arnas þegar hann situr eftir sigraður maður. Örlög Snæfríðar má skilja á sömu forsendum. Þegar í fyrstu bók sögunnar segist hún heldur vilja þann versta en þann næstbesta. Í lokin gefur hún sig örlögunum á vald og giftist þeim næstbesta.

Segja má að í Snæfríði Íslandssól sameinist allt hið torráðna og torgæta í lífi þjóðarinnar, ævintýrið og draumurinn ofar dapurlegri rúmhelgi. Hún er álfkonan, álfakroppurinn mjói: „Með gullband um sig miðja þar rauður loginn brann“. Þótt hún segi að vettvangur dagsins sé ekki hennar staður og sterkir menn ríki yfir deginum þá er hún engu að síður þátttakandi í refskák réttvísinnar, glímir á þeim vettvangi við Arnas þótt hún elski hann. Stolt hennar krefst þess. Hún er sterk og heilsteypt, það góða afl sem fyrirgefur flest, „sú sanna drotníng alls Norðurheims“ eins og Jón Hreggviðsson kemst að orði. Hún er sú sem heldur fram heiðri landsins, hann er það sem allt snýst um. Hún sjálf skiptir ekki máli ef sómi lands og ættar er í veði eins og sést í því sem hún biður Jón Hreggviðsson að skila til Arnasar í Kaupmannahöfn: „Seg honum ef minn herra geti bjargað sóma Íslands, þótt mig áfalli smán, skal þó andlit hans jafnan lýsa þessu mani.“ Raunar er eins og henni finnist einstaklingarnir ekki skipta máli heldur orðstír lands og þjóðar, – þjóðarstoltið er ofar öllu. Þetta sést glögglega í samtali hennar við Gullinló höfuðsmann Íslands:

Mávera sigraðri þjóð sé best að útþurkast: ekki með orði skal ég biðja íslenskum vægðar. Vér íslenskir erum sannarlega ekki ofgóðir að deya. Og lífið er oss laungu einskisvert. Aðeins eitt getum vér ekki mist meðan einn maður, hvortheldur ríkur eða fátækur, stendur uppi af þessu fólki; og jafnvel dauðir getum vér ekki verið þess án; og þetta er það sem um er talað í því gamla kvæði, það sem vér köllum orðstír …

Kvæðið gamla sem hún vísar til er Hávamál og hefur hún vitnað til þess fyrr í samtali þeirra: „þó maður missi fé og frændur og deyi loks sjálfur, þá sakar það ekki hafi maður getið sér orðstír.“ Hann er það sem allt snýst um. Af þeim sökum er kannski vafasamt að segja að Arnas svíki eða selji Snæfríði í lokin fyrir framtíð landsins. Þau hittast um nótt á gistihúsi í Kaupmannahöfn og hann segir henni að þjóðverjum hafi boðist Ísland til kaups og þeir vilji fá hann fyrir landstjóra. Saman byggja þau upp draumsýn um fagurt mannlíf þar sem þau búa saman á Bessastöðum, fólkinu líður vel og þau ríða um landið á hvítum hestum. Loksins er sem elskendurnir geti náð saman, – í skjóli erlends valds. Ýmsir segja að Arnas sjái að sér, flytji þýskum þau skilaboð frá sjálfum sér að þetta sé blekking, hann geti ekki tekið við þessu embætti; sá sem bjóði landið falt geti ekki selt það því að hann sé ekki eigandi þess. Lýkur hann ræðu sinni með þeim orðum að spyrja hver væri orðinn hlutur þeirrar þjóðar sem skrifaði frægar bækur þegar risnir væru á Íslandsströnd þýskir fiskibæir með þýskum köstulum og málaliði? „þeir íslensku mundu þá í hæsta lagi verða feitir þjónar þýsks leppríkis. Feitur þjónn er ekki mikill maður. Barður þræll er mikill maður, því í hans brjósti á frelsið heima.“ Ef miðað er við að fyrir Snæfríði vaki það eitt að halda fram heiðri landsins, orðstír þess, liggur beint við að ætla að hún rífi niður draumsýn þeirra, komi Arnasi í skilning um að þetta sé tóm blekking en ekki öfugt. Á eftir er hann enda eins og rjúkandi rúst, ekkert skiptir hann lengur máli í lífinu, honum er sama þótt bækurnar brenni; allt er hrunið.

Hjartsláttur skálds og líðandi stundar

Þannig er hægt að velta fyrir sér ýmsum leiðum til að túlka það mikla verk Íslandsklukkuna. Hún hefur enda verið landsmönnum hugleikin allt frá útkomu hennar en einnig notið vinsælda erlendis, verið gefin út í á þriðja tug þjóðlanda. Halldór Laxness samdi sjálfur leikgerð upp úr verkinu sem nefnd var Snæfríður Íslandssól og frumsýnd var við opnun Þjóðleikhússins 1950. Leikritið hefur margoft verið sett upp víða um land. Sagan um Jón Hreggviðsson bónda á Rein, Snæfríði Íslandssól og Arnas Arnæus sem stríddi á huga Laxness í átján ár hefur þannig lifað góðu lífi með þjóðinni og mun sjálfsagt gera það um ókomin ár enda virðist ótti skáldsins við að verkið væri honum ofvaxið hafa verið með öllu ástæðulaus. Efni þess á stöðugt erindi við okkur því að sjálfstæði smáþjóðar hefur aldrei verið sjálfsagt. En það er ekki nóg að efni verksins sé brýnt, það höfðaði ekki til okkar nema það væri sett saman af miklum hagleik. Peter Hallberg segir um Íslandsklukkuna í bók sinni Húsi skáldsins:

Í Íslandsklukkunni hefur Halldór af óviðjafnanlegri snilld endurlífgað liðna tíð í landi sínu. Hún rís úr grimmum eða grátbroslegum hversdagsleika upp til hinnar mestu fegurðar og harmbundins mikilleika. En það má líka heyra ákafan hjartslátt skáldsins og líðandi stundar á Íslandi í þessu verki.

Formáli að útgáfu Vöku-Helgafells á Íslandsklukkunni í kilju árið 1994