Sumarið 1925 sat Íslendingur við skriftir í Taormínu á Sikiley, á einum heitasta stað Evrópu. Hann hafði þrjá um tvítugt. Þrátt fyrir ungan aldur hafði hann þegar sent frá sér tvær skáldsögur og eitt smásagnasafn, auk kvers um kaþólsk viðhorf. Nú var hann kominn suður til Ítalíu og var mikið niðri fyrir. Oft lagði hann nótt við dag, sitjandi við skrifborðið með ekki spjör á kroppnum utan einglyrni og lét pennann skeiða en hélt í hinni hendi á barefli til að verjast skorkvikindum: „það var einsog einhverstaðar stendur í bók, aungu líkara en skáldinu fyndist alt undir því komið að skrifaðir yrðu eins margir bókstafir á blað og kostur væri áður en sólin túnglið og stjörnurnar yrðu útmáð af festíngunni,“ sagði Halldór Laxnes síðar um þennan tíma í lífi sínu er hann ritaði Vefarann mikla frá Kasmír

Hvað lá þessum unga manni svo mjög á hjarta? Hvers vegna léku honum slíkir landmunir á að koma verkinu frá sér? 

Svarið liggur ekki hvað síst í samtíma skáldsins. 

Upplausn í aldarbyrjun 

Fyrstu áratugir 20. aldar einkenndust af miklum umbrotum í menningu og listum á Vesturlöndum og vilja margir ganga svo langt að kalla þau byltingu. Þau náðu yfir samfélagshætti, trú, heimspekilega hugsun, siðferði og bókmenntir. Ýmsir hafa talið að skilin verði við upphaf fyrri heimsstyrjaldar 1914, hún hafi afhjúpað siðmenninguna og manninn um leið, það sem menn höfðu byggt tilgang sinn á og vilja til framtíðar. Gunnar Gunnarsson rithöfundur sagði síðar: „það veit enginn nema sá sem reynt hefur, hversu gjörólíkt viðhorfið var fyrir og eftir 1914.“ Maðurinn átti að vera á braut framfara, vit hans átti að leiða til betra samfélags. Þetta reyndist tálsýn. Enduróm af þessu má einmitt finna í Vefaranum mikla frá Kasmír þar sem Steinn Elliði, aðalpersóna verksins, segir: „Mannvitið er grimmasta aflið undir sólinni, herra minn. Þegar mannvitið fer á stúfana mokar það múgnum líkt og steypujárni niðrí geysilegar ámur og kyndir rækilega undir; síðan smíðar það úr honum eggbitur vopn og brýnir ný heldur duglega, herra minn, því ekki verður látum lint fyren blóðið drýpur úr strjúpanum á síðasta óvini mannkynsins.“ 

Aðrir benda hins vegar á að tímabilið frá 1890 og fram að fyrri heimsstyrjöld hafi einkennst af umbyltingu á flestum sviðum. Í málaralist komu fram nýjungar með mönnum á borð við Picasso og Matisse. Fyrir stríð sköpuðu Stravinsky, Debussy, Ravel, Schönberg, Alban Berg og fleiri nýtt tónmál. Í bókmenntum umturnaði flokkur rithöfunda sígildum formum, Einstein setti fram afstæðiskenningu sína og fleira mætti nefna. 

Á Íslandi urðu líka umbrot. Í upphafi aldarinnar varð til nýtt hagkerfi hér á landi, fjölþættara og opnara en áður. Gamlar og nýjar lífsvenjur tóku að rekast á. Menn fóru að draga í efa ýmsa lagabálka sem áður höfðu stýrt hugsun manna, ekki síst í trúmálum. Prestar höfðu ekki aðeins verið andlegir leiðtogar heldur veraldlegir valdsmenn, fulltrúar ríkis og réttar. Þeir höfðu vald yfir sannleikanum. Með þéttbýlismyndun og sjálfstæðri menntastétt misstu þeir tökin á skoðanamyndun fólks. Ráðist var að viðtektum með þeim hætti að engu var líkara en fólki væri kastað inn í nýjan veruleika. Þessi umbrot leituðust ýmsir við að túlka í verkum sínum. Nokkrir rithöfundar reyndu að orða brjálsemi tímans og finna manneskjunni stað að nýju en án árangurs. Annars einkenndust árin eftir fyrra stríð af þjóðernishyggju sem varð í sumum tilvikum að sterkri einangrunarstefnu. Áhugi á innlendum menningararfi var afar áberandi og afstaða til nýsköpunarmanna í listum að sama skapi neikvæð. Tilraunum listamanna til að tjá öngþveiti tímans var því ekki alltaf tekið opnum örmum. 

Upp úr þessu andrúmslofti sprettur Vefarinn mikli frá Kasmír. Í honum er leitast við að tjá öngþveiti líðandi stundar – höfundur glímir þar af einurð við samtíma sinn.  

 Dagar hjá múnkum 

Á þessum árum leituðu menn sér athvarfs í ýmsum hugmyndastefnum og straumum, m.a. í trúarkenningum. Þar töldu þeir sig fá fótfestu. Þegar Halldór Laxness stóð á tvítugu, í byrjun desember 1922, gekk hann í klaustrið Saint Maurice de Clervaux í Lúxemborg og tók upp dýrlingsnafnið Kiljan. Hvað var það sem ungur rithöfundur af norðurhjara hugðist sækja í niðurlenskt klaustur? „Mig fýsti að vita meira um þá einkennilegu kirkju sem ótal pokaprestar á Norðurlöndum höfðu ekki gert annað en fussa og sveia í mín eyru. Ég var haldinn óseðjandi laungun til að kynnast þeim trúarbrögðum sem plattþýskir danakóngar myrtu íslendínga útaf og nefnt var siðbót,“ sagði Halldór síðar í bók sinni Dagar hjá múnkum en þar er prentuð dagbók hans frá klausturtímanum.  

Eftir tæplega ársvist í klaustrinu, 4. október 1923, gerðist hann „oblatus secularis“ en það er eitt afbrigði munkdóms. Þeir sem taka slíka vígslu skuldbinda sig til að lifa í anda kaþólskrar trúar og á þessum tíma skrifar hann til vinar síns, Jóns Helgasonar í Kaupmannahöfn, að haustið eftir ætli hann að láta loka sig inni til sex ára suður í Róm. Hann er staðráðinn í að gerast jesúítískur klerkur. Halldór virðist hafa fundið sér skjól í kaþólskunni í umbrotum samtímans. Haustið 1923 er hann kominn í skóla í Englandi hjá kristmunkum þar sem hann byrjar að skrifa bókina Heiman eg fór en hún „varð eitt skrefanna í átt til Vefarans mikla,“ sagði Halldór síðar. Í lok janúar 1924 hefur hann sagt skilið við skólann og heldur heim á leið en hann átti eftir að dvelja aftur í klaustrinu þegar hann var á leiðinni til Íslands frá Sikiley með Vefarann mikla í farteskinu. „Fyrri klausturvist mín í Clervaux setti mark sitt á þessa skáldsögu, lagði grunn að vangaveltum mínum um hið kristna guðshugtak. Vera mín í klaustrinu hið síðara sinn varð enn til að skýra línur. Bókin var að sönnu fyrsta svar mitt við himnahugmyndunum; niðurstaða djúpra þeinkínga var efahyggja … Ég hafði með vissum hætti skrifað mig frá trúarbrögðunum í Vefaranum og óbeint lokað klausturportunum að baki mér á meðan ég sat með einglyrni í hitasvækju suður á Sikiley,“ segir Halldór í Dögum hjá múnkum

 Maður í lífsskoðunarkreppu 

Á þriðja áratugnum skrifaði Halldór Laxness fjölda greina í íslensk blöð. Hann lá ekki á skoðunum sínum þar um íslenskt þjóðfélag og menningu. Þar tekur hann afstöðu með evrópskri borgarmenningu gegn íslenskri sveitamenningu. Í einni af greinunum sem síðar voru prentaðar í Af menníngarástandi segir hann: „Sú tíð er liðin að bóndinn sé burðarstoð íslenskrar menníngar. … Nú á dögum hvílir íslensk menníng á herðum mentaðra vitsmunamanna, vísindamanna og snillínga til orðs, myndar og tóns. Fjasið um dásemdir bændamenníngar á vorum dögum er ekki annað en samviskulaust pólitískt skjall.“ Svipaða skoðun er að finna hjá Steini Elliða í Vefaranum mikla en þar segir hann um Íslendinga: „Hvaða erindi á ég framar meðal þessarar sveitamannaþjóðar, innanum ruddalega búra og auðsjúka útvegsbændur, í þessu landi alþýðuspekinnar, þar sem fánasveit menníngarinnar er skipuð flökkurum, ömmum, spákellíngum og uppgjafahreppstjórum.“ Halldór kemur í greinum þessum fram sem boðberi nútímamenningar, vill að þjóðin kynnist henni án tafar með kostum og göllum. Í skrifum þessum lýsir hann einnig nútímamanninum og um hann segir skáldið: „Nútímamaðurinn hefur hundraðogfimtíu lífskoðanir en eingin þeirra er hans eigin. Hans eigin lífskoðun er hin eina sem hann ekki hefur.“ Þessi greinaskrif Halldórs Kiljans Laxness vöktu mikla ólgu og margir urðu til að andmæla þeim. 

Oft er fróðlegt að lesa það sem Halldór Laxness ritar um eigin verk. Hann er óhræddur við að fjalla um þau, enda hefur hann ævinlega litið á sjálfan sig í fortíðinni eins og allt annan mann, talar jafnvel um sjálfan sig í þriðju persónu. Hann skilur á milli sín í nútíð og þátíð. Þessu lýsir hann skemmtilega í grein sem hann skrifaði að tilhlutan danska blaðsins Politiken þegar Vefarinn mikli kom út þar í landi 1975. Hann segir að það þurfi enga smáræðis sjálfumgleði til að skrifa ritdóm um sjálfan sig en vitnar síðan til þeirrar kenningar er segir að frumur mannslíkamans endurnýist á sjö árum „þannig að maður fær nýan líkama og vonandi einnig nýa sál 7unda hvert ár. Samkvæmt þessum vísindum ætti mér að vera óhætt að fullyrða að ég er sjöundi maður frá þeim höfundi sem ég hef þann heiður að ritdæma núna.“ Og í tilviki Halldórs er það ekki fjarri lagi því að hann hefur verið óhræddur við að endurnýja afstöðu sína til mála á löngum ferli en litið á orð sín og gjörðir í fortíð sem fróðlegan part af sjálfum sér. Í grein þessari í Politiken skrifar Halldór um Vefarann mikla að sagan sé í grundvallaratriðum raunsæisskáldsaga „en ris hennar mynda sálarlýsingar manns sem hrjáður er lífskoðunarkreppu.“ Hann er með öðrum orðum að fjalla um nútímamanninn í þessari bók, manninn sem misst hafði fótanna í heiminum á fyrstu áratugum 20. aldarinnar og leitar að fótfestu í nýjum heimi, – nýjum gildum, nýjum sannleika.  

Nútímamaðurinn 

Nútímamaðurinn var Halldóri á þessum tíma hvort tveggja í senn lausnarorð og heróp, eins og Peter Hallberg hefur bent á. Hann lætur Stein lýsa sér fyrir skriftaföður sínum sem nútímamanni sem leystur er úr véböndum erfðavenjunnar og er að vissu leyti sköpunarverk fyrri heimsstyrjaldar: „Ég er lifandi líkamníng þeirrar manntegundar sem séð hefur dagsins ljós síðustu tíu, tólf árin, en aldrei var áður til: íslenskur vesturevrópumaður af anda þeirrar tíðar sem sett hefur mannkynssöguna í gapastokkinn, hugsun mín er frjáls einsog hjá manni sem hefði rignt úr stjörnunum í ágúst árið 1914 og lifað síðan lífi sínu á heimsfréttastofum og ritstjórnarskrifstofum. Skáld vaxið úr óslitinni erfðamenníngu allar götur aftanúr forngrísku á ekki meira sammerkt við mig en burknauppgrafníngur frá fornöld jarðsögunnar.“ Önnur ummæli í sögunni stefna síðan í þveröfuga átt í sögunni. 

Um hvað er síðan þetta mikla verk? 

Vefarinn mikli frá Kasmír segir frá Steini Elliða, sem er á 19. ári þegar sagan hefst, og greinir frá nokkrum árum í lífi hans. Þetta virðist við fyrstu sýn vera hefðbundin þroskasaga en þegar betur er að gáð sprengir hún af sér þann ramma. Steinn Elliði flögrar milli lífsskoðana og má segja að hann velkist milli þriggja meginstefna: „Vitríngurinn á um þrent að velja. Hann getur valið um hvort hann vill lifa sjálfum sér, guði eða mönnum. “ Í Vefaranum mikla eru þessir þrír kostir í meginatriðum kaþólska, sameignarstefnan eða kommúnismi og ofurmennishugsjón Friedrichs Nietzsche. Kaþólskur maður lifir guði, sameignarsinni lifir mönnum en sá sem fylgir ofurmennishugsjóninni lifir sjálfum sér. Nietzsche lýsti því yfir að guð væri dauður, maðurinn hefði drepið hann með hugsun sinni. Hann sagði að tilfinningin fyrir jarðlífinu yrði ríkari ef öllum hugmyndum um æðri veruleika væri hafnað. Hann taldi að lýðræði og kenningar kristninnar um náungakærleika og samúð væri þrælasiðferði sem hefti innsta eðli mannsins. Hið nýja siðferði, herrasiðferðið, átti að byggjast á eðlislægum vilja mannsins til valda og geta af sér ofurmenni sem risi af lífsþrótti upp úr meðalmennskunni.  

Lífsskoðanir Steins og afstaða hans breytast í sífellu, eða eins og Matthías Viðar Sæmundsson segir í bók sinni Myndir á sandi: „Rökræður hans eru öðru fremur samtöl hans við sjálfan sig, staðhæfingar sem afneitað er jafnóðum. Það er eins og margir menn tali í Steini Elliða, hver þeirra með sitt sjónarmið, sitt andlit.“ Steinn hefur með öðrum orðum „hundraðogfimtíu lífskoðanir en eingin þeirra er hans eigin,“ eins og Halldór sagði í grein frá þessum tíma um nútímamanninn og fyrr var vitnað til. Í skáldsögum 19. aldar hafði söguhöfundurinn ráðið yfir sögu sinni en það endurspeglaði heildstæða heimsmynd. Í Vefaranum mikla reynir Halldór hins vegar ekki að samræma raddirnar sem birtast í sögunni, í honum er engin ritstýring í þágu ákveðins boðskapar. Sagan birtir margar lífsskoðanir og þær eru allar jafn réttháar. Í Vefaranum er vitnað til margra höfunda sem höfðu mikil áhrif á þessum tíma. Þar má nefna rithöfundana August Strindberg og Ítalann Giovanni Papini og austurríska hugsuðinn Ottó Weininger. Eins og Halldór Guðmundsson rekur í bók sinni „Loksins, loksins“ urðu þeir einna fyrstir til að segja skilið við samfélagsleg og söguleg viðmið raunsæis og natúralisma: „Í stað þess að skrifa um samskipti manna og samlíf, einbeita þeir sér að sjálfsvitun einstaklingsins, kanna afstöðu sjálfsins til umheimsins.“ Í þessu samhengi vitnar Halldór Guðmundsson til orða Papinis frá árinu 1912 sem sagði: „Alheimurinn skiptist í tvennt: Mig – og afganginn.“ 

Hinn mikli fjöldi hugmynda og viðhorfa sem fram kemur í Vefaranum mikla frá Kasmír er notaður til að varpa ljósi á andstæðufullt eðli Steins, á þau vandamál sem stríða á huga hans. Umræðan, þrætubókarlistin, virðist aðalatriðið. Þannig er sagan fjölradda verk og höfundurinn ber enga ábyrgð á öllum þeim aragrúa skoðana sem í sögunni birtast.  

Taktu af þér grímuna, Steinn 

Steinn Elliði kastast öfga á milli og er engin leið að festa hendur á skoðunum hans. Í meginatriðum er hann klofinn milli þess guðlega og jarðneska, andlega og líkamlega; í honum togast á andstæður sem virðast ósættanlegar því að það sem sál hans girnist brýtur í bága við það sem holdið heimtar.

Þessir andstæðu pólar tákngerast í guði og konunni: „Konan er nefnilega hvorki meira né minna en hættulegasti meðbiðill guðs og keppinautur þar sem sál mannsins er í tafli,“ segir Steinn á einum stað. Eini verðugi „keppinautur“ guðs um sál hans er Diljá, stúlkan sem elskar hann og hann er ástfanginn af, þ.e.a.s. þegar hún er ekki ímynd freistarans djöfullega: „Alt í lífi mínu er lygi, Diljá, guð og djöfullinn, himinn og helvíti, alt lygi nema þú.“ Segja má að Diljá sé fulltrúi skynseminnar, jarðsamband Steins, „persónugervíng hinnar frjóu moldar“ eins og segir í Vefaranum mikla.

Diljá afhjúpar hann og vaðal hans með einföldum spurningum, sér í gegnum hann og biður hann á einum stað að taka af sér grímuna og á þar við að Steinn skýli sér stöðugt bak við kenningar, orð, sem séu ekki hann sjálfur heldur gríma sem forði honum frá því að horfast í augu við lífið. Undir lok verksins, þegar kapphlaup guðs og Diljár um sál Steins nær hámarki eru hugrenningar hennar birtar þar sem hún segir:

Hvað hann er heilagur og ógurlegur í kirkju sinni, þessi guð! Kirkja hans ei máttugri en lögmál náttúrunnar og kallar til sín mannssálir að austan og vestan, norðan og sunnan, kallar þær úr öllum höfuðáttum til þess að rísa gegn eðli hins skapaða og hefja sig úr duftinu uppávið til eilífðarinnar. Jesús Kristur er skríngilegur harðstjóri: óvinir hans krossfestu hann, og hann krossfestir vini sína í staðinn. Kirkjan er ríki krossfestra. Hvað máttu ástir vesallar skapaðrar konu gegn hinni heilögu kirkju Jesú Krists, sem er máttugri en sköpunarverkið?

Steinn Elliði er ekki aðeins einstaklingur heldur hefur hann miklu víðtækari skírskotun, hann er tákngervingur nýrra tíma. Glíma hans við hinstu rök tilverunnar, þegar yfirvofandi er að sólin, tunglið og stjörnurnar verði útmáð af festingunni, er ekkert einsdæmi, Steinn á sér marga „bræður“, meðal þeirra er höfundurinn sjálfur, enda þótt niðurstöður þeirra geti verið aðrar en hans. Sagan er í ríkum mæli sjálfskönnun og er fróðlegt að bera saman Halldór Kiljan Laxness og Stein Elliða, skoðanir þeirra á klausturvist og kristindómi, stjórnmálum og kvenfólki, en um skoðanir skáldsins á þessum tíma má meðal annars lesa í Af menníngarástandi sem fyrr var vitnað til.

Halldór lýsti hins vegar niðurstöðum Vefarans mikla svo í Alþýðubókinni árið 1929, tveimur árum eftir útkomu hans: „„Vefarinn mikli“ er ekki sorgarleikur einnar mannssálar, heldur verða menníngarskil þar sem tjaldið er dregið niður í „Vefaranum“. Þaðan í frá eru ekki annars úrkostir en hefja nýan leik, – á nýrri jörð, undir nýum himni. Lausn „Vefarans“ gefur einga von. Frumhugsun kristindómsins er með öllu ósamrýmanleg frumhugsun jarðnesks lífs, – það er upphaf og endir „Vefarans“. Sé guð alt og maðurinn blekkíng ein og hégómi, þá liggur í augum uppi að manninum er best að halla sér útaf og deya, svo að guð geti verið alt í friði.“ Með þeim orðum má segja að Halldór hafi kvatt hina kaþólsku trú, „þó án þess að afneita grundvallarhugmynd kirkjunnar“, eins og hann sagði hálfri öld síðar í minningabók sinni Úngur eg var. Nú hafði hann snúist til sameignarstefnu, sósíalisma, sem hann tók að boða af engu minni ákafa en trúna áður.  

Dauðir menn á nærbuxum 

Vefarinn mikli frá Kasmír er fjölbreytt verk. „Finna má í bókinni ritgerðir sem nálgast heimspeki, ennfremur fjórar smásögur … nokkrar barnasögur, ljóðmæli, þýðíngartilraunir á bundnu og óbundnu máli, kristilega dulspeki í bænabókarstíl löguðum eftir Imitasjóninni, drög í hómilíustíl og heilagra manna sögu, auk nokkurra fleiri bókmentalegra æfínga,“ sagði Halldór Laxness í eftirmála að 2. útgáfu verksins. Þá skýtur súrrealismi upp kollinum „þegar væminn hátíðleiki hótar að taka völdin,“ eins og hann segir á öðrum stað.

Þetta var nýjung í íslenskum bókmenntum enda þessi bókmenntastefna þá nýkomin fram. Einnig má segja að beiting tungumálsins í sögunni sé nýstárleg þar sem hann kemur með óvæntar líkingar í ætt við „karnivalisma“, sem svo er nefndur, eins og Halldór Guðmundsson hefur bent á í bók sinni „Loksins, loksins“. Þá er lesandinn rifinn úr hátíðlegum einræðum Steins með óvæntum tengingum upphafinna þátta og ómerkilegra, himneskra og jarðneskra. Ágætt dæmi um það er dómsdagssýn Steins Elliða þar sem segir: „Dagur reiðinnar var risinn. Sólin myrkvaðist og björgin klofnuðu, en útúr þeim hlupu dauðir menn á nærbuxunum og vissu ekki sitt rjúkandi ráð. Og Steini þótti musterisfortjaldið rifna ofanfrá og niðrúr.“

Hér dregur Halldór upp mikilfenglega mynd af heimsendi, þegar guð hefur unnið endanlegan sigur yfir öllu illu og heldur dóm yfir mönnum, en skáldið getur svo ekki stillt sig um að rífa hátíðleikann niður með ráðvilltum mönnum sem vaktir eru upp svo þeir hlaupa um á nærbrókum einum fata.

Annað dæmi um svipuð stílbrögð eru: „Fyrsti spóinn vall í útsuðri einsog úngur drykkjumaður sem ekki verður svefnsamt. Annars voru fuglar ekki komnir á stjá. Tvær sauðkindur, ráðsettar og heiðarlegar einsog aldraðar húsmæður, fetuðu í hægðum sínum eftir mjórri fjárgötu skamt burtu, gaungulagið settlegt og merkilegt; þær voru að hugsa.“ Þarna er ólíkum sviðum slegið saman svo úr verður kostuleg mynd og lesandinn sér bæði spóa og sauðkindur í nýju ljósi! Nokkrum árum fyrr hafði Þórbergur Þórðarson beitt viðlíka aðferðum í Bréfi til Láru en þarna heldur Halldór áfram því uppgjöri við íslenskar lausamálsbókmenntir sem þá hófst. 

Loksins, loksins 

Halldór Kiljan Laxness sneri aftur til Íslands á vordögum 1926. Óhætt er að segja að vel hafi verið fylgst með skáldinu unga því að í Morgunblaðinu segir 29. apríl að skáldið sé komið heim með handritið að Vefaranum mikla frá Kasmír: „Nú hafa bæjarbúar séð Kiljan hér á götunum, langan og grannan, með gleraugun miklu og hattinn barðastóra þar sem hann stikar löngum skrefum, tærður af rýni í regindjúp mannlegrar tilveru og umfaðmandi og umlykjandi öll hin nýjustu form í skáldlist.“ Ekki dugði þessi fjálglega lýsing blaðsins til að afla höfundinum útgefanda að bókinni. „Ég held Vefarinn hafi verið boðinn öllum íslenskum útgefendum sem öndin blakti í, en einginn vildi leggja nafn sitt við svo lélega bók; þeir töldu líka óhugsandi að nokkur maður vildi kaupa þetta.“ Halldór gaf bókina út sjálfur ári síðar fyrir eigin reikning „og leigði götustráka og sérvitrínga til að selja hana í heftum við húsdyr fólks. Þetta framtak gaf svo góða raun að ég fór til Amriku fyrir ágóðann og dvaldist þar hátt á þriðja ár,“ sagði skáldið síðar. 

Útgáfan vakti misjöfn viðbrögð. Sumir fundu verkinu flest til foráttu, enda sagan harla óvenjuleg á þeim tíma. Ritdómur Guðmundar Finnbogasonar landsbókavarðar í tímaritinu Vöku birtist hér í heild en þar sagði um Vefarann mikla frá Kasmír: „Vélstrokkað tilberasmjör“. Með orðinu „tilberasmjör“ gefur hann í skyn að bókin sé af annarlegum og vafasömum uppruna og með viðbótinni „vélstrokkað“ er hún afgreidd sem tískufyrirbæri, fjöldaframleiðsla eftir lögmáli færibandsins. Öllu frægari er hins vegar ritdómur Kristjáns Albertssonar í sama tímariti en hann var áhrifamikill í menningarumræðunni á þriðja áratugnum á Íslandi: „Loksins, loksins tilkomumikið skáldverk, sem rís eins og hamraborg upp úr flatneskju íslenskrar ljóða- og sagnagerðar síðustu ára! Ísland hefur eignast nýtt stórskáld – það er blátt áfram skylda vor að viðurkenna það með fögnuði.“ Sænski bókmenntafræðingurinn Peter Hallberg sem mikið rannsakaði verk Halldórs Laxness sagði síðan í bók sinni um æskuverk hans: „Vafamál er, hvort nokkru sinni hafi komið út bók á Norðurlöndum, sem gefi jafn sterka og fjölskrúðuga lýsingu á hugsunarhætti eftirstríðsáranna og Vefarinn mikli.“ 

Ýmsir telja að með Vefaranum mikla frá Kasmír hefjist nútíminn í íslenskri sagnagerð. Vissulega má færa gild rök fyrir því þar sem verkið er að sönnu nútímalegt og á sinni tíð á skjön við flest er ritað hafði verið á íslenska tungu. Ekki varð hins vegar framhald á þessari þróun. Íslenskir lesendur þurftu að bíða í nokkra áratugi eftir frekari „módernisma“ í íslenskri skáldsagnagerð. Framúrstefnuskeiði Halldórs Laxness var að ljúka – í bili. Hann sneri sér að því að skrifa stór og mikil raunsæisverk á borð við Sölku Völku, Sjálfstætt fólk og Heimsljós. Með því endurnýjaði hann íslenska frásagnarlist sem færði honum Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1955. Á sjöunda áratugnum tóku íslenskir rithöfundar síðan fyrir alvöru að glíma við að sprengja hið hefðbundna skáldsöguform og lét Halldór Laxness þá ekki á sér standa. 1968, fjórum áratugum eftir að hann sendi Vefarann mikla frá sér, skrifaði hann Kristnihald undir Jökli þar sem hann tók að nokkru leyti upp þráðinn þar sem frá var horfið í þessu tímamótaverki. 

Eftir að Halldór Kiljan Laxness var kominn heim með Vefarann mikla frá Kasmír tók hann að sættast við land sitt og þjóð eins og ljóðið Hallormsstaðaskógur 26. ágúst 1926 sýnir. Þar talar skáldið um sjálfan sig sem „hann sem fór áður vegarvilt í borgum“, „sem var áður afglapinn á torgum“ en er nú „orðinn skáld í Hallormsstaðaskóg“: 

„Héðan í frá er fortíð mín í ösku 

og framtíð mín er norðurhvelsins ljóð. 

Líkt og hjá pósti lokuð bréf í tösku 

lít ég guðs forsjón – eða heljarslóð. 

Bros mitt er ljúft sem brennivín á flösku. 

Ég býð þér dús, mín elskulega þjóð.“ 

Formáli að útgáfu Vöku-Helgafells á Vefaranum mikla frá Kasmír árið 1996