Árið 1968 sendi Halldór Laxness frá sér skáldsöguna Kristnihald undir Jökli. Hennar hafði verið beðið með mikilli eftirvæntingu því að ný skáldsaga hafði ekki komið út eftir Nóbelsskáldið um átta ára skeið eða frá því að Paradísarheimt var gefin út árið 1960. Má segja að í upphafi sjöunda áratugarins hafi orðið ákveðin tímamót á ferli hans sem rithöfundar sem hófst árið 1919 með skáldsögunni Barn náttúrunnar en þá var Halldór aðeins 17 ára að aldri.

Árið 1924 kom út skáldsagan Undir Helgahnúk, sem hann skrifaði í klaustri í Lúxemborg, en báðar þessar sögur eru í gömlum stíl og mætti flokka sem æskuverk. Með Vefaranum mikla frá Kasmír (1927) kvað hins vegar við nýjan tón hjá skáldinu og segja ýmsir að þetta sé fyrsta nútímaskáldsagan hér á landi. Hún er það sem kallað er margradda, eða pólifónísk, – höfundurinn gerir enga tilraun til að ritstýra sögunni í þágu neins ákveðins boðskapar eða persónu. Í sögunni birtast fjölmargar lífsskoðanir og er engri þeirra hampað umfram aðra.

Segir skilið við alheimsteoríur

Eftir þetta sagði Halldór skilið við kaþólska trú sem hann hafði skírst til nokkrum árum fyrr og tók að skrifa félagslegar sögur úr samtímanum: Sölku Völku (1931-32), Sjálfstætt fólk (1934-35) og Heimsljós (1937-40). Á fimmta áratugnum sendi Halldór frá sér Íslandsklukkuna (1943-46) og Atómstöðina (1948) sem báðar voru innlegg í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar, hvor með sínum hætti. Önnur gerist á 17. öld en hin í samtíðinni. Árið 1952 sýndi skáldið enn á sér nýja hlið með Gerplu sem gerist á söguöld og er ádeila á stríð og hetjuskap. Eftir að Halldór fékk Nóbelsverðlaunin í bókmenntum 1955 sendi hann frá sér Brekkukotsannál (1957) sem er hylling á óbreyttu alþýðufólki.

Þremur árum síðar kom síðan Paradísarheimt eins og fyrr greinir. Þar segir frá bónda sem ferðast yfir þveran hnöttinn í leit að fyrirheitna landinu en finnur það að lokum í túninu heima. Ýmis líkindi eru með Halldóri Laxness og bónda þessum því að hann hafði um tíma séð fyrirheitna landið í Sovétríkjunum en nú var eins og hann hefði misst trúna á þetta „sæluríki sósíalismans“. Staðfestingin kom síðan í Skáldatíma (1963) þar sem hann gerði upp við Stalín og harðstjórn hans. Nú kvað við nýjan tón: hann hafði fengið nóg af „alheimsteoríum“ sem öllu áttu að bjarga.

Boðflennan „Plús Ex“

Paradísarheimt var ellefta skáldsaga Halldórs Laxness en sumar sögurnar komu reyndar út í nokkrum hlutum auk þess sem hann hafði skrifað smásögur, ritgerðir og tvö leikrit. Skáldsögurnar voru afar fjölbreyttar, sögusviðið ýmist Ísland eða Ísland og Evrópa, þær gerðust allt frá söguöld til nútímans, stíllinn var ólíkur og þar fram eftir götum. Hann kom ævinlega að lesendum úr óvæntri átt. Nú brá hins vegar svo við að skáldið sem hlotið hafði Nóbelsverðlaunin í bókmenntum fyrir að endurnýja forna íslenska sagnalist var búinn að fá nóg af skáldsögum. Hann einhenti sér í að skrifa leikrit. Árið 1961 var Strompleikurinn frumsýndur, Prjónastofan Sólin kom út ári síðar og var frumsýnd 1966, sama ár og Dúfnaveislan.

Þessi sinnaskipti skáldsins koma glögglega fram í ritgerð hans frá 1962 sem prentuð er í greinasafninu Upphaf mannúðarstefnu (1965) og nefnist „Persónulegar minnisgreinar um skáldsögur og leikrit“. Þar segir Halldór Laxness: „Leingi hefur sú spurníng strítt á þann sem hér heldur á penna, hversu farið skuli með mann nokkurn sem við skulum kalla Plús Ex. Hver er Plús Ex? Það er sú boðflenna með aungu nafni og óglöggu vegabréfi sem ævinlega er viðstödd líkt og gluggagægir hvar sem gripið er ofaní skáldsögu. Þessi herra er aldrei svo smáþægur að setjast aftastur í persónuröðinni, heldur sættir sig ekki við annað en öndvegi nær miðju frásagnarinnar, jafnvel sögu þar sem höfundur gerir sér þó alt far um að samsama ekki sjálfan sig sögumanninum.“

Plús Ex þessi er þannig hin ósýnilega hönd söguhöfundarins sem leiðir lesandann í gegnum verkið, sá sem leggur út af orðum „annarra“ persóna, setur stundum á langar tölur um veðurfar og landslag eða boðar tiltekna hugmyndafræði.

Símagjaldskráin til Falklandseyja

Halldór ræðir um þann óskunda sem Plús Ex gerir í hverri sögu en segir síðan: „Því miður er ég ekki kominn leingra en svara þessu vandamáli með því að orða spurnínguna þannig: Sé P.E. ofaukið í skáldsögu, er þá ekki skáldsögunni ofaukið í bókmentum yfirleitt? Spurníngin, þannig orðuð, leiðir reyndar fljótt útí fjarstæðu. Væri þá kanski réttara að orða hana öfugt, og spyrja alment: er höfundurinn ekki eini maðurinn sem máli skiftir, svo í skáldsögu sem í öðrum bókum?“ Í framhaldi af þessu lýsir skáldið því hvernig þetta vandamál hverfur eins og af sjálfu sér í leikritum – þar sé ekki rúm fyrir neitt aukreitis og bætir við: „Þegar verið er að semja skáldsögu þá er holt að hafa símagjaldskrána til Falklandseya sér til leiðbeiníngar. Óttinn við að þurfa að greiða undir hvert orð eftir gjaldskrá mundi forða mörgum höfundi frá málaleingíngum. … Leikrit krefst enn meiri sjálfsafneitunar en skáldsaga“. Úr orðum Nóbelsskáldsins má því nánast lesa að skáldsagan sé ekki lengur boðlegur miðill fyrir listræna sköpun hans – leikritin séu það sem koma skuli. Hann er hættur skáldsagnagerð í bili.

Hefðin sprengd

Halldór Laxness ber höfuð og herðar yfir aðra rithöfunda hér á landi á þessari öld. Hann endurnýjaði með eftirminnilegum hætti íslenska frásagnarlist, tungumál hennar og form. Ýmsir telja að vegna þessa hafi aðrir höfundar veigrað sér við að ráðast að hinni hefðbundnu skáldsögu eins og gerst hafði erlendis; uppreisnarafl módernismans hafði kollvarpað hinu hefðbundna ljóðformi hér á landi á sjötta áratugnum en hin epíska skáldsaga stóð áfram traustum fótum.

Íslensk skáldsagnagerð þykir hafa verið heldur ráðvillt og máttvana framan af sjöunda áratugnum en síðan tóku höfundar til við að sprengja hið hefðbundna sagnaform. Þar fóru fremst í flokki Steinar Sigurjónsson, Svava Jakobsdóttir, Guðbergur Bergsson, Jakobína Sigurðardóttir og Thor Vilhjálmsson. „Það sýnir styrk Halldórs Laxness að hann skuli ekki sitja um kyrrt í hásæti sínu heldur skrifa skáldsögu sem er eitt af meginverkum uppreisnarinnar gegn sagnahefð sem farið var að kenna æ meir við hann sjálfan,“ sagði Ástráður Eysteinsson í fyrirlestri sem hann nefnir „Í fuglabjargi skáldsögunnar“ og fluttur var á Halldórsstefnu 1992 (prentaður í ritinu Halldórsstefna er út kom 1993). Þetta verk er Kristnihald undir Jökli.

Prestur, vopnabraskari og kvenmynd eilífðarinnar

Kristnihald undir Jökli greinir frá umboðsmanni biskups, Umba, sem sendur er undir Jökul til að kanna stöðu mála í söfnuði einum á Snæfellsnesi. Tilefni fararinnar er að séra Jón Prímus er talinn vera hættur að sinna embættiserindum og hjúskaparstaða hans heldur óljós. Umbi á að setja saman skýrslu um ferð sína: „Skrifa þurt!“ segir biskup við Umba áður en hann leggur af stað.

Umbi heldur undir Jökul vopnaður segulbandi en skýrslugerðin verður snúnari eftir því sem á líður enda fer Umbi að efast mjög um rökræn tök sín á þeim heimi sem hann er staddur í. Hann flækist inn í veröldina undir Jökli sem kannski er ekki það versta heldur óvissan um eðli þess veruleika sem hann flækist í.

Nokkuð hefur verið deilt um það hver sé aðalpersóna sögunnar. Er það Jón Prímus? sem er tilefni fararinnar og segir t.d.: „Sá sem ekki lifir í skáldskap lifir ekki af hér á jörðinni.“ Er það vopnabraskarinn Godman Sýngmann? sá mikli örlagavaldur í sögunni er segir á einum stað: „Lýrik er viðbjóðslegasta rugl sem til er á jörðinni að guðfræði ekki undanskilinni.“ Er Úa kannski aðalpersónan? Konan, sem dregur Umba á tálar og skilur hann eftir ráðvilltan í þokunni, er hvorttveggja í senn dýrlingur og gleðikona, og hefur bæði verið túlkuð sem hin eilífa kvenmynd eða táknmynd lífsins. Eða er Umbi aðalpersóna verksins – sá sem þarf að velja á milli mannúðarstefnu og friðar Jóns Prímusar annars vegar og andstæðu þessa sem holdgerist í Godman Sýngmann? Sagan býður upp á alla þessa túlkunarmöguleika eða jafnvel engan af þeim því að það má líka segja að sagan leysi upp tvíhyggju á borð við það að þurfa að velja á milli tveggja kosta. Og það sem meira er: Er Umbi kannski Plús Ex, sá sem fyrr var nefndur?

Kallast á við Vefarann

Ástráður Eysteinsson segir í fyrrnefndum fyrirlestri að erfitt sé að henda reiður á helstu persónum sögunnar, í þeim birtist ákveðið ósamræmi sem valdi því að ekki sé heiglum hent að höndla þær. Sögumaðurinn Umbi er þessu marki brenndur, segir Ástráður. Hann vitnar til orða fólksins undir Jökli um að Umbi sé ekki aðeins fulltrúi biskups heldur nefnir það hann hreinlega biskup og það sem hann sé sjálfur, ungur og nettur maður. „Hann er biskupinn plús eitthvað,“ segir Ástráður. „Smám saman gufar biskupinn upp og eftir er „aðeins“ þetta plús eitthvað. Þetta minnir á þann ágæta mann „Plús Ex“.“

Hlutverk þessarar boðflennu er að leiða lesandann inn að miðju frásagnarinnar þannig að merking hennar sé ljós í huga hans. Hlutverk Umba væri þannig samkvæmt þessu að halda í höndina á lesandanum og leiða hann í allan sannleika um „réttan“ skilning á þeim atburðum sem þar er lýst. Eftir því sem Umbi verður ruglaðri í ríminu flækist málið fyrir lesandanum uns þeir standa báðir jafn óvissir um hvað sé satt og hvað logið undir Jökli. „Það er gaman að hlusta á fuglana kvaka. En það væri annað en gaman ef fuglarnir væru einlægt að kvaka satt,“ segir Jón Prímus. Ef þessari túlkun er fylgt tekst Halldóri með Kristnihaldi undir Jökli að snúa á „Plús Ex“; tilraun boðflennunnar til að teyma lesandann inn að miðju frásagnarinnar endar einhvers staðar úti í móa þar sem Umbi andvarpar vondaufur út í þokuna: „Hvar er ég?“. Ástráður segir í fyrirlestri sínum að sagan sé „með skemmtilegustu og athyglisverðustu tilraunum til að úthýsa Plús Ex, eða varpa honum úr því miðlæga öndvegi sem Halldór nefnir. Svona verk eru stundum nefnd margradda eða „pólifónískar“ sögur og greina mætti Kristnihaldið sem afbrigði margröddunar í skáldsagnagerð.“ Hann bætir því síðan við að þetta „plús eitthvað“ í Umba og öðrum persónum sé þá alls ekki Plús Ex heldur tómarúm sem persónan og lesandinn verði að ráða í án leiðsagnar höfundarins.

Þannig kallast sagan á við þá bók Halldórs sem ýmsir telja fyrstu íslensku nútímaskáldsöguna, Vefarann mikla frá Kasmír, sem út kom fjórum áratugum fyrr og einkenndist líka af fjölröddun. Kristnihaldið er margræð saga sem býður upp á ólíkar túlkanir, enda er hér fátt sem sýnist.

Einsog að velta ofan Goðafoss“

Þannig lét Halldór Laxness ekki sitt eftir liggja við að endurnýja skáldsagnaformið þótt kominn væri hátt á sjötugsaldur, heldur slóst í för með sér miklu yngri höfundum við að grafa undan þeirri sagnahefð sem kennd var við hann.

Ritun Kristnihaldsins virðist hafa tekið mjög á skáldið og af bréfum hans frá þessum tíma til Auðar, eiginkonu sinnar, má ráða að hann hafi sjálfur verið efins um gildi bókarinnar. 5. október 1968 skrifar hann henni frá Kaupmannahöfn: „ég er einhvernveginn enn ekki búinn að safna mér saman eftir Kristnihald undir Jökli, það var dálítið einsog að velta ofan Goðafoss.“ Og þann 18. október skrifar Halldór Auði um bókina: „hún ætlaði mig lifandi að drepa.“ Þremur dögum síðar ritar hann henni enn og hefur þá greinilega heyrt af góðum viðtökum bókarinnar á Íslandi. Honum finnst „gaman að ýmsir góðir menn skuli geta kíngt svona bók einsog Kristnihaldinu án þess að hixta til muna. En einginn veit betur en ég sjálfur í hve mörgu bókinni er áfátt; en um það þýðir ekki leingur að tala.“

Náðargáfa snillingsins

Halldór Laxness fékk Silfurhestinn, bókmenntaverðlaun gagnrýnenda á Íslandi, fyrir Kristnihald undir Jökli og dómar voru einkar lofsamlegir. Þráinn Bertelsson sagði í Vísi 7. október 1968: „Það athyglisverðasta við þessa bók er, að með henni sýnir Halldór Laxness, að hann býr yfir þeirri náðargáfu snillingsins að vera síungur. Hann lætur sér ekki nægja að fylgjast með tímanum, heldur verður hann að vera síungur.“ Árni Bergmann sagði viku síðar í Þjóðviljanum: „Veröld bókarinnar, aðalkraftur hennar, nálgast smátt og smátt, það er brugðið upp furðuljósum, dularfullu tali og allskyns brögð höfð í frammi önnur til að skerpa forvitnina og æsa upp spurningar. … Og þetta er blátt áfram skemmtileg bók, sem lengi má tala um frá mörgum hliðum.“ Þess má geta að þegar Kristnihaldið kom út í kilju í Þýskalandi 1997 sagði Der Stern um bókina: „Leyndardómsfull furðufuglasaga sem kemur tárunum til að hlæja.“

Sagan hefur nú verið þýdd á tíu tungumál og komið út í meira en tuttugu útgáfum. Sveinn Einarsson sneri sögunni í leikritsform árið 1970 í samvinnu við skáldið og hlaut verkið nafn hinnar óræðu kvenpersónu sögunnar, Úa. Leikritið var sýnt hjá Leikfélagið Reykjavíkur við fádæma vinsældir. Árið 1989 var síðan frumsýnd bíómynd eftir sögunni sem Guðný, dóttir Halldórs, leikstýrði og hefur myndin fengið góðar viðtökur víða um heim þannig að vantrú skáldsins á Kristnihaldi undir Jökli virðist ekki hafa verið á rökum reist.

Formáli að útgáfu Vöku-Helgafells á Kristnihaldi undir Jökli í kilju árið 1998