Þegar Halldór Laxness var ungur drengur í skóla rakst hann á ferðasögu bónda nokkurs undan Eyjafjöllum sem hét Eiríkur Ólafsson og var kenndur við Brúnir. Eiríkur á Brúnum hafði heyrt biskup frá Utah í Bandaríkjunum, sem raunar var íslenskur, lýsa hinu fyrirheitna landi mormóna hinum megin við úthöfin og eyðimerkur veraldarinnar. Eiríkur heillaðist af þessari hugmynd um ríkið góða og nótt eina meðan allir sváfu reis bóndi úr rekkju, kyssti sofandi börn sín sem hann unni ofar öllu á jörðu, faðmaði að sér konu sína og var á brott. Saga Eiríks á Brúnum varð kveikjan að skáldsögu Halldórs Laxness, Paradísarheimt, sem út kom árið 1960.

Pílagrímsfarir lítils karls

Í greinasafninu Upphaf mannúðarstefnu frá árinu 1964 segir Halldór frá tildrögum skáldsögunnar Paradísarheimt:

Haustið 1927 þegar ég stóð í fyrsta sinni andspænis musterinu í Salt Lake City [höfuðborg Utah-ríkis] með hásmíðuðum turnum sínum þráðbeinum upp og ofan, og hinumegin við torgið kúrir tabernaklið ávalt og ílángt, að innan í laginu einsog Munnur Guðs, þá kom upp í hug mínum sagan sem ég hafði lesið af tilviljun dreingur, um pílagímsfarir lítils karls um veröldina í leit að fyrirheitna landinu, og ef hægt var, enn viðurhlutameiri raunir sem fólk hans rataði í eftir að hann var farinn. Ég vissi ekki fyr en ég var farinn að leiða saman sögu þessa við sjálfan veruleikann. Hugmyndin hélt síðan áfram að sækja á mig í meira en þrjátíu ár.

Halldór Laxness ritar í grein sinni að hann hafi aftur og aftur tekist á við þetta yrkisefni en ekki náð að festa hendur á því en honum „fanst aðalatriðið, hið fyrirheitna land, aldrei ætla að komast í brennipúnkt.“ Á árunum 1958 og 1959 einbeitti Halldór sér að efni Paradísarheimtar, rifjaði upp sögu Eiríks frá Brúnum og lagði leið sína um Suðurland til að skoða staðhætti með hliðsjón af atburðum sögunnar. Sumarið 1959 hvarf Halldór svo til Bandaríkjanna sömu erinda og dvaldist lengstum í Utah-ríki þar sem afkomendur íslenskra innflytjenda iðka enn mormónatrú. Hinn 4. október 1959 skrifaði hann Auði, konu sinni, bréf frá hinu fyrirheitna landi Eiríks á Brúnum:

Ég er búinn að útrétta hér í Utah mest af því sem ég get gert, hef komist hér alveg á rekspöl með yrkisefni mitt, svo að nú liggur afgángur bókarinnar rakinn fyrir mér. Fyrir bragðið sækja á mig hugmyndir og atriði sem bíða útfærslu svo ég hef ekki við að hripa upp minnisgreinar og gera grindur í nýa og nýa kapítula. Ég var fjóra daga hjá Bearnson um daginn og talaði við fólk í Spanish Fork, Provo og Springville, mest íslenskættað, svo tugum skifti, suma dagana var ég í heimsóknum hjá því frá morni til kvölds, hverjum á eftir öðrum. Það var óhemjulega lærdómsríkt og ég fékk feikn af traustum fróðleik um íslenskt landnemalíf hér frá fyrstu hendi.

Þarna sést hversu ýtarlega Halldór hefur kannað sögusvið Paradísarheimtar en sama má raunar segja um önnur verk hans. Hann grandskoðar heimildir, bæði rituð gögn og munnlega geymd. Í Íslandsklukkunni nýtir Halldór sér lýsingar Jóns Indíafara og í Paradísarheimt skrif Eiríks á Brúnum en í bókum þessum styðst skáldið vitaskuld við ýmsar aðrar heimildir. Hann nefnir Jón og Eirík „ósvikna sveitasagnfræðínga“ í viðtali við Morgunblaðið í október 1970 og segir að það einkenni þá að þeir sjái „veröldina fyrir sér eins og útvíkkun á sveit sinni og framhald af henni“ og bætir síðan við um Eirík á Brúnum: „hvort heldur hann lýsir hóruhúsunum eða kóngafólkinu í Kaupmannahöfn ellegar sæluríkinu í Utah er hann ævinlega kyr á hlaðinu heima í sveit sinni.“

Þannig má segja að Halldór hafi þaulkannað veruleikann til þess að geta komið skáldskapnum til skila. Raunar hefur verið sagt að munurinn á sagnfræðingi og höfundi sögulegrar skáldsögu sé sá að rithöfundurinn viti hvenær hann sé að ljúga! Veturinn 1959-60 vann Halldór að Paradísarheimt í ró og næði í Lugano í Sviss en hún kom svo út haustið 1960.

Með hrindingum, skömmum og hatursfullum orðum

En hver var saga þessa íslenska alþýðumanns sem ekki hafði látið skáldið í friði allt frá barnæsku? Árið 1878 kom út í Reykjavík Lítil ferðasaga eftir Eirík Ólafsson á Brúnum. Eiríkur hafði hitt Kristján níunda Danakonung og Valdimar prins er þeir voru á ferðalagi á Íslandi sumarið 1874 í tilefni af því að þá var haldið hátíðlegt þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar. Þá keyptu þeir feðgar hest af Eiríki sem hann síðar vitjaði í Kaupmannahöfn þegar hann var þar á ferð 1876. Við það tækifæri afhenti hann prinsi koffort er sonur hans hafði smíðað með trélæsingu. Þurfti að færa níu tappa á lokinu með fimmtán handtökum eftir flókinni aðferð til að ljúka því upp. Konungsfólkið færði Eiríki mynd af sér að skilnaði og svaraði bóndi þá þegar í stað í sömu mynt: „Gaf ég því svo öllu myndir af mér aftur, sem það tók við með ljúflyndi og bað mig að skrifa nafn mitt á þær þar, sem ég gjörði“, segir í sögu hans. Hér minnir margt á það sem lesa má í Íslendingasögum, þar sem íslenskur alþýðumaður stendur frammi fyrir norrænum konungi og er ekki minni maður, – allir eru jafn bornir.

Síðar fór Eiríkur Ólafsson að efast um lúterska barnatrú sína. Hann las af tilviljun bók eftir vin sinn, mormónann Þórð Diðriksson, og lét að því búnu skírast til mormónatrúar, ásamt konu sinni og dóttur. Einnig áttu hatur og fyrirlitning, sem virtust mæta mormónum hér á landi, þátt í trúarskiptum hans. Eiríkur fluttist til Utah þar sem þegar hafði myndast dálítil íslensk nýlenda en kona hans andaðist á leiðinni ti móts við hann. Svo sem kirkja mormóna býður fór hann í trúboðsferð til Íslands þar sem mættu honum hótanir og ásóknir af ýmsu tagi. Eiríki var oft meinuð innganga og gisting á bændabýlum og fyrir kom að hundum var sigað á hann. Þegar hann á jóladegi hafði hlýtt á messu í kirkju einni gerði mikill hluti safnaðarins með prestinn í broddi fylkingar aðsúg að honum „með hrindingum, skömmum og hatursfullum orðum“, eins og hann lýsti í Annarri lítilli ferðasögu sem hann skrifaði. Smám saman yfirgaf Eiríkur samfélag mormóna eftir ný heilabrot í trúarefnum. „Ég fór með fúsum vilja til þeirra, og með sama kjarki frá þeim aftur, þegar að ég sá þeirra villu“, segir hann í sömu bók. Eiríkur lést í Reykjavík aldamótaárið 1900.

„Rángvellíngatrú“

Trú mormóna eða Kirkja Jesú Krists hinna Síðari Daga Heilögu, eins og kirkjan er kölluð, byggist á vitrunum sem Joseph nokkur Smith fékk fyrst vorið 1820 í Bandaríkjunum. Hann kvaðst hafa fundið gulltöflur áletraðar á „lagaðri egypsku“ eftir fyrirsögn engilsins Móróní og hóf að þýða þær á bók. Mormónsbók segir af ætt nokkurri úr Jerúsalem sem fékk guðlega vitrun um að flýja þá borg skömmu áður en henni var eytt árið 600 f.Kr. Ætt þessi gerði sér lítið fyrir og sigldi til Ameríku. Smith kenndi að Guð hefði ekki hætt að tala til manna með Biblíunni heldur héldi áfram að vitrast þeim og leiðbeina. Mormónar skíra með niðurdýfingu samkvæmt fordæmi í Biblíunni og leyfðu fjölkvæni á fyrstu árum hreyfingarinnar eða fram um 1890 er það var aflagt í samræmi við nýja guðlega opinberun og úrskurð Hæstaréttar Bandaríkjanna. Mormónar meta iðjusemi og skyldurækni mikils. Þeir neyta ekki tóbaks eða drekka te, kaffi eða áfengi. Blótsyrði banna þeir og fasta einn dag í viku.

Fyrstu mormónarnir sem mynduðu hreyfinguna í Bandaríkjunum á 19. öld lentu í miklum hrakningum og innbyrðis erjum. Þeir flúðu frá Illinois út í óbyggðir og komust við harðan leik og mikið mannfall til Utah og námu Saltsjóstað (Salt Lake City) þar sem byggð varð blómleg innan fárra ára. Íslendingar fluttust til Utah áður en Ameríkuferðir héðan urðu almennar. Einkum fluttist fólk af Suðurlandi og nefnir Halldór Laxness í grein í Gjörníngabók, þar sem hann segir frá mormónum og út kom 1959, að hér hafi þetta verið „rángvellíngatrú“.

Von um paradís á jörð

Þeir sem lesa Paradísarheimt þurfa ekki skarpa sjón til að sjá að margt er líkt með Eiríki á Brúnum og aðalpersónu sögunnar, Steinari Steinssyni, bónda í Steinahlíðum. Steinar hverfur frá búi sínu og fjölskyldu til að lifa meðal mormóna í Utah, þar sem hann telur sig hafa fundið fyrirheitna landið, hinn endanlega sannleika. Þar tekur hann upp nafnið Stone P. Stanford. Sögunni lýkur þannig að söguhetjan stendur aftur hjá bæ sínum undir Hlíðum sem nú er kominn í eyði, nánast jafnaður við jörðu. Og nú er maðurinn einn. Steinar tekur ofan hattinn, fer úr treyjunni, tínir saman grjót og fer að dytta að vallargörðum býlisins. Vegfarandi á þar leið hjá og taka þeir tal saman. Þar segir Steinar: „Ég hef fundið sannleikann og það land þar sem hann býr … Það er að vísu allmikils vert. En nú skiftir mestu máli að reisa við aftur þennan vallargarð.“

Saga Steinars bónda undir Steinahlíðum er saga manns sem öðlast hugsjón og von um paradís á jörð. Hann fer að vitja hennar en leitar í sögulok aftur til heimahaganna: Hugsjónin um þúsundáraríki reynist tál eitt. Í lokin virðist ekkert hafa gerst, það er sem Steinar standi í sömu sporum og áður en hann fór. Sjálfur segir Halldór í fyrrnefndri grein um tilurð Paradísarheimtar í Upphafi mannúðarstefnu:

Vitur maður hefur sagt, sá sem fer burt mun aldrei koma aftur; og það er af því að þegar hann kemur aftur er hann orðinn annar maður en hann var þegar hann fór: partir est toujours un peu mourir. Og milli túnsins þaðan sem lagt var á stað og túnsins þángað sem komið er aftur liggja ekki aðeins konúngsríkin og úthöfin ásamt eyðimörkum veraldarinnar, heldur einnig fyrirheitna landið sjálft.

Steinar öðlast trú eða hugsjón sem hann glatar en öðlast nýja lífssýn í lokin. Þegar á allt er litið er það ævaforn og trygg náttúran kringum bæ hans sem gefur lífi hans og starfi sem Íslendings innihald og samhengi. Stone P. Stanford er úr sögunni. Steinar í Steinahlíðum kominn heim. Það er athyglisvert að svipaðan kjarna er að finna í Birtíngi eftir Voltaire en sagan kom út í þýðingu Halldórs hér á landi árið 1945. En þótt niðurstaða verkanna sé hliðstæð er úrvinnsla efnisins hins vegar gjörólík.

Fjölbreyttur ferill

Fróðlegt er að skoða Paradísarheimt í samhengi við höfundarverk Halldórs Laxness. Fyrstu tvær skáldsögur hans, Barn náttúrunnar (1919) og Undir Helgahnúk (1924), eru mjög hefðbundnar og mætti kalla þær bernskuverk, enda höfundurinn enn um tvítugt. Þá tekur við framúrstefnuskeið og Vefarinn mikli frá Kasmír verður til (1927). Vefarinn var gjörólíkur fyrri verkum Halldórs að því leyti að sagan er margslungin, óslitin orðræða um lífsviðhorf.

Eftir Vefarann skrifaði Halldór skáldsögur úr samtímanum sem kalla má félagslegar sögur. Salka Valka (1931-32) er um fiskverkunarstúlku í litlu þorpi, Sjálfstætt fólk (1934-35) segir frá kotunginum Bjarti í Sumarhúsum og baráttu hans við heiminn og 1937-40 sendi Halldór frá sér Heimsljós í fjórum hlutum. Þar dregur hann upp mynd af alþýðuskáldi, Ólafi Kárasyni Ljósvíkingi, sem lendir á milli tveggja stjórnmálaafla í litlu þorpi og gefst enginn friður til að iðka hugleiðingar sínar og skáldskap.

Í sögum þessum setti Halldór fram beitta þjóðfélagsádeilu undir áhrifum frá sósíalisma, þótt hann nái jafnframt að hefja þær yfir það að vera einfaldar áróðursbókmenntir. Í þeim tekst honum að túlka sammannlegan veruleika, óháðan tíma og rúmi, svo þær höfða jafnt til lesenda nútíma og fortíðar, Íslendinga sem útlendinga.

Íslandsklukkan (1943-46) var fyrsta verk Halldórs sem naut almennrar hylli meðal íslenskra lesenda. Þetta er söguleg skáldsaga sem gerist um 1700 og byggir skáldið þar mjög á rituðum heimildum. Ekki ríkti þó upp frá því nein lognmolla í kringum hann því að í næstu skáldsögu sinni, Atómstöðinni (1948), tók hann á afar viðkvæmu máli, „sölu landsins“ eða „þátttöku Íslendinga í vestrænu varnarsamstarfi“, eftir því frá hvaða sjónarhóli er horft á herstöðvarmálið.

Aftur vakti Halldór deilur með Gerplu (1952) þar sem hann hæddist að hinni fornu hetjuhugsjón Íslendingasagna en boðskapur sögunnar beindist ekki síður að nútímanum því að trúin á vald og ofbeldi er gjarnan haldreipi þeirra landstjórnarmanna sem ekkert óttast meira en þegna sína. Skáld gegna veigamiklu hlutverki í Gerplu og má segja að hirðskáldin þar séu nánast hreinir veruleikafalsarar. Kvæði þeirra gefa ýkta glæsimynd af jöfrinum og hetjudáðum hans. Meðal skáldanna er Þormóður kolbrúnarskáld sem fórnað hefur öllu til að geta staðið augliti til auglitis við hetju- og konungshugsjón sína, Ólaf Haraldsson Noregskonung. En þegar til á að taka og skáldið hefur séð hvern mann Ólafur hefur að geyma, kemur hann ekki fyrir sig því kvæði er hann ætlaði að flytja konungi. Sumir segja að Gerpla sé skemmtilegasta bók skáldsins en sjálfur lét hann svo um mælt í viðtölum að sagan væri mesti harmleikur sem hann hefði skrifað. Hann hefði tekið út miklar þjáningar við ritun hennar og sagði að hliðstæðurnar við nútímann ættu að vera augljósar: skáld og hetjur sem gerðust skósveinar Hitlers og Stalíns myndu seint gleymast. Ýmsir fræðimenn, m.a. Peter Hallberg sem mjög rannsakaði verk Halldórs Laxness, hafa bent á að margt sé líkt með höfundi Gerplu og Þormóði kolbrúnarskáldi.

Brekkukotsannáll (1957), fyrsta skáldsagan sem Halldór sendi frá sér eftir að hann fékk Nóbelsverðlaunin í bókmenntum 1955, er ólíkur Gerplu að því leyti að hann gerist í Reykjavík um aldamótin 1900, frásögnin er leikandi létt með gamansömu ívafi og sögð í fyrstu persónu. Enda þótt söguefnin séu ólík eiga þessar sögur þó ýmislegt sammerkt. Báðar vekja þær áleitnar spurningar um veraldlegan auð og frama og um hlutskipti listamannsins.

Í leit að fyrirheitna landinu

Þannig er óhætt að segja að skáldsögur Halldórs hafi tekið ýmsar stefnur og verða sviptingarnar ekki hvað síst skýrðar með sinnaskiptum höfundarins í þjóðfélags- og trúmálum. Sjötti áratugurinn einkenndist öðru fremur af köldu stríði. Sovétríkin og Bandaríkin stóðu grá fyrir járnum og klufu þessar andstæðu fylkingar heimsbyggðina í herðar niður. Halldór Laxness hafði síðan í lok þriðja áratugarins verið ötull boðberi sósíalisma og réttláts þjóðfélags en deilt að sama skapi hart á höfuðvígi auðvaldsins, Bandaríkin. Í Gjörníngabók (1959) þar sem Halldór safnaði saman ýmsum greinum sínum frá síðari hluta áratugarins kvað hins vegar við nýjan tón. Þar gætir hvergi heiftúðugra árása á Bandaríkjamenn og Nato en vonbrigðin með framkvæmd sósíalismans fyrir austan járntjald verða þeim mun meira áberandi. Það fer ekki á milli mála að hrifning Halldórs á Sovétríkjunum – sæluríki sósíalismans – hefur minnkað til mikilla muna. Á þriðja áratugnum aðhylltist hann kaþólsku og boðaði hana af miklum hita. Eftir það snerist hann til sósíalisma og barðist af engu minni krafti fyrir málstað hans. Í ritgerðum Gjörníngabókar virðist hann vera búinn að fá sig fullsaddan af kenningum; menn máttu hafa sína trú eða hugmyndafræði í friði en sjálfur aðhylltist hann nú umburðarlyndi umfram allt og auk þess hagnýtissjónarmið sem segir: ef kenningin virkar er hún að minnsta kosti góð að því marki. Árið 1958 ritaði Halldór grein í danska blaðið Politiken um mormóna og er hún prentuð í Gjörníngabók. Þar spyr hann: Var það sönn eða ósönn vitrun er mærin Bernadetta sá sjálfa Guðsmóður­ina í hellinum í Lourdes? Svar: margir hafa læknast. Menn trúa því sem borgar sig að trúa, segir í sömu ritgerð. Slíkrar afstöðu gætir í Paradísarheimt, t.d. þar sem segir: „Sá hefur bestu kenníngu sem getur sýnt frammá að hann hafi mest að éta; og góða skó.“

Endanlegt uppgjör Halldórs við sósíalismann og Stalín fór síðan fram í Skáldatíma (1963). En fyrst kom sagan um Steinar bónda undir Steinahlíðum, manninn sem fór út í heim og taldi sig þar finna fyrirheitna landið en sneri að lokum aftur heim margs vísari.

Í greininni um tilurð Paradísarheimtar sem fyrr var vitnað til segir Laxness:

Satt best að segja held ég að til þess hægt sé að setja sæmilega bók saman um fyrirheitna landið, þá verði sá sem það gerir að hafa leitað þessa lands sjálfur, og helst fundið það. Hann verður að minstakosti að þekkja úr lífi sjálfs sín alla málavöxtu sem varða slíka stefnu hugarins; hann verður að hafa lagt einhverntíma í pílagrímsferðina sjálfur; ferðast yfir höfin sjálfur á farrými sem hæfir tignarstiga kvikfénaðar, geingið á sjálfs fótum yfir eyðimörkina miklu, að minstakosti í andlegum skilníngi, og slíkt hið sama barist í þeim stöðugum orustum, ýmist innra með sér eða útávið, sem nauðsyn er að heya ár og síð um Landið til að eignast það.

Ekki verður annað sagt en Halldór Laxness hafi farið í slíka pílagrímsferð. Hann lýsti í bókum sínum Í austurvegi (1933) og Gerska æfintýrinu (1938) ferðum sínum til Sovétríkjanna og hvernig allt var þar í blóma. Síðar dró hann í Skáldatíma upp allt aðra mynd af þessum eyðimerkurgöngum sínum – ástandinu í sæluríkinu. Þar segir m.a.:

Stærsta axarskaft okkar vinstrisósíalista fólst í trúgirni. Það er í flestum tilfellum meiri glæpur að vera auðtrúa en vera lygari. Við höfðum hrifist af byltíngunni og bundum vonir okkar við sósíalisma. …Við trúðum ekki þó við tækjum á því hvílíkt þjóðfélagsástand var í Rússlandi undir Stalín.“

Svipaða lýsingu má finna í greininni um tildrög Paradísarheimtar og fyrr hefur verið vitnað til. Þar lýsir Halldór leit manna að fyrirheitna landinu:

Furðumargir náðu ákvörðunarstað. Stundum reyndist fyrirheitna landið rétt sæmilegt land þegar til kom, eða að minsta kosti þolanlegur samastaður þó lögð væri á það mælistika raunveruleikans. Væri hinsvegar ekki svo, datt aungvum sönnum trúmanni í lifandi hug að viðurkenna brest á neinu í fyrirheitna landinu; öllu sem varð á vegi þeirra tóku þeir sem sönnun fyrir þeim stórasannleik sem er lykill hamíngjunnar. Raunir og slys, basl og volæði kníuðu þeir milli sín með þrætubók uns þetta ástand var orðið þeim skiljanlegt afsakanlegt sjálfsagt og altaðþví ákjósanlegt, og hlógu að óhægindum fyrirheitna landsins einsog þau kæmu ekki málinu við. Nokkrir börðu höfðinu við steininn og þverneituðu tilveru mótstæðilegra hluta í fyrirheitna landinu. Staðreyndir skiftu hér aungvu máli. Þeir sem voru eitthvað veikari í trúnni fóru eftilvill að bera sig upp eða jafnvel hreyfa andmælum; þeim var sagt að hypja sig fljótt heim aftur á þann stað þaðan sem þeir voru komnir – þó allar brýr væru reyndar brotnar að baki þeim. Nokkrir höfðu sig á brott þegjandi svo lítið bar á, til þess að trufla ekki annað fólk og spilla hamíngju þess.

Fyrri bækur Halldórs um Sovétríkin, Í Austurvegi og Gerska æfintýrið bera vott um þessa blindni en í Skáldatíma segir frá því hvernig ástandið var í raun.

Að kosta öllu til

Paradísarheimt er þannig m.a. hægt að lesa í samhengi við uppgjör skáldsins við pólitíska fortíð sína, við pílagrímsferðir hans – í eiginlegri og óeiginlegri merkingu – til hins „fyrirheitna lands“ sósíalismans. Í þessu sambandi má vitna til orða Þjóðreks biskups í sögunni þegar hann segir: „Mormón verður sá einn sem hefur kostað öllu til“ – sá sem vill ná landi í sæluríkinu verður að fórna öllu fyrir hugsjón sína, hætta öllu. Út úr Paradísarheimt má kannski lesa uppgjöf skáldsins, vonbrigði hans vegna liðsinnis í þágu voldugrar hugmyndafræði og brostna drauma um fyrirheitna landið. Hann hafi kostað öllu til en ekki fundið það sem hann vonaðist eftir. Hins vegar þrengir það mjög merkingu sögunnar að lesa hana einungis með hliðsjón af höfundi hennar. Nær er að segja að saga Halldórs Laxness sjálfs geti að sumu leyti opnað mönnum túlkunarleið að Paradísarheimt en hún er þó ekki eini lykillinn að verkinu. Hér hefur t.d. ekki verið vikið að ýmsum þáttum sögunnar, s.s. Kaupmannahafnarferð Steinars, gjöfum hans til konungs og endurfundum fjölskyldunnar í Utah sem eru nokkuð sérstæðir. Af hverju færir bóndi Danakonungi dýrgripi sína? Af hverju segir Steina dóttir hans þegar þau finnast á ný handan hafsins að móðir hennar sé „dáin – líka“? Og svo mætti lengi spyrja.

Þannig er merking Paradísarheimtar ekki einföld heldur verður lesandinn að leggja sig eftir niðurstöðu verksins. Það er enda aðal góðra bókmenntaverka að hægt er að nálgast þau á mismunandi vegu sem hver getur verið réttur út frá eigin forsendum án þess þó að útiloka aðra möguleika. Ekki verður heldur fullyrt að hræringar í stjórnmálum á sjötta áratugnum eða persónulegar ástæður hafi orðið til þess að Halldór Laxness tók þá að skrifa sögu mannsins sem fann sæluríkið og missti svo trúna á það – sögu sem knúð hafði dyra um áratuga skeið. Slíkt er ofureinföldun og skiptir ekki meginmáli fyrir túlkun verksins en gefur hins vegar vísbendingar um leiðir til útleggingar á því.

Menn mökuðu sig rómantíkurlaust

Stíll Paradísarheimtar er svipaður og í Brekkukotsannál. Höfundur setur sig í stellingar ævisöguritara Steinars Steinssonar. Sagan er skráð af „þeim lítilsnýtum fræðimanni sem hér og nú heldur á penna“, segir á einum stað í Paradísarheimt. Höfundur líkir eftir gömlu kronikuformi þar sem tímatal er miðað við konunga („Á öndverðum dögum Kristjáns Vilhjálmssonar sem þriðji síðastur útlendra konúnga hefur farið með völd hér úppá landið“) og læst þannig vera að segja frá sannsögulegum atburðum. Svipuðum áhrifum nær sögumaður með því að greina frá mismunandi frásögnum af sama viðburði í fleiri en einni heimild. Slík aðferð er kunn úr Íslendingasögum: „Segja sumar sögur að í Hlíðum hafi staðið þrjúhundruð hrossa í högum þennan morgun, aðrir segja fjögur hundruð“. Höfundurinn læst einnig vera nákvæmur í meðferð þjóðlífsmynda, ekki síst þegar um er að ræða siði og venjur og má sem dæmi nefna eftirfarandi klausu: „Ástin, sem við nú köllum svo, var þá enn ekki flutt til Íslands. Menn mökuðu sig rómantíkurlaust eftir orðlausu náttúrulögmáli og samkvæmt þýskum píetisma danakonúngs.“ Á öðrum stað í sögunni segir: „Á þeim dögum var enn talið ljótt í sveitum að sinna nokkrum hlut vegna þess eins að hann væri skemtilegur.“ Sögumaður grípur til orðatiltækja sem þekkt eru úr eldri frásagnarhefð, s.s.: „Nú er frá því að segja …“ og á öðrum stað er eftirfarandi reglu lýst til eftirbreytni: „Það er sögumanns aðal að segja deili á hetjum áðuren þær koma frammá sjónarsviðið“ og síðan er rakið dæmi um þessa kennningu með kynningu á Benediktssen sýslumanni (margt er líkt með honum og Einari Benediktssyni skáldi og sýslumanni) og Birni hrossaprangara á Leirum. Þannig má segja að Halldór styðjist mjög við gamalreynd epísk frásagnarúrræði og beiti þeim af stakri snilld.

Þýdd á fjórtán tungumál

Menn tóku Paradísarheimt fagnandi á sínum tíma, t.d. sagði Ólafur Jónsson gagnrýnandi Tímans:

Paradísarheimt er undir niðri bölsýn og bitur bók þótt á yfirborði tindri sagan af kímni. Hún er í senn margslungið verk sem leynir ýmsu á sér og einfaldari, einangraðri, en ýmis fyrri verk Laxness. … Paradísarheimt er ekki síst sagan um guðdómlega fávisku mannsins, og hversu langt hún getur leitt hann, sögð af kunnáttu og ærinni íþrótt … Verkið má kalla harmsögu að uppistöðu, grunntónn þess er bölsýni og efi um tilveru og tilgang mannsins á jörðinni. … Hér hefur Halldór Kiljan Laxness komist lengst á braut sinni til hins fullkomnaða, aleinangraða listaverks. … það stendur í flokki með Gerplu og Brekkukotsannál, og innan þeirra takmarka sem það setur sér sjálft er það lýtalaust listaverk.

Paradísarheimt hefur farið víða en hún hefur alls komið út á fjórtán tungumálum í hátt á fjórða tug útgáfa. Gerð var kvikmynd fyrir sjónvarp upp úr sögunni sem frumsýnd var á jólum 1980. Jón Laxdal fór þar með hlutverk Steinars en leikstjóri var Rolf Hädrich. Kvikmyndatökur fóru fram á Íslandi, í Danmörku og Bandaríkjunum.

Þannig hefur saga Steinars bónda undir Steinahlíðum lifnað meðal lesenda víða um lönd, enda saga mannsins, sem fann sannleikann en þótti síðar meira um vert að reisa við vallargarð í túninu heima, einkar skemmtileg aflestrar. Hér sýnir Laxness meistaraleg tök á skáldsöguforminu, ísmeygilega gamansemi en um leið djúpa alvöru. Það er við hæfi að láta skáldið hafa síðasta orðið í þessum formála en fyrrnefndri grein um tilurð Paradísarheimtar í Upphafi mannúðarstefnu lýkur með þessum orðum: „Sú er von mín að ekki mormónar einir, heldur og aðrir lesendur sem hver að sínum hætti eru á leið til fyrirheitna landsins, eða kynnu jafnvel að hafa fundið það, þurfi eigi að fara í grafgötur með það sem fyrir mér vakir.“

Formáli að útgáfu Vöku-Helgafells á Paradísarheimt í kilju árið 2002.