Óhætt er að segja að menn hafi beðið með eftirvæntingu eftir því að Halldór Laxness sendi frá sér nýja skáldsögu eftir að hafa hlotið Nóbelsverðlaunin 1955, mestu alþjóðlegu viðurkenningu sem rithöfundi getur hlotnast.

Ástæður eftirvæntingarinnar eru einfaldar. Menn voru forvitnir að sjá hvernig skáldið skrifaði eftir að hafa hlotið þessa miklu upphefð að utan og Halldór kom lesendum sínum ævinlega á óvart með verkum sínum, var óhræddur að breyta um stíl og yrkisefni. Verk hans vöktu ævinlega deilur, engum stóð á sama um hann, en þó gátu menn ekki verið þekktir fyrir annað en að lesa þau, enda sagði Elías Mar í ritdómi um Brekkukotsannál: „Þeir Íslendingar, sem ekki lesa núorðið hverja nýja bók eftir Laxness strax er hún kemur út, eru varla mælandi málum“.

Deilurnar um Laxness snerust ekki um listrænt gildi bókanna heldur efni þeirra. Hann kom við kaunin á mönnum, skrifaði óhræddur um lúsina og skítinn sem landinn neitaði að kannast við. Og ekki stóð á viðbrögðum Íslendinga. Halldór var annaðhvort hataður eða dáður, ýmist naut hann gestrisni bænda á ferðum sínum um landið eða honum var meinaður aðgangur að landareign bóndans með riffli!

Rammíslenskar en um leið sammannlegar

Á fjórða áratugnum skrifaði Halldór sögur úr samtímanum: Sölku Völku (1931-32) um fiskverkunarstúlku í litlu þorpi; Sjálfstætt fólk (1934-35) um kotunginn Bjart í Sumarhúsum og Heimsljós (1937-40) um skáldið Ólaf Kárason Ljósvíking. Þar deildi Halldór á þjóðskipulagið og rangláta skiptingu auðs enda var hann þá orðinn sannfærður sósíalisti.

Bækur þessar eru þó fráleitt einfaldar áróðursbókmenntir eins og vinsældir þeirra út um allan heim enn þann dag í dag sýna. Halldór nær að gera þær sammannlegar þótt þær spretti úr íslenskum veruleika, t.d. kom Amríkani eitt sinn að máli við Halldór og tjáði honum að í New York einni væru hundrað þúsund bænda sem lifðu og hrærðust alla sína hundstíð undir sams konar siðferðilögmáli og Bjartur í Sumarhúsum.

Íslandsklukkan (1943-6) um þau Jón Hreggviðsson, Snæfríði Íslandssól og Arnas Arnæus var fyrsta verk Halldórs sem naut almennrar hylli íslenskra lesenda en þar skrifaði hann sögulega skáldsögu frá 17. öld sem byggði að miklu leyti á rituðum heimildum. Hann var hins vegar ekki lengi að vekja deilur á ný, því að í Atómstöðinni (1948) tók hann á afar viðkvæmu máli, sölu landsins eða þátttöku þjóðarinnar í vestrænu varnarsamstarfi, eftir því hvar menn skipuðu sér í fylkingar.

Aftur vakti Halldór athygli og deilur með Gerplu (1952) þar sem hann hæddist að hinni fornu hetjuhugsjón Íslendingasagnanna en boðskapur sögunnar beindist ekki síður að nútímanum því að trúin á valdið og ofbeldið er enn helsta bjargráð þeirra landstjórnarmanna sem ekkert óttast meira en þegna sína. Þeir sem vildu gátu séð þarna deilt á Hitler og Stalín en í bókinni birtist einnig andstæða þeirra samfélaga þar sem ríkja sterkir leiðtogar eða einræðisherrar en slíkt fyrirmyndarsamfélag finnur hann meðal grænlenskra eskimóa. Núítar, sem skáldið nefnir svo, þekkja ekki annað en að allir séu jafnir og lifi í sátt og samlyndi.

Efast um sæluríkið

Það var ekki aðeins að menn fyndu að Halldór væri að feta sig inn á nýjar brautir í skáldverkum sínum því að á þessum árum, um og eftir miðjan sjötta áratuginn, mátti líka greina aðrar áherslur í greinaskrifum hans. Í Gjörníngabók (1959) safnar Halldór saman greinum sínum frá árunum 1954-58 og koma þessar breytingar þar glögglega fram. Árin eftir síðari heimsstyrjöld einkenndust af hatrömmu köldu stríði þar sem voru „við“ og „þeir“. Menn skipuðu sér í tvær fylkingar undir merkjum Bandaríkjanna og Sovétríkjanna, – kapítalisma og kommúnisma. Halldór Laxness hafði um árabil verið ötull baráttumaður sósíalismans, lofað Sovétríkin í hástert og leiðtoga þeirra, Jósef Stalín, en deilt að sama skapi harkalega á höfuðvígi auðvaldsins, Bandaríkin. Í Gjörníngabók gætir hins vegar hvergi heiftarlegra árása á Bandaríkjamenn og Nato en hann heggur þeim mun oftar í aðra og óvænta átt. Hann lýsir þar þeirri sorg sem sósíalistar heimsins fylltust þegar Krúsjoff, aðalritari sovéska kommúnistaflokksins, fletti ofan af grimmdarverkum Stalíns. Og hann er harmi sleginn yfir innrás Sovétmanna í Ungverjaland 1956 til að kveða niður uppreisnina í Búdapest.

Það ber því ekki á öðru en Halldór sé kominn með miklar efasemdir um sæluríki sósíalismans, Sovétríkin. Og ekki nóg með það: hann virðist vera búinn að fá sig fullsaddan af kenningum. Á þriðja áratugnum aðhylltist hann kaþólsku og boðaði hana af miklum krafti. Eftir það snerist hann til sósíalisma og barðist fyrir honum af engu minni ákafa. Endanlegt uppgjör Halldórs við sósíalismann og Stalín fór síðan fram í Skáldatíma (1963).

Af framansögðu má sjá að sá að Halldór Laxness sem sendi frá sér Brekkukotsannál á útmánuðum 1957 var annar Halldór en sá sem skrifaði Sjálfstætt fólk rúmum tveimur áratugum áður þótt segja megi að efnið sé svipað: íslenskur kotbóndi á fyrri hluta tuttugustu aldar og fjölskylda hans. Hann kemur aftur að gömlu yrkisefni en án þeirra pólitísku viðmiðana sem settu mark sitt á verk hans á fjórða áratugnum.

Innan og utan við krosshliðið

Brekkukotsannáll er frásögn Álfgríms af afa og ömmu í Brekkukoti í Reykjavík og stórsöngvaranum Garðari Hólm. Álfgrím langar að læra að syngja og finna hinn hreina tón. Garðar virðist hafa höndlað frægðina en ekki er eins víst að hann hafi fundið tóninn hreina. Hann þiggur fé af Gúðmúnsen kaupmanni og kemst áður en lýkur að niðurstöðu: „Sá maður sem er einhvers virði eignast aldrei gimstein.“ Garðar Hólm verður Álfgrími að nokkru leyti fyrirmynd og hvatning uns beiskur sannleikurinn um stórstjörnuna lýkst upp fyrir honum smátt og smátt.

Hægt er að nálgast Brekkukotsannál með ýmsu móti, t.d. sem bók um tvo ólíka heima, gamlan og nýjan, sannan og falskan, eða sem harmsögu.

Ef við lítum á Brekkukotsannál sem sögu um ólíka heima, gamlan og nýjan, markar krosshliðið í Brekkukoti landamærin, „þar sem skilur tvo heima“.

Innan við krosshliðið eru engar kröfur gerðar, hvorki veraldlegar né andlegar, enda lifir fólkið lífi sem hefur þótt nógu gott fyrir landsmenn öldum saman. Fólkið í Brekkukoti lifir reglubundnu lífi sem er í föstum skorðum, virðir rétt annarra til að vera öðruvísi og sýnir engum manni áreitni. Þar eru orðin of dýr til að eyða þeim í gálaust hjal, kerskni eða lygar; forvitni og stelvísi lagðar að jöfnu. Heimurinn innan við krosshliðið er líkastur Paradís. Þar er rekið ókeypis gistihús fyrir alla sem vilja. Þar hafa menn enga trú á peningum né öðrum nýmælum. Amma og afi í Brekkukoti eru manna geðþekkust og standa föstum fótum í liðnum tíma. Í huga þeirra er sá auður einn sannur sem ekki verður af mönnum tekinn. Utan við krosshliðið er annar heimur, annar tími, annað samfélag. Brekkukot og Gúðmúnsensbúð eru tákn tveggja viðhorfa í sögunni. Brekkukot táknar hreinlyndi, hógværð og iðni – eða hinn hreina tón – en Gúðmúnsensbúð allt hið gagnstæða, – og hinn nýja tíma. Sú list sem þar á sér griðastað er ekki sönn. Hinn kyrrstæði heimur innan við krosshliðið felur í sér dýrmæta menningu, sérstætt gildismat og býr yfir ákveðnum töfrum en hann byggir á sögulegum og félagslegum forsendum sem eru að bresta í bókinni. Nýi tíminn heldur innreið sína í Reykjavík. Nútíminn er að bresta á með önnur atvinnutæki sem skapa aðrar efnahagslegar forsendur og hugsunarháttur manna og gildismat breytast hratt.

Í síðari bókum sínum kemur Halldór aftur og aftur að því að eiginlega skipti litlu máli fyrir líf okkar hér á jörð hvaða trúarlegar eða heimspekilegar formúlur við aðhyllumst. Það séu hinir mannlegu eiginleikar sem úrslitum ráði, hin mannlega reisn. Margar persónur bóka hans einkennast af þessu. Líf þeirra byggir á umburðarlyndi gagnvart náunganum og er algjörlega laust við hvers kyns ofstæki. Hvað sem á gengur birtir fólkið sína sérstæðu afstöðu með óbifanlegri rósemi, einungis með því að breyta eins og því er eðlilegt.

Lífsskoðun af þessu tagi líkist mjög taóisma sem á rætur að rekja allt austur til Kína. Þótt Brekkukot sé óneitanlega íslenskt alþýðuheimili skoðar höfundur sögunnar heimilisfólkið í ljósi taós. Að vísu er taó aldrei nefnt á nafn en návist þess leynir sér ekki, t.d. í 19. kapítula þar sem Álfgrímur segir frá morgunverkunum með Birni í Brekkukoti:

„Þessir mornar þegar við vorum að vitja um hrokkelsin á Skerjafirði, og þeir voru í raun og veru allir einn og sami morguninn: altíeinu eru þeir liðnir. Stjörnur þeirra eru fölnaðar; kínversku bókinni þinni lokað.“

Þessi kínverska bók er Bókin um veginn eftir spekinginn Lao-tse, eins konar spakmælasafn sem líkist fremur samtíningi en heildstæðu hugmyndakerfi.

Kostgripir hins vitra manns eru samkvæmt henni hófsemd, sparsemi (í víðtækri merkingu) og lítillæti.

Þær persónur sem eru mest áberandi í Brekkukoti eru „afi“ og „amma“ Álfgríms. Amman heldur öllu saman á heimilinu, hún innir af hendi dagleg störf sín svo að segja ósýnilega, án erfiðismuna og fyrirgangs og breiðir öryggiskennd yfir allt sem umhverfis hana er. Sama má segja um Björn í Brekkukoti. Þau lifa lífi sínu á ósjálfráðan hátt og virðast ekki velta vöngum yfir lífsstefnu sinni eða sambandi sínu við aðrar manneskjur eða umheiminn.

Eftirlitsmaðurinn sem býr undir sama þaki og þau hefur aftur á móti kosið sér hlutskipti og hann getur rætt um lífsviðhorf sín. Hann var áður bóndi en seldi eigur sínar til þess að geta hlýtt þeirri köllun sinni að gera salernin við höfnina í Reykjavík hrein og ilmandi „einsog apótekið hjá þeim danska manni Mikael Lúnd“ og viðhalda því hreinlæti. Hann ætlar sér þannig að gera hið auvirðilegasta í bænum göfugt, upphefja hið lága, en hátt og lágt eru andstæður sem skipta hann engu máli eða eins og segir í sögunni: „Hátt og lágt vinur, sagði eftirlitsmaðurinn og skríkti ofurlítið – í hljóði: ég veit ekki hvað það er“.

Fyrir honum er hið hærra hætt að vera hærra og lægra hætt að vera lægra. Hann er gersneyddur allri tilhneigingu til að prédika siðfræði fyrir öðru fólki. Í augum hans eru allir menn jafn gildir. Breytni hans einkennist af takmarkalausri hjálpsemi, samfara rótgróinni andúð á að grípa fram fyrir hendurnar á öðrum eða hafa áhrif á örlög meðbræðra sinna. Afstaða hans getur virst einkennast af taó, því afli er smýgur gegnum allt og drottnar yfir öllu þótt það sé kyrrlátt og geri engar kröfur, sé meira að segja afskiptalaust, en þegar Álfgrímur rifjar þetta upp löngu síðar ber hann þetta saman við annað siðgæðiskerfi. Honum finnst hann hafa orðið áheyrsla þess er fullkominn vinur manna mælti orðum kirkjufeðra og heilagra manna en með gagnstæðum formerkjum: hann upphóf manninn meðan kirkjunnar menn töluðu af fullkomnum viðbjóði um sköpun mannsins. Eftirlitsmaðurinn er þó ekki kristinn heldur blátt áfram laus við alla guðfræði enda viðurkennir hann ekkert yfirnáttúrlegt nema tímann. Hins vegar virðist slíkur maður auðugri af taó en flestir aðrir samkvæmt túlkun Halldórs Laxness á því hugtaki.

Kjarninn í taó Halldórs felur í sér virðingu fyrir öllu lífi, trú á óbrotinn mannkærleika, trygglyndi og hreinlyndi. Þessa fyrirmynd mannlegrar breytni sem sett var fram í kínversku kveri fyrir þúsundum ára finnur hann meðal venjulegs íslensks alþýðufólks.

Halldór teflir fram þessari angurværu mynd af lífinu í Brekkukoti gegn nútímanum þar sem önnur gildi eru hafin til vegs. Í bókarlok vitum við að heimurinn innan við krosshliðið er á hverfanda hveli. Álfgrímur stígur skrefið til fulls, yfirgefur Brekkukot til að fara út í heim til að læra að syngja og feta þannig í fótspor stórsöngvarans Garðars Hólm

Algild mannleg harmsaga

Önnur leið að Brekkukotsannál en tengist þó þeirri sem nú hefur verið rakin er að skoða söguna út frá sambandi Garðars Hólm og Álfgríms þar sem örlög söngvarans færast að miðju frásagnarinnar. Ef við höfum þá tvo í brennidepli má segja að Brekkukotsannáll sé harmsaga í ljósi tærrar bernsku; hamingja bernskunnar í skugga örlaganornarinnar. Annað býr undir kyrru yfirborði endurminninganna. Þegar Garðar Hólm kemur fyrsta sinni heim býður lesandann í grun að ekki sé allt sem sýnist, – hér sé harmsaga á ferð.

Helsti stuðningsaðili Garðars Hólm á Íslandi er Gúðmúnsensbúð. Gúðmúnsen kaupmaður sem líta má á sem tákn reykvískrar borgarastéttar er skringileg persóna en um leið aumkunarverð. Hann er menningarlaus. En hann hefur komist að því að þótt hann lifi góðu lífi án menningar getur „búðin“ ekki komist af án hennar – það vantar slaufu á saltfiskinn – og því leggur hún fram fé í „fyrirtækið“ Garðar Hólm. Seinna kemur í ljós að það fyrirtæki er vafasamt í meira lagi en „búðin“ má ekki við því að viðurkenna að hún hafi misreiknað sig í menningarfyrirtækinu, hún reynir að minnsta kosti að skjóta þeirri játningu á sem lengstan frest. Á meðan er meintri frægð söngvarans haldið að alþýðu manna, hún skal trúa því að Garðar sé stórsöngvari og í því skyni eru fluttar stöðugar fréttir af sigrum hans á erlendri grund. Og þessum blekkingum trúa menn. Garðar skilur sjálfur örlög sín, leikur hlutverk sitt meðan stætt er, en veraldarleiði hans er einlægur og kvöl hans uppgerðarlaus.

Frægð Garðars er blásin út en þegar til á að taka reynist vera harla lítil innistæða fyrir henni. Af þessum sökum hafa ýmsir velt því fyrir sér hvort Brekkukotsannáll sé um fánýti frægðarinnar eða hvort frægð sé þar alls ekkert til umræðu. Vissulega er þetta átakanleg saga um hinn eilífa frægðardraum landans sem úr eymd eða fásinni leitar utan til að sigra heiminn en kemur aftur sigraður. Sannleikurinn er hins vegar sá að Garðar Hólm er hvort tveggja í senn frægasti maður Íslands og óbreyttur sjómaður á Jótlandi. Þetta eru vitaskuld algjörar mótsagnir þannig að Garðar verður kannski ekki rökfræðilega „réttur“ en Halldór Laxness hefur löngum álitið mikilvægara í verkum sínum að setja fram tvær setningar, tvær hliðar máls eða persónu sem rekast óþyrmilega á: sannleikurinn kann þá að birtast í leiftrinu sem verður við áreksturinn. Af þeim sökum er Brekkukotsannáll um frægðina, – meðal annars. Andstæður tímans, andstæður þjóðfélagsins taka sér bústað í manninum Georg Hanssyni eða Garðari Hólm. Sem manni eru honum þær andstæður að lokum ofurefli. Niðurstaðan verður algild mannleg harmsaga.

Æska Álfgríms er með nokkrum hætti endurtekning á æsku Garðars Hólm. Báðir alast þeir upp við gamla kirkjugarðinn, þar syngja þeir báðir við smærri jarðarfarir hjá séra Jóhanni dómkirkjupresti og stefna báðir á frama í sönglist þegar þeir vaxa úr grasi. Saga drengsins er innskot í sögu heimssöngvarans en um leið er þetta þroskasaga Garðars. Ævi Álfgríms má þó ekki skoðast sem einhvers konar yfirnáttúrleg endurtekning á ævi Garðars.

Álfgrími er einmitt frjálst að leggja sinn skilning í hlutverk sitt sem arftaka söngvarans. Harmleikur Garðars er aðeins ein af mögulegum framtíðarleiðum Álfgríms. Í lok bókarinnar verður hann að velja sér vegarnesti á listabrautinni. Hann getur farið að dæmi Georgs Hanssonar og tekið við ávísun frá Gúðmúnsensbúð. Hann getur líka valið að hafa með sér arfleifðina úr Brekkukoti, bera virðingu fyrir menningu heimsins fyrir innan krosshliðið og gildum hans og taka með varúð því sem er fyrir utan það. Framtíð hans veltur á því hvorn kostinn hann kýs sér.

Gallalausasta verk“ Halldórs Laxness

Þannig er hægt að nálgast Brekkukotsannál á fleiri en einn hátt en hér hafa aðeins tvær leiðir að sögunni verið raktar. Þetta er ein af ástsælustu skáldsögum Halldórs Laxness og hefur hún verið þýdd á fjölda tungumála.

Einnig hefur verið gerð sjónvarpskvikmynd upp úr verkinu sem frumsýnd var snemma árs 1973. Mönnum þykir sagan auðskilin og falleg en undir lygnu yfirborði ólgar hins vegar þungur straumur sem gefur bókinni alvarlegan undirtón þrátt fyrir kímnina sem er svo áberandi í textanum. Kristján Karlsson sagði í dómi um bókina þegar hún kom út: „Mér er ekki ljóst, hvort þessi sérkennilega íslenzka harmsaga með hið indæla ívaf muni verða talin með mestu verkum Halldórs Kiljans Laxness en hún stendur allt um það sem órengjanleg ávísun á mannlegar staðreyndir.“ Sigfús Daðason var hins vegar ekki í nokkrum vafa í grein sinni um verkið en þar segir hann að „Brekkukotsannáll sé „gallalausasta“ listaverk Halldórs Kiljans Laxness.“

Formáli að kiljuútgáfu Vöku-Helgafells á Brekkukotsannál árið 1994