Mér geingur ágætlega með nýu bókina. Ég hef góða von um hana, – stundum. – Eins og þú veist, – svo verð ég örvæntíngarfullur á milli. … [Efnið] er víða afskaplega erfitt og knúsað, og ég er dag út og dag inn í óslitinni spenníngu út af hvernig því muni reiða af, karaktérarnir taka með hverjum degi á sig stórfeinglegri dimensionir … Og ef seinna bindið heppnast, þá er ég made, þá er ég búinn að skrifa skáldsögu í heimsformat. … [Það] eru alveg ógurleg verk, sem eru framundan mér. Og ég skal verða stór rithöfundur á heimsmælikvarða eða drepast! Hér er ekkert pardon og ekkert sem heitir að gefa eftir um hársbreidd. Ég skal – eða drepast!
Svo fórust Halldóri Laxness orð í bréfum til Ingibjargar Einarsdóttur, konu sinnar, í apríl og maí 1931 frá Leipzig í Þýskalandi. Ári áður hafði fyrri hluti Sölku Völku, Þú vínviður hreini, komið út og nú vann hann að síðari hluta hennar, Fuglinum í fjörunni. Ljóst er af þessum brotum að skáldinu er mikið fyrir. Hann horfir vígreifur til framtíðarinnar enda eru næstu stórvirki þegar farin að leita á huga hans. Halldór veit greinilega hvers hann er megnugur en enn hefur hann ekki náð að brjóta ísinn erlendis og fá þar útgefna bók eftir sig.
Afkastamikill höfundur
Halldór Laxness fæddist í Reykjavík 23. apríl 1902 og hafði því ekki náð þrjátíu ára aldri þegar fyrri hluti Sölku Völku kom út – þó átti hann fjölbreyttan feril að baki. Hann hafði gefið út þrjár skáldsögur, eitt smásagnasafn, ljóðabók, lítið kver um kaþólsk viðhorf og ritgerðasafn, auk þess að skrifa fjölmargar greinar í blöð. Rit þessi eru ákaflega ólík.
Fyrstu skáldsögur Halldórs Laxness, Barn náttúrunnar (1919) og Undir Helgahnúk (1924) eru sveitasögur í gömlum stíl og mætti kalla þær æskuverk. Þá tók við framúrstefnuskeið og árið 1927 sendi hann frá sér Vefarann mikla frá Kasmír. Þar tekst Halldór af einurð á við samtíma sinn, bókin sýnir sundraða heimsmynd þar sem jafnvægi og stöðugleiki eru fáránleiki. Í skáldsögum 19. aldar hafði söguhöfundurinn ritstýrt efni sínu í þágu ákveðins boðskapar en í Vefaranum reynir Halldór ekki að samræma raddirnar sem hljóma í sögunni. Hún birtir margar lífsskoðanir og eru allar jafngildar. Þannig er sagan fjölradda verk. Vefarinn vakti misjöfn viðbrögð á Íslandi en frægust eru ummæli Kristjáns Albertssonar sem sagði: „Loksins, loksins tilkomumikið skáldverk, sem rís eins og hamraborg upp úr flatneskju íslenskrar ljóða- og sagnagerðar síðustu ára! Ísland hefur eignast nýtt stórskáld – það er blátt áfram skylda vor að viðurkenna það með fögnuði.“ Ýmsir telja að Vefarinn mikil frá Kasmír marki upphaf íslenskra nútímabókmennta en næstu skáldsögur Halldórs voru hins vegar gjörólíkar þessu tímamótaverki.
Soltnir atvinnuleysingjar
Halldór Laxness skírðist til kaþólskrar trúar 6. janúar árið 1923 en þann dag kallaði hann í bréfi til móður sinnar „hinn helgasta og hátíðlegasta“ í lífi sínu. Halldór dvaldi um skeið í klaustri en það var engin endastöð. Niðurstaða Vefarans mikla frá Kasmír hafði verið sú að aðalpersóna hennar, Steinn Elliði – sem bar mörg einkenni höfundarins – gekk í klaustur, hann hafnaði konunni sem hann elskaði fyrir guð, gaf sig guðdóminum á vald en síðar sagði skáldið um bókina: „Lausn „Vefarans“ gefur einga von. Frumhugsun kristindómsins er með öllu ósamrýmanleg frumhugsun jarðnesks lífs, – það er upphaf og endir „Vefarans“. Sé guð alt og maðurinn blekkíng ein og hégómi, þá liggur í augum uppi að manninum er best að halla sér útaf og deya, svo að guð geti verið alt í friði.“ Halldór hafði skrifað sig frá trúarbrögðunum með Vefaranum mikla frá Kasmír.
Halldór Kiljan Laxness hélt vestur um haf vorið 1927 og dvaldist í Bandaríkjunum til októberloka 1929. Þar áttu eftir að verða miklar breytingar á lífsskoðunum hans. Tilvitnunin um lausn Vefarans er tekin úr Alþýðubókinni, ritgerðasafni sem Halldór sendi frá sér eftir heimkomuna frá Bandaríkjunum árið 1930. Bókin er skrifuð í Los Angeles frá júlí 1928 og fram í janúar 1929 og kveður þar heldur betur við annan tón en í Vefaranum mikla. Þar boðar Halldór nýja tíma, nýja menningu. Lokaorð Alþýðubókarinnar eru: „Maðurinn er fagnaðarboðskapur hinnar nýu menníngar, maðurinn sem hin fullkomnasta líffræðileg tegund, maðurinn sem félagsleg einíng, maðurinn sem lífstákn og hugsjón, hinn eini sanni maður, – Þú. Þessvegna skaltu ekki leggja trúnað á það sem sagt er í kristilegum bókum, að þegar lítilmagninn er fótum troðinn þá sé verið að beita bræður þína ránglæti; nei, það er alvarlegra en svo: það ert þú. Þar sem börn öreigans eru mergsogin til ágóða fyrir varga auðvaldsins, – þar er verið að traðka sjálfan sig niður í sorpið, hinn eina sanna mann, hina æðstu opinberun lífsins, Þig.“ Nú er guð ekki „alt“ og „maðurinn blekkíng“ heldur hefur þessu verið snúið við: maðurinn er nú kominn í forsæti ásamt samúð með þeim sem minna mega sín – öreigum allra landa. Halldór Kiljan Laxness sem áður hafði aðhyllst kaþólska trú var nú farinn að boða sameignarstefnuna – sósíalisma. Hann hafði með öðrum orðum gerst sósíalisti í Bandaríkjunum sem margir kalla höfuðvígi kapítalismans.
Í formála að annarri útgáfu Alþýðubókarinnar árið 1947 sagði Halldór um þessi umskipti: „Þegar ég fór til Ameríku 1927 eftir að hafa gefið út Vefarann mikla frá Kasmír var ég að vísu ekki sósíalisti; en þá voru þáttaskil í ævi minni. Þegar ég kom aftur heim þaðan um áramótin 1930 var ég sósíalisti. Ég skil ekki hvernig nokkur maður með venjulega meðalgreind getur kynt sér hið öfgafulla bandaríska þjóðfélag af sjálfsjón öðruvísi en verða sósíalisti. … Það er athyglisvert að ég varð ekki sósíalisti í Ameríku af lestri sósíalistískra fræðirita, heldur af því að virða fyrir mér soltna atvinnuleysíngja í skemtigörðum.“
Kvikmynd um stúlku í buxum
Rétt áður en Halldór sté á skipsfjöl í Reykjavík og hélt til Bandaríkjanna vorið 1927 hitti hann mann málkunnugan sér sem hafði dvalið í landinu í vestri. „Hann spurði mig hvert ég væri að fara,“ skrifaði hann síðar í Skáldatíma. „Ég sagðist ætla til Ameríku í tvö ár. Þegar hann hélt áfram að spyrja mun ég hafa bætt því við að nú hefði ég séð svo marga miðdepla alheimsins að röðin væri komin að Hollywood.“ Og 20. júlí 1927 skrifaði skáldið vini sínum og velgjörðarmanni, Erlendi Guðmundssyni í Unuhúsi: „Ég fann hjá mér alveg óstjórnlega köllun til að fara til Hollywood og semja tíu kvikmyndir. Ég er sannfærður um að ekkert liggur eins fyrir mér eins og kvikmyndin. Ég hef ekki auga fyrir neinu eins og því kvikmyndalega.“ Hann lét ekki sitja við orðin tóm. Halldór komst í kynni við frammámenn í draumasmiðjunni og vann þar að tveimur kvikmyndahandritum á árunum 1927 til 1928. Annað gekk undir vinnuheitinu Kari Karan en hitt verkefnið var A woman in pants. 23. júní 1928 gat skáldið tilkynnt Ragnari Kvaran vini sínum í bréfi að handritið um stúlku í buxum hefði vakið athygli hjá Metro-Goldwyn-Mayer-samsteypunni. Samningaviðræður voru hafnar við höfundinn og spurst fyrir um sumarveðráttu á Íslandi. Rætt var um að senda leikflokk til Íslands eftir þrjár vikur og voru menn tilbúnir til að leggja allt að 50.000 dollurum í verkið.
Áform um að festa handrit Laxness um stúlkuna á filmu runnu þó út í sandinn og mun það einkum hafa stafað af því að hinn þekkti kvikmyndaleikstjóri, Paul Bern, sem hafði verið lífið og sálin í þessari fyrirætlun framdi sjálfsmorð. Síðar varð þessi saga að skáldsögunni Sölku Völku sem mátti bíða í nokkra áratugi eftir að vera varpað á hvíta tjaldið.
Eftir þetta má segja að Halldór hafi orðið afhuga kvikmyndum. Áður en áætlanir um kvikmyndun Sölku Völku urðu að engu hafði hann raunar lýst efasemdum sínum um þetta listform í bréfi til Einars Ólafs Sveinssonar en þar sagði hann: „Að fara inn í kvikmynd er að fara inn í stóriðju … og ég er hræddur við það í aðra röndina og vafasamt að maður, sem lært hefur að setja fram hugsanir með jafnfullkomnu tæki og penna, geti nokkurntíma sætt sig við að nota til þess cameru og áþreifanlegar persónur skælandiskar í focus.“
Enginn ríkur á því að vinna
Halldór Laxness hélt heim til Íslands undir jól 1929. Rúmu ári síðar, í mars 1931, var fyrri hluti Sölku Völku kominn í verslanir. „Ég byrjaði að skrifa hana, er ég kom úr utanför minni frá Ameríku,“ sagði hann í viðtali við Alþýðublaðið eftir útgáfu hennar, „en ég fann alt af annmarka á handritinu, er ég var kominn langt á veg, og reif það. Síðast liðið sumar dvaldi ég á Austfjörðum og Vestfjörðum. Þar tókst mér að lifa mig inn í efnið. – Ég skrifaði söguna í núverandi formi á tímabilinu frá septemberbyrjun til miðs desember s.l.“ Á þrítugsafmæli hans, 23. apríl 1932, kom síðari hlutinn út. Og þar með voru örlög Halldórs Kiljan Laxness ráðin. Salka Valka braut skáldinu leið á erlendan bókamarkað.
Efni Sölku-Völku er í senn stórbrotið og einfalt. Sjálfur lýsti höfundur verki sínu svo í fyrrnefndu viðtali við Alþýðublaðið: „Yfirleitt má segja að bókin gerist öll í slæmu veðri og vondum húsakynnum meðal einstaklinga af yfirstétt og undirstétt, sem báðar eru jafn óbjörgulegar, hvor á sína vísu … En unga stúlkan í sögunni er, þrátt fyrir þótt hún sé snemma hart leikin af grimmd mannlífsins, ímynd þeirrar sigurvonar, sem jafnvel hinum fátækustu og lítilmótlegustu í þessu plássi mætti leyfast að bera í brjósti, enda þótt guð og menn kunni oft að virðast jafn óvinveittir einstaklingnum.“
Salka Valka var eins og áður segir gefin út í tveimur bindum. Fyrra bindið, Þú vínviður hreini, skiptist í tvo hluta og nefndist sá fyrri „Ástin“ og sá síðari „Dauðinn“. Seinna bindið, Fuglinn í fjörunni, er einnig í tveimur hlutum, „Annar heimur“ og „Kjördagur lífsins“. Fyrri hluti Sölku Völku gerist á árunum 1910 til 1914, síðari hlutinn um áratug síðar eða á miðjum þriðja áratugnum í þorpinu Óseyri við Axlarfjörð. Í fyrri hlutanum er ekki að finna neina raunverulega stjórnmálaþróun þótt þar komi vissulega fram áhugi skáldsins á lífskjörum fólks og samúð með þeim sem minna mega sín. Þetta er bók um „peníngalaust fólk“, skrifaði Halldór vini sínum Jóni Helgasyni í Kaupmannahöfn í bréfi. Þarna er ekki verið að lýsa hugmyndum um breytingu á þjóðfélagsháttum, í mesta lagi að bryddi á innhverfri lífsspeki á borð við: „En trú mér, barnið gott, það verður einginn ríkur á því að vinna“, eins og Eyjólfur gamli blindi segir við Sölku á einum stað. Það er ekki fyrr en í síðari hluta bókarinnar, sem ber undirtitilinn „Pólitísk ástarsaga“, að lesandinn verður var við bergmál frá stjórnmálaátökum samtíma skáldsins.
Geðveikisbaktería og fransósa
Meðal persóna sem koma við sögu í síðari hlutanumer Kristófer Torfdal, „æstasti bolséviki Íslands“. Við sköpun hans nýtir Halldór Laxness sér tvo samtíðarmenn sína, Ólaf Friðriksson og Jónas Jónsson frá Hriflu. Þeir voru báðir stjórnmálamenn en flokksliturinn ekki sá sami. Ólafur var jafnaðarmaður en Jónas frá Hriflu framsóknarmaður og raunar dóms- og kirkjumálaráðherra um það leyti sem Halldór var að skrifa Sölku Völku. Jónas lagði í upphafi áherslu á samvinnu bænda en í íhaldsblöðum var hann gjarnan stimplaður sósíalisti ef ekki kommúnisti. Kristófer Torfdal fær harða útreið í þorpsslúðrinu og virðist hann nánast vera sjálfur myrkrahöfðinginn í augum þeirra.
Í sögunni er talað um að Kristófer hafi ætlað að gera uppreisn gegn yfirvöldum út af ungum rússneskum bolsa sem hann hafði flutt til landsins í því skyni að afkristna þjóðina og sýkja hana með fransósu, öðru nafni nefnd sýfilís. Þetta á sér beina hliðstæðu í „Hvíta stríðinu“, sem svo var nefnt. Ólafur Friðriksson, sem var ritstjóri Alþýðublaðsins 1921-22, kom haustið 1921 heim frá útlöndum með fjórtán ára föðurlausan dreng sem var sonur þekkts verkalýðsleiðtoga af rússneskri ætt. Ólafur hafði hugsað sér að ættleiða hann en við læknisrannsókn kom í ljós að drengurinn þjáðist af smitandi augnsjúkdómi sem var áður óþekktur á Íslandi. Af þessum sökum fyrirskipuðu yfirvöld að drengurinn skyldi fluttur af landi brott. Ólafur snerist til varnar og fullyrti í Alþýðublaðinu að um pólitískar ofsóknir væri að ræða. Drengurinn var síðan sóttur með valdi inn á heimili hans en þangað hafði safnast saman múgur og margmenni. Fólkið frelsaði drenginn og flutti hann aftur inn í húsið. Margir úr lögregluliðinu stóðu eftir kylfulausir eða með sundurtættar einkennishúfur og flestir hlutu einhverja áverka. Næstu daga voru settir vopnaðir verðir við helstu byggingar, svo sem stjórnarráðshúsið, Íslandsbanka og forsætisráðherrabústaðinn. Skömmu síðar var drengurinn sóttur inn á heimili Ólafs án mótspyrnu og sendur úr landi. Þótt hann næði sér af veikindunum lögðu íslensk stjórnvöld áherslu á að strákurinn kæmi ekki aftur til Íslands af ótta við uppþot. Slík var hræðsla manna við uppgang bolsévismans hér á landi. Úr þessu gerir Halldór Laxness mikla skopstælingu, veruleikinn fær að halda sér en skáldið gerir úr honum skrípaleik.
Annað frægt innanlandsmál sem vikið er að í sögunni tengist Jónasi Jónssyni frá Hriflu. Í Sölku Völku segir að einn ágætasti sérfræðingur landsins hafi fundið geðveikisbakteríuna í blóði Kristófers Torfdal. Auk þess er því haldið fram að hann hafi verið brjálaður af eiturnotkun og verið vondur við fermingarsystkini sín. Lýsingin fær á sig farsakenndan blæ í sögunni en raunveruleikinn var ekki svo fjarri þessu. Jónas frá Hriflu, dóms- og kirkjumálaráðherra, birti í Tímanum 28. febrúar 1930 opið bréf til yfirlæknisins á Kleppi, Helga Tómassonar, undir fyrirsögninni „Stóra bomban“. Þar rekur ráðherrann róg pólitískra andstæðinga sinna. Því hafði verið haldið fram bæði í ræðu og riti að hann væri drykkjusvoli, notaði eiturlyf og hefði verið vondur við fermingarsystkini sín. Í opinberu svari sínu stakk Helgi Tómasson upp á því að Alþingi fengi nefnd erlendra sérfræðinga til að rannsaka andlegt heilbrigði ráðherrans. Raunar hafði Halldór sjálfur komið við sögu í deilu þessari með tveimur smágreinum í Tímanum þar sem hann tók upp hanskann fyrir ráðherrann og óskaði þess að drottinn gæfi Íslendingum fleiri slíka vitfirringa og bætti við að hann teldi sig máski hafa síst minni reynslu í því að umgangast gáfumenn en Helgi Tómasson vitfirringa.
Að sofa hjá giftri konu
Þannig skjóta fræg mál úr samtímanum upp kollinum í Sölku Völku. Auk þess laumar Halldór sjálfum sér inn í söguna þar sem rætt er um bók hans Vefarann mikla frá Kasmír, án þess þó að hún sé nafngreind. Angantýr, sonur Bogesen kaupmanns, hellir sér yfir bókmenntir bolsanna og segir: „Allar þeirra bækur og blöð eru tómt klám og guðlast, ég keypti einmitt sjálfur bók í fyrra sem Kvöldblaðið sagði að væri eintómt klám. Það er um mann sem fór til Ítalíu og varð kaþólskur og svaf hjá giftri konu á Þíngvöllum.“
Arnaldur, sósíalistinn ungi, hefur einnig lesið Vefarann, þessa umdeildu skáldsögu „höfundar síns“ og þar kveður við annan tón. Á einum stað er rætt um bækur: „Samt fékk ég eina núna nýlega eftir íslenskan strák sem situr suðrá Ítalíu, hann er að byrja að koma auga á málstað alþýðunnar, en það er ekki hægt að kalla hann kommúnista, hann talar jafnvel um guð og þesskonar. Hann minnir mig á krækiber sem er að byrja að dökna. En margt spaugilegt veltur upp úr honum.“
Stórbrotnar persónur
Sú mynd sem dregin er upp af samfélaginu í fyrri hluta bókarinnar, Þú vínviður hreini, er kyrrstæð. Lögmál efnahagslífsins eru eilíf og óumbreytanleg. Bogesen kaupmaður ríkir yfir öllu og setur hagfræðina nánast fram sem trúaratriði, allir eru í reikning hjá öllum: „Því lífið er alt ein innskrift, og þegar öllu er á botninn hvolft þá vitum við ekkert hver það er sem á höfuðstólinn. Við forfærum bara okkar tölur og lifum í þeirri trú að höfuðstóllinn sé einhversstaðar. Kanski er hann hvergi.“ Inn í fiskiþorpið ryðst síðan nýr tími, – 20. öldin. Sviptingar verða í stjórnmálum og má segja að táknrænn fyrir þær sé gervifótur sem Bogesen kaupmaður gefur Beinteini í Króknum. Þegar sá einfætti hegðar sér vel stendur hann á báðum fótum. Þegar hann er reikull í trúnni sendir kaupmaðurinn einhvern til að skrúfa fótinn af honum. Að lokum er fóturinn sendur aftur til Þýskalands, – ógreiddur. Drottinn gaf og drottinn tók. Yfir þessu öllu skemmtir höfundurinn sér síðan. Hin spaugilega pólitíska skopmynd er þó aðeins á yfirborði skáldverksins. Hún er eins og gamansöm umgjörð um örlög fólksins.
Í Sölku Völku stíga fram á sviðið stórbrotnar persónur. Tvær eru þar í forgrunni, Salka Valka og Arnaldur, en litlu minna áberandi eru Sigurlína, móðir hennar, og Steinþór, ástmaður hennar og örlagavaldur í lífi þeirra mæðgna. Sölku Völku má túlka á ýmsa vegu, meðal annars hefur verið deilt um hvernig meta skuli aðalpersónur verksins og þar með hvaða svið sögunnar séu mikilvægust. Sumir leggja mest upp úr þjóðfélagslegri mynd verksins – hinu pólitíska sviði – þar sem Arnaldur er mest áberandi. Aðrir telja að Salka Valka sé ótvírætt aðalpersóna verksins og þetta sé þroskasaga hennar. Þar skipti mestu máli samband hennar við móðurina þótt samskipti hennar við Arnald og Steinþór séu einnig mikilvæg.
Steinþór Steinsson: aðlaðandi hrotti
Steinþór Steinsson er öðrum fremur persónugervingur þorpsins, farmaður og fiskimaður. Hann er villimaður, siðlaus persónugervingur hinnar stórbrotnu, óblíðu náttúru en gæddur þeim hæfileika að vefja líf sitt eins konar frumstæðum skáldskap. Svipur hans er nákominn svip landsins; himinn, jörð og haf renna ásamt Steinþóri í eina samstæða og ógnþrungna heild. Allar siðareglur, öll félagsleg ábyrgðartilfinning er honum framandi. Eini mælikvarði hans er hann sjálfur, haldinn gráðugum lífsþorsta. Hann gefur ekki mikið fyrir guðdóminn, segist vera sinn eigin frelsari. Þótt hann teljist vera unnusti Sigurlínu þráir hann ungmeyna Sölku af blindri eðlisfýsn. Þegar hann er orðinn einn með barninu og er í þann veginn að taka hana með valdi lætur hann uppi fögnuð sinn og fram á varir hans líða sundurlausar upphrópanir, eins konar óður eðlishvatarinnar, eins og Peter Hallberg bendir á í bók sinni Hús skáldsins, en Steinþór segir: „Kópi, ég hef fundið lyktina af blóðinu í þér í allan vetur. Það er eins og stórstraumsfjara. Það er vegna þín sem eldur lífsins logar í mínum dauðlegu beinum sem ég hata þángaðtil kalkið í þeim er orðið að dufti á botni hafsins. Nú er dagur ástarinnar runninn upp í allri sinni dýrð.“ Hann fær á sig djöfullega mynd. Soffía Auður Birgisdóttir kýs hins vegar í grein í Tímariti Máls og menningar (1992) að líta á þessi orð Steinþórs sem „fyllerísraus í grófari kantinum“ og leggur aðra merkingu í þennan atburð, svo sem síðar verður vikið að.
Steinþór hefur fleiri víddir, er ekki hreinræktaður hrotti. Afstaða Sölku til hans er tvíbent enda bregður í tali hans „næstum altaf fyrir hinu háttbundna vængjataki skáldsins einsog það birtist í hinni hrjúfustu, ruddalegustu og upprunalegustu mynd“. Á öðrum stað spyr Salka sig: „Leyndist kanski eitthvað biðjandi og auðmjúkt í þessum viltu augum, eitthvað spurult og leitandi sem var kanski í eðli sínu eins munaðarlaust og einmana og hún sjálf?“ Síðar spyr hún sig enn: „Gat það verið að hann væri í álögum einsog dýrin í æfintýrunum sem reyndust svo kanski kóngssynir? Gat verið að undir þessu hrjúfa bólugrafna hörundi fælist annað andlit, – kanski mjúkt og slétt, með draumkendum spurulum augum og viðkvæmu brosi?“ Þegar Steinþór snýr aftur í þorpið eftir áralanga fjarveru og hittir Sölku fullvaxna konu finnur hún seiðmögnun persónu hans: „Og hér stóð stúlkan líkt og hús sem titrar af saunglagi, því lagi þar sem veruleiki daganna hnígur til síns upphafs í tímaleysi fullnaðarins. Það var einsog nú væri einskis framar að vænta: þannig bergmálaði þessi rödd í hjartsláttum hennar. Og um svipuðust mórauð augu þung af glóð sem er ekki af heimi skynseminnar, því síður bókstafsins, og verður ekki færð í letur fremur en liturinn í draumunum.“
Það getur verið erfitt að henda reiður á manngerð eins og Steinþórs. Óbeislað eðli hans felur í sér hinar mestu andstæður, Salka laðast að honum um leið og henni býður við honum; hann er djöfull í mannsmynd en þó er erótísk spenna á milli þeirra; hann er bæði góður og illur. Hann er í senn raunsönn persóna og eins konar tákn, enda skynjar hann tilveru sína „í frumstæðum táknum, næstum goðfræðilegum.“
Sigurlína: Hin forsjála mey?
Sigurlína, móðir Sölku, er mótleikari Steinþórs og myndar gagnstætt skaut við hann. Steinþór mótar líf sitt samkvæmt dýrslegu eðli en Sigurlína hrekst viðnámslaust eftir duttlungum örlaganna. Að sumu leyti má segja að hún sé aðalpersónan í fyrri hluta sögunnar, Þú vínviður hreini. Hún verður strandaglópur á Óseyri þar sem leið hennar liggur um „Ástina“ í „Dauðann“ eins og tveir meginhlutar bókarinnar eru nefndir. Þegar hún stígur á land er líkt og allt sé henni í mót. Hjálpræðisherinn verður þá eins og vin í þungbærum veruleika en lesandanum verður ljóst að tilfinningahiti trúarlífsins er í æpandi mótsögn við lífsbaráttu fólksins. Sigurlína kynnist strax fyrsta kvöld þeirra mæðgna í þorpinu Steinþóri og verður ástfangin af honum. Í bænum sínum hrærir hún saman Jesú Kristi, Steinþóri og heilögum anda en slíkur samsláttur ber keim af sjálfspíningarlosta hjá henni. Hún virðist beygja sig undir fyrirlitningu og misþyrningar hins ruddafengna elskhuga, Steinþórs, í lostafullri þjáningu. Þessi samruni trúar og ástar kemur ágætlega fram þegar Sigurlína dró niður í lampa sínum til hálfs um nótt en „skildi eftir eftir dálitla týru einsog hin forsjála mey sem bíður síns brúðguma.“
Þessi biblíusamlíking verkar sem háð þar sem Sigurlína er síst af öllu forsjál mær og Steinþór er eins ólíkur Kristi og verða má. Sigurlínu skortir fyrirhyggju, stefnufestu og ábyrgð. Hún er algjörlega á valdi himnaföðurins: „Guð ræður lífi mínu og hjarta, sagði konan með orðskipun hinna frelsuðu. Hann hefur skapað mig með kvenmannsins náttúrlegu eðli og ég fæ ekki rönd við reist. Þegar ég á barn, þá er það á móti minni eigin skynsemi og mínum eigin vilja, en ég beygi mig bara undir guðs vilja og á mitt barn möglunarlaust.“ Aðstaða Sigurlínu flækist enn við það að Steinþór, sem á þó að heita elskhugi hennar, þráir Sölku en ekki hana. Það er ekki síst sú vitneskja sem ræður síðan örlögum hennar.
Saga Sigurlínu hefur verið túlkuð sem eins konar píslarsaga og er hún þá séð í gervi Krists. Það sem rennir stoðum undir þetta er dauði hennar á páskum. Hún hefur á sér mynd hins pínda krosshanga. Hún þjáist og deyr saklaus en til þess að Kristslíkingin gangi upp verður dauði hennar að hafa friðþægingargildi og tilgang. Jesús Kristur fórnaði lífi sínu til lausnar mannkyni en verður eitthvað slíkt sagt um Sigurlínu? Um það verða lesendur að dæma.
Salka Valka: Stúlka í buxum
Salka Valka er ótvírætt aðalpersóna verksins. Hún stendur lesandanum bráðlifandi fyrir hugskotssjónum en mynd hennar stækkar og skýrist af sambandi hennar við hinar aðalpersónurnar þrjár, móður hennar, Steinþór og Arnald. Ef litið er á Sölku Völku sem þroskasögu hennar má segja að nöfn fjögurra hluta bókarinnar vísi til áfanganna á þeirri leið. Hún kynnist „Ástinni“ gegnum Steinþór í fyrsta hluta , í öðrum hluta „Dauðanum“ þegar móðir hennar kveður þennan heim, í þriðja hluta „Öðrum heimi“ með sambandi sínu við Arnald og loks rennur upp „Kjördagur lífsins“ í fjórða og síðasta hluta þegar hún verður að kjósa sér hlutskipti.
Sigurlína er persónugervingur linku, vanmáttar og undirgefni við komuna til Óseyrar meðan Salka er andstæðir eiginleikar holdi klæddir. Hún verður sem fátækt barn einstæðrar móður að ganga gegnum harðan skóla og aflar sér snemma biturrar lífsreynslu. Soffía Auður Birgisdóttur segir í tímaritsgrein sem fyrr var vitnað til að í sambandi Sölku við móðurina felist lykillinn að persónuleika stúlkunnar. Salka horfir upp á valdaleysi móður sinnar, Sigurlínu er varnað máls, má segja, þar sem enginn hlustar á það sem hún hefur að segja, dóttirin sér þjáningar hennar og píslir og ákveður að svona skuli ekki fara fyrir henni sjálfri. Til þess að lifa af verður hún að samsama sig karlmönnum en afneita móður sinni eða því sem hún stendur fyrir. Hún ákveður að bæla hið kvenlega og afneita þar af leiðandi einnig ástinni, segir Soffía Auður. Þegar í upphafi myndast ástarþríhyrningssamband milli Sigurlínu, Sölku og Steinþórs. Hann þráir dótturina meira en móðurina og er ekki laust við að Sigurlína verði vör við það: „Salka mín, elsku litla Salka mín, sem einusinni varst barnið mitt, vertu nú góð við mig og taktu hann ekki frá mér.“ Steinþór ræðst að lokum til atlögu við barnið, eins og fyrr var vikið að.
Soffía Auður lítur svo á að árás Steinþórs kljúfi samband móður og dóttur um leið og hún gróðursetji í Sölku Völku skektarkennd sem hún beri alla tíð. Atlaga hans staðsetji stúlkuna utan við samfélagið, ræni hana móðurinni og eigi mestan þátt í því að hún afneiti hinu kvenlega. Það sé fyrst í sambandinu við Arnald sem hún taki að sigrast á einsemd sinni, nái að endurheimta kvenleika sinn og losna undan þeirri skökku sjálfsmynd sem hún hefur þroskað með sér frá æsku. Þótt samband Sölku við Arnald sé henni ákveðin lausn nagar hana stöðugt óttinn við að „týna sjálfri sér“ á sama hátt og móðir hennar. Samkvæmt þessari túlkun ræður sú hræðsla úrslitum í sambandi þeirra Arnalds.
En þarf Sigurlína að óttast að Salka falli fyrir ruddamenninu Steinþóri? Eins og fyrr var vikið að er erótísk spenna milli Sölku og Steinþórs. Þrátt fyrir ótta hennar og óbeit á Steinþóri hefur hann dulið aðdráttarafl á hana. Það er engu líkara en Steinþór dragi hana til sín eins og höfuðskepnurnar og örlögin. Þegar hann hefur verið fjarri um árabil og heilsar henni aftur fulltíða konu kemur vald hans yfir henni aftur í ljós. Með tilvísun til nistis sem hún fékk frá Arnaldi fyrrum segir nú: „Ekkert eru litlar myndir sem hafa geymst, í samanburði við þá rödd sem er inntakið í veðrum bernskunnar, og hefur gleymst; og hljómar á ný.“ Jafnvel eftir að hún er orðin unnusta Arnalds segir hann við Sölku: „Ég finn það altaf betur og betur sem ég hefði þó fyrir laungu átt að vita, að undirniðri finst þér þú sért ástmey Steinþórs Steinssonar, enda þótt ástir ykkar séu með brjálkendri öfughneigð –“ Og sjálfur segir Steinþór við hana: „…hvað sem þú segir, þá er það ég sem þú elskar. Og þú munt aldrei geta elskað neinn annan mann.“ Þótt í fullyrðingunni felist vanmáttug reiði bendir allt til þess að í henni eigi að vera nokkur sannleikskjarni. Þannig myndast annar ástarþríhyrningur í sögunni milli Steinþórs, Sölku og Arnalds en hinn var milli þeirra mæðgna og Steinþórs.
Milli tveggja andstæðna
Það sem einkennir persónu Sölku öðru fremur er frjór samleikur náttúru og menningar. Henni er stillt upp milli tveggja andstæðna sem holdgerast í Steinþóri og Arnaldi. Ef Steinþór er ímynd frumeðlisins, hinnar siðlausu lífsorku, er Arnaldur fulltrúi siðmenningarinnar, hugsjónabaráttunnar. Arnaldur kennir Sölku ungri að lesa eins og hann gefur henni síðar hlutdeild í skoðunum sínum á þjóðfélaginu: „Áður en þú komst Arnaldur, þá svaf ég einsog reyndar alt í þessu plássi. Svo komst þú og vaktir mig. En síðan ég vaknaði til þín, þá er ég bara partur af þér og ekkert sjálf. Þú ert lífið mitt.“ Hins vegar er Salka jarðsamband Arnalds, hið trausta bjarg, enda hafði hún „snemma verið sneydd hæfileikanum til að sjá handanvið veruleikann sem svo er kallaður, þ.e.a.s. fiskinn“. Arnaldur er dæmi um rótleysi nútímamannsins, klofning og óró, tilhneigingar hans – eða nauðsyn – að sjá hlutina frá mörgum ólíkum sjónarhornum í senn. Hann er þannig ákaflega samsett persóna sem erfitt er að henda reiður á. Salka sér hann alltaf fyrir sér í andstæðum: „Hún var ekki meistari yfir þeim forsendum sem útheimtast til að skilja samsett fólk, heldur hélt áfram að sjá hann fyrir sér í andstæðum, æstan og kærulausan, spámannlegan og strákslegan, meiníngarlausan og stórpólitískan, glannalegt dansfífl um leið og alvörugefinn ræðuskörúng, – en fyrst og síðast sá hún hann þó einsog mann sem hefur orðið að logandi upphrópunarmerki þar sem hann stendur með myrkur heimsins á bakvið sig.“ Sjálfur segir Arnaldur: „Ég er fullur af röksemdum heimsins. En þú, Salka Valka, þú ert.“ Og á öðrum stað segir hugsjónamaðurinn: „Ég trúi; hjálpa þú trúleysi mínu –“
Arnaldur: Breytileiki lífsins er sannleikurinn
Arnaldur virðist vera sveimhugi og lítt á hann treystandi. Hann verður uppvís að því að ljúga að Sölku og er henni í trúr í slöku meðallagi þótt hann segist elska hana. Matthías Viðar Sæmundsson sett í bók sinni Myndir á sandi fram athyglisverða greiningu á Arnaldi. Arnaldur þráir í æsku móður sína en honum er sagt að hún sé dáin, hann dreymir um móður í suðri, veruleika handan Óseyrar við Axlarfjörð. Þessi þrá breytist síðar í pólitískt starf sem einnig er reist á draumi, hugsjón sem smám saman eyðist í amstri dagsins. Líf hans einkennist með öðrum orðum af því að hann skortir eitthvað sem hann nær ekki að höndla. Þessi kennd – vöntun – finnur sér stöðugt ný takmörk, fyrst er það ást Sölku, síðan fyrirheitna landið í vestri og konan þar. Í huga Sölku er ætíð þessi mynd af Arnaldi: „andlit sem skín frammúr myrkri næturinnar, uppljómað af trúnni á annan heim.“ Líf hans er samfelld leit. Arnaldur er nútímamaður samkvæmt skilgreiningu Halldórs Laxness: Sjálf sem hefur tapað sér, sjálf án jafnvægis eða varanleika, knúið áfram af órólegu afli. „Breytileiki lífsins er sannleikurinn. Maðurinn er það augabragð sem hann lifir og breytist á,“ segir Arnaldur við Sölku. Hann getur ekki ábyrgst neitt, tilfinningar hans taka stakkaskiptum dag frá degi, hann breytist stöðugt, er annar í dag en í gær.
Þegar Arnaldur snýr aftur til Óseyrar fulltíða maður hefur hann í farangrinum, eins og Halldór Laxness í Alþýðubókinni, boðskap sósíalismans. Hann er gæddur eldmóði og ákafa þess sem vill breyta þjóðfélaginu. Steinþór gefur lítið fyrir hugsjóna- og réttlætisgaspur keppinautar síns um Sölku enda virðist líf hans gersneytt allri æðri meiningu. Þessum orðum hans svarar stúlkan hins vegar: „minn vinur hefur augu sem ljóma af hugsjón mannkynsins.“ Draumur Arnalds um nýjan heim býr ekki síður yfir kynlegum töfrum en dýrslegt andlit Steinþórs.
Hugsjónir mönnum ofar
Ástarsaga Arnalds og Sölku er sögð pólitísk í undirtitli síðari hluta bókarinnar. Þar er mikið rætt um sósíalisma og rangláta skiptingu auðs. Arnaldur er lærimeistari Sölku, innblásinn af hugsjónum, en Salka Valka, sem ósjálfrátt snýst gegn óréttlætinu, getur orðið tortryggin gagnvart hinu óhlutkennda í hugsjónastefnu ástmanns síns. Hann virðist oft svo kaldur og hluttekningarlaus gagnvart brýnni stundarþörf einstaklingsins: „Það sem nokkru varðar er heildin, mennirnir sem einíng, mannfélagshugsjón. Og ekkert getur bjargað heildinni nema byltíng undan oki auðvaldsins.“
Þarna enduróma lokaorð Alþýðubókarinnar sem fyrr var vitnað til um að maðurinn sé fagnaðarboðskapur hinnar nýju menningar og þar fram eftir götum. Salka, sem stendur með báða fætur á jörðinni, freistast til að tefla Steinþóri fram gegn hinum unga hugsjónamanni: „Steinþór er miklu meiri en þú. Hann er manneskja einsog ég hvar sem hann fer og flækist. Þú ert bara kenníng, og það villukenníng í þokkabót.“ Fyrir Arnaldi er hugsjónin allt og hann spyr hvort Salka sé reiðubúin til að framfylgja sameignarstefnunni ef hann falli frá. Hún spyr þá hvers virði hugsjónirnar séu ef menn deyja frá þeim órættum en ekki stendur á svari hjá Arnaldi: „Hugsjónir eru ofar mönnunum … Menn geta brugðist þegar síst varir, aungusíður en guðir. Einstaklíngarnir breytast. Sumir deyja, aðrir svíkja. En hugsjónirnar, Salka, þær eiga dýpri rætur en guð og einstaklíngurinn, þær eru einsog náttúrukraftar. Þær leggja undir sig heila kynstofna, mannkynið með jörð þess og himni, meðan guðir og einstaklíngar líða undir lok. Hugsjónina sakar ekkert þó einstaklíngar deyi eða svíki. Það eru hugsjónirnar sem stjórna mannkyninu, en mannkynið ekki hugsjónunum.“
Í orðum Arnalds má víða finna hliðstæðu við skrif Halldórs í Alþýðubókinni. Þar hafði skáldið unga komið fram sem uppalandi þjóðar sinnar, spámaður nútímamenningar og menntunar á öllum sviðum. Á sama hátt má segja að Arnaldur siði Sölku til, hann er t.d. látinn kenna henni að bursta í sér tennurnar og láta ekki borðhnífinn upp í sig. Sömu athugasemdir er að finna í Alþýðubókinni en þar skrifar Halldór Laxness: „Það er einn átakanlegastur misbrestur á uppeldi íslenskrar alþýðu að hún lærir ekki að hirða tennur sínar.“ Fleiri dæmi eru um slíkar hliðstæður en þó verður ekki sagt að Salka Valka sé eins konar skáldleg útgáfa af Alþýðubókinni eða fagnaðarerindi sósíalismans. Raunar má segja að svo sé alls ekki. Þvert á móti. Færa má rök fyrir því að í skáldverkinu reyni Halldór kenningar sínar úr ritgerðunum og komist að þeirri niðurstöðu að þær gangi ekki upp!
Kannski átti enginn móður
Þó að ástarsagan sé kölluð „pólitísk“ er þjóðfélagslegi þátturinn í raun aðeins rammi utan um mikla örlagasögu sem gæti í raun gerst hvar sem er því að hjörtum manna svipar saman í Súdan og Grímsnesinu, eins og skáldið kvað. Þannig verður lesandinn ekki síður var við einsemd mannsins en samfylkingu öreiganna í Sölku Völku: „Þegar öllu er á botninn hvolft, þá er maðurinn einn, aleinn, hann finnur það þegar banastundin nálgast, þegar hann veit að hann á að deya sínum dauða – einn,“ segir Arnaldur á einum stað. Þarna getur enginn breytt hlutskipti mannsins, hvorki guð né fjöldinn, ekki einu sinni heimsbyltingin. Draumur hans um fyrirmyndarríki sósíalismans er ástríðufull tilraun til að sigrast á óbætanlegri einveru mannsins – skortinum, sem fyrr var vikið að. Lok bókarinnar sýna hvernig sú leit hans að einingu endar.
Það er ekki bara í samtölum Sölku Völku og Arnalds sem einsemdina ber á góma. Stúlkunni er það sjálfri ljóst hvernig það er að vera ein. Þegar hún er ung vaknar hún um nótt og finnur að móðirin er ekki lengur hjá henni. Sigurlína er farin til Steinþórs: „Að verða fullorðin er að komast að raun um að maður á ekki móður, heldur vakir einn í myrkri næturinnar. Uppfrá þessu átti hún aungva móður. Kanski átti einginn maður móður. Kanski átti maður í rauninni aungvan að nema sjálfan sig.“ Yfir ástarsögu Sölku og Arnalds grúfir einnig óttinn við einveruna. Ástin milli þeirra verður svo áköf og harmsár af því að hún er í rauninni ekki annað en vin í eyðimörk einverunnar: „Ást þeirra hafði verið einsog slóð í vordögginni.“
Skáldsaga í heimsformat
Salka Valka er ekki síður skemmtileg saga en harmræn lýsing á örlögum fólks við ysta haf. Hvað eftir annað rekst maður á tilsvör eða lýsingar sem kveikja bros eða hlátur. Af handahófi má þar vitna til orða Sölku Völku þar sem hún segir: „það er einsog karlinn sagði, þunnar traktéríngar að láta menn þræla nótt og dag alla sína ævi, hafa hvorki í sig né á og fara svo til helvítis á eftir.“ Stundum slær þessum tveimur sviðum saman, hinu broslega og harmræna, eins og eftirfarandi dæmi sýnir: „Sigurlína geisaði mjög og varpaði fáryrðum í ýmsar áttir, uns hún gaf sál sína á vald Jesú í ofsafeingnum gráti, því henni varð altaf jafnmikið um í hvert skifti sem líf hennar var eyðilagt.“
Þannig hefur Salka Valka ýmsar víddir, við getum skoðað hana með margvíslegum gleraugum. Það er hægt að túlka hana sem beitta ádeilu á kröpp kjör íslenskrar alþýðu á fyrri hluta aldarinnar. Það má lesa hana sem harmræna ástarsögu þar sem stórkostlegar persónur stíga á svið er lesandinn getur síðan túlkað hverja fyrir sig með ýmsu móti. Þá býður sagan upp á að lagt sé út af henni á heimspekilegan hátt um tilvist mannsins og einsemd hans, svo aðeins þrjár leiðir að sögunni séu nefndar. Þegar öllu er á botninn hvolft er Salka Valka meistaralega skrifuð skáldsaga sem er í senn bráðfyndin og harmræn og talar til lesenda á öllum tímum hvar sem er í veröldinni.
Salka Valka varð sú bóka Halldórs Laxness sem ruddi honum braut til erlendra lesenda. Árið 1934 kom sagan út í Danmörku í þýðingu Gunnars Gunnarssonar, tveimur árum síðar var hún gefin út í Bretlandi þar sem dagblaðið Evening Standard útnefndi hana skáldsögu mánaðarins. Hún hefur nú verið gefin út á hátt á þriðja tug tungumála og sænskir aðilar kvikmynduðu hana 1954.
Hér að framan var vitnað til bréfa sem skáldið skrifaði Ingibjörgu Einarsdóttur meðan hann var með bókina í smíðum. Óhætt er að segja að seinna bindið hafi heppnast og hann væri þar með „made“, Salka Valka er skáldsaga í „heimsformat“. Hann var orðinn rithöfundur á heimsmælikvarða eins og hann stefndi að. Fram undan voru „alveg ógurleg verk“ sem áttu eftir að auka hróður hans enn meira heima og erlendis og færa honum Nóbelsverðlaunin í bókmenntum áður en yfir lauk.
Formáli að útgáfu Vöku-Helgafells á Sölku Völku í kilju árið 1996