Sumarið 1925 sat Íslendingur við skriftir í Taormínu á Sikiley, á einum heitasta stað Evrópu. Hann hafði þrjá um tvítugt. Þrátt fyrir ungan aldur hafði hann þegar sent frá sér tvær skáldsögur og eitt smásagnasafn, auk kvers um kaþólsk viðhorf. Nú var hann kominn suður til Ítalíu og var mikið niðri fyrir. Oft lagði hann nótt við dag, sitjandi við skrifborðið með ekki spjör á kroppnum utan einglyrni og lét pennann skeiða en hélt í hinni hendi á barefli til að verjast skorkvikindum: „Það var einsog einhverstaðar stendur í bók, aungu líkara en skáldinu fyndist alt undir því komið að skrifaðir yrðu eins margir bókstafir á blað og kostur væri áður en sólin túnglið og stjörnurnar yrðu útmáð af festíngunni,“ sagði Halldór Laxness síðar um þennan tíma í lífi sínu er hann ritaði Vefarann mikla frá Kasmír.
Vefarinn mikli frá Kasmír sprettur upp úr því öngþveiti sem ríkti í vestrænni menningu á fyrstu áratugum 20. aldar. Andlegt líf var í deiglu. Margir vilja ganga svo langt að kalla byltingu þau umbrot sem þá urðu á samfélagsháttum, heimspekilegri hugsun, siðferði, í trúmálum og listum. Svo virtist sem allt væri á hverfanda hveli og heimsstyrjöldin fyrri 1914-1918 þótti hafa afhjúpað siðmenninguna og um leið manninn. Í Vefaranum mikla leitast Halldór Laxness við að tjá þennan glundroða – hann glímir af einurð við samtíma sinn
Á þessum árum leituðu menn sér athvarfs í ýmsum hugmyndastefnum og straumum. Sumir leituðu til guðs almáttugs, skapara himins og jarðar. Aðrir töldu daga þess sama guðs talda og hrópuðu: „Guð er dauður! Maðurinn hefur drepið hann með hugsun sinni!“ og aðhylltust ofurmenniskenningar Nietzsches. Hann sagði að tilfinningin fyrir jarðlífinu yrði ríkari ef öllum hugmyndum um æðri veruleika væri hafnað. Hann taldi að lýðræði og kenningar kristninnar um náungakærleika og samúð væri þrælasiðferði sem hefti innsta eðli mannsins. Hið nýja siðferði, herrasiðferðið, átti að byggjast á eðlislægum vilja mannsins til valda og geta af sér ofurmenni sem risi af lífsþrótti upp úr meðalmennskunni. Margir sáu roðann í austri og töldu sameignarstefnuna, kommúnismann, lausn á vanda mannkyns. Og svo mætti áfram telja. Menn töldu sig fá fótfestu í kenningum af þessu tagi, – haldreipi í lífinu.
Þegar Halldór Laxness stóð á tvítugu, í byrjun desember 1922, gekk hann í klaustrið Saint Maurice de Clervaux í Lúxemborg og tók upp dýrlingsnafnið Kiljan. „Mig fýsti að vita meira um þá einkennilegu kirkju sem ótal pokaprestar á Norðurlöndum höfðu ekki gert annað en fussa við og sveia í mín eyru. Ég var haldinn óseðjandi laungun til að kynnast þeim trúarbrögðum sem plattþýskir danakóngar myrtu íslendínga útaf og nefnt var siðbót,“ sagði Halldór síðar í bók sinni Dagar hjá múnkum en þar er prentuð dagbók hans frá klausturtímanum.
Eftir tæplega ársvist í klaustrinu, 4. október 1923, gerist hann „oblatus secularis“ en það er eitt afbrigði munkdóms. Þeir sem taka slíka vígslu skuldbinda sig til að lifa í anda kaþólskrar trúar og á þessum tíma skrifar hann til vinar síns, Jóns Helgasonar í Kaupmannahöfn, að haustið eftir ætli hann að láta loka sig inni til sex ára suður í Róm. Hann er staðráðinn í að gerast jesúítískur klerkur. Halldór virðist hafa fundið sér skjól í kaþólskunni í umbrotum samtímans.
Haustið 1923 er hann kominn í skóla í Englandi hjá kristmunkum þar sem hann byrjar að skrifa bókina Heiman eg fór en hún „varð eitt skrefanna í átt til Vefarans mikla,“ sagði Halldór síðar. Í lok janúar 1924 hefur hann sagt skilið við skólann og heldur heim á leið en hann átti eftir að dvelja aftur í klaustrinu þegar hann var á leiðinni til Íslands frá Sikiley með Vefarann mikla í farteskinu. „Fyrri klausturvist mín í Clervaux setti mark sitt á þessa skáldsögu, lagði grunn að vangaveltum mínum um hið kristna guðshugtak. Vera mín í klaustrinu hið síðara sinn varð enn til að skýra línur. Bókin var að sönnu fyrsta svar mitt við himnahugmyndunum; niðurstaða djúpra þeinkínga var efahyggja. – Ég hafði með vissum hætti skrifað mig frá trúarbrögðunum í Vefaranum og óbeint lokað klausturportunum að baki mér á meðan ég sat með einglyrni í hitasvækju suður á Sikiley,“ segir Halldór í Dögum hjá múnkum.
Á þriðja áratugnum skrifaði Halldór Laxness fjölda greina í íslensk blöð. Í þeim liggur hann ekki á skoðunum sínum um íslenskt þjóðfélag og menningu. Þar tekur hann afstöðu með evrópskri borgarmenningu gegn íslenskri sveitamenningu. Í einni af greinunum, sem síðar voru prentaðar í Af menníngarástandi, segir hann: „Sú tíð er liðin að bóndinn sé burðarstoð íslenskrar menníngar. – Nú á dögum hvílir íslensk menníng á herðum mentaðra vitsmunamanna, vísindamanna og snillínga til orðs, myndar og tóns. Fjasið um dásemdir bændamenníngar á vorum dögum er ekki annað en samviskulaust pólitískt skjall.“ Svipaða skoðun er að finna hjá Steini Elliða, aðalpersónunni í Vefaranum mikla, en hann segir um Íslendinga: „Hvaða erindi á ég framar meðal þessarar sveitamannaþjóðar, innanum ruddalega búra og auðsjúka útvegsbændur, í þessu landi alþýðuspekinnar, þar sem fánasveit menníngarinnar er skipuð flökkurum, ömmum, spákellíngum og uppgjafahreppstjórum.“
Halldór kemur í greinum þessum fram sem boðberi nútímamenningar – borgarmenningar – og vill að þjóðin komist án tafar í kynni við hana með kostum og göllum, kasti af sér hinni fornu sveitamenningu. Í skrifum þessum lýsir hann einnig nútímamanninum og um hann segir skáldið: „Nútímamaðurinn hefur hundraðogfimtíu lífskoðanir en eingin þeirra er hans eigin. Hans eigin lífskoðun er hin eina sem hann ekki hefur.“ Þessi greinaskrif Halldórs Kiljans Laxness vöktu mikla ólgu og margir urðu til að andmæla þeim.
Vefarinn mikli frá Kasmír segir frá Steini Elliða, sem er á 19. ári þegar sagan hefst, og greinir frá nokkrum árum í lífi hans. Steinn kastast öfga á milli og er ómögulegt að festa hendur á skoðunum hans. Steinn kemur fram sem boðberi helstu kenningakerfa samtímans – hugmyndir hans eru í stöðugri endurskoðun. Þannig er Steinn Elliði hinn dæmigerði nútímamaður eins og Halldór lýsir honum í Af menníngarástandi. Hann „hefur hundraðogfimtíu lífskoðanir en eingin þeirra er hans eigin. Hans eigin lífskoðun er hin eina sem hann ekki hefur.“ Af hálfu höfundar er engin tilraun gerð til að ritstýra þessum hugmyndum Steins eða annarra sögupersóna bókarinnar í þágu ákveðins boðskapar og verður hann ekki dreginn til ábyrgðar fyrir þær! Vefarinn mikli er m.ö.o. það sem kallað hefur verið fjölradda verk.
Steinn Elliði er í meginatriðum klofinn milli þess guðlega og jarðneska, andlega og líkamlega. Í honum togast á andstæður sem virðast ósættanlegar því að vilji sálar og holds er ekki sá sami. Þessir gagnstæðu pólar tákngerast í guði og konunni: „Konan er nefnilega hvorki meira né minna en hættulegasti meðbiðill guðs og keppinautur þar sem sál mannsins er í tafli,“ segir Steinn á einum stað. Eini verðugi „keppinautur“ guðs um sál hans er Diljá, stúlkan sem elskar hann og hann er ástfanginn af, þ.e.a.s. þegar hún er ekki ímynd freistarans djöfullega: „Alt í lífi mínu er lygi, Diljá, guð og djöfullinn, himinn og helvíti, alt lygi nema þú.“
Segja má að Diljá sé fulltrúi skynseminnar, jarðsamband Steins, „persónugervíng hinnar frjóu moldar“, eins og segir í Vefaranum mikla. Diljá afhjúpar Stein með einföldum spurningum, sér í gegnum hann og biður hann á einum stað að taka af sér grímuna og á þar við að Steinn skýli sér stöðugt bak við kenningar, orð, sem séu ekki hann sjálfur heldur gríma sem forði honum frá því að horfast í augu við lífið. Undir lok verksins, þegar kapphlaup guðs og Diljár um sál Steins nær hámarki, eru hugrenningar hennar birtar þar sem hún segir: „Hvað hann er heilagur og ógurlegur í kirkju sinni, þessi guð! Kirkja hans er máttugri en lögmál náttúrunnar og kallar til sín mannssálir að austan og vestan, norðan og sunnan, kallar þær úr öllum höfuðáttum til þess að rísa gegn eðli hins skapaða og hefja sig úr duftinu uppávið til eilífðarinnar. Jesús Kristur er skríngilegur harðstjóri: óvinir hans krossfestu hann, og hann krossfestir vini sína í staðinn. Kirkjan er ríki krossfestra. Hvað máttu ástir vesallar skapaðrar konu gegn hinni heilögu kirkju Jesú Krists, sem er máttugri en sköpunarverkið?“
Steinn Elliði er ekki einangruð persóna í skáldsögu heldur hefur hann miklu víðtækari skírskotun, – hann er tákngervingur nýrra tíma. Glíma hans við hinstu rök tilverunnar, þegar yfirvofandi er að sólin, tunglið og stjörnurnar verði útmáð af festingunni, er ekkert einsdæmi. Steinn á sér marga „bræður“ og meðal þeirra er höfundurinn sjálfur, enda þótt niðurstöður þeirra geti verið aðrar en hans. Sagan er í ríkum mæli sjálfskönnun og er fróðlegt að bera saman Halldór Kiljan Laxness og Stein Elliða, skoðanir þeirra á klausturvist og kristindómi, stjórnmálum og kvenfólki, en um hugmyndir skáldsins á þessum tíma má meðal annars lesa í Af menníngarástandi sem fyrr var vitnað til. Halldór lýsti hins vegar niðurstöðum Vefarans mikla svo í Alþýðubókinni árið 1929, tveimur árum eftir útkomu hans: „„Vefarinn mikli“ er ekki sorgarleikur einnar mannssálar, heldur verða menníngarskil þar sem tjaldið er dregið niður í „Vefaranum“. Þaðan í frá eru ekki annars úrkostir en hefja nýan leik, – á nýrri jörð, undir nýum himni. Lausn „Vefarans“ gefur einga von. Frumhugsun kristindómsins er með öllu ósamrýmanleg frumhugsun jarðnesks lífs, – það er upphaf og endir „Vefarans“. Sé guð alt og maðurinn blekkíng ein og hégómi, þá liggur í augum uppi að manninum er best að halla sér útaf og deya, svo að guð geti verið alt í friði.“ Með þeim orðum má segja að Halldór hafi kvatt hina kaþólsku trú, „þó án þess að afneita grundvallarhugmynd kirkjunnar“, eins og hann sagði hálfri öld síðar í minningabók sinni Úngur eg var. Hann hafði lokað klausturportunum á eftir sér.
Halldór Kiljan Laxness sneri aftur til Íslands á vordögum 1926 með Vefarann mikla frá Kasmír í farteskinu. Honum gekk hins vegar treglega að fá bókina gefna út. „Ég held Vefarinn hafi verið boðinn öllum íslenskum útgefendum sem öndin blakti í, en einginn vildi leggja nafn sitt við svo lélega bók; þeir töldu líka óhugsandi að nokkur maður vildi kaupa þetta.“ Halldór gaf bókina út sjálfur ári síðar fyrir eigin reikning „og leigði götustráka og sérvitrínga til að selja hana í heftum við húsdyr fólks. Þetta framtak gaf svo góða raun að ég fór til Amriku fyrir ágóðann og dvaldist þar hátt á þriðja ár,“ sagði skáldið síðar.
Útgáfan vakti misjöfn viðbrögð. Sumir fundu verkinu flest til foráttu, enda sagan harla óvenjuleg á þeim tíma. Ritdómur Guðmundar Finnbogasonar landsbókavarðar í tímaritinu Vöku birtist hér í heild en hann lét sér nægja tvö orð um Vefarann mikla frá Kasmír: „Vélstrokkað tilberasmjör“. Öllu frægari er hins vegar ritdómur Kristjáns Albertssonar í sama tímariti en Kristján var áhrifamikill í menningarumræðunni á Íslandi á þriðja áratugnum. Hann skrifaði: „Loksins, loksins tilkomumikið skáldverk, sem rís eins og hamraborg upp úr flatneskju íslenskrar ljóða- og sagnagerðar síðustu ára! Ísland hefur eignast nýtt stórskáld – það er blátt áfram skylda vor að viðurkenna það með fögnuði.“ Sænski bókmenntafræðingurinn Peter Hallberg, sem mikið rannsakaði verk Halldórs Laxness, sagði síðan í bók sinni um æskuverk hans að vafamál væri hvort nokkru sinni hefði komið út bók á Norðurlöndum, sem gæfi jafn sterka og fjölskrúðuga lýsingu á hugsunarhætti eftirstríðsáranna og Vefarinn mikli.
Ýmsir telja að með Vefaranum mikla frá Kasmír hefjist nútíminn í íslenskri sagnagerð. Vissulega má færa gild rök fyrir því þar sem verkið er að sönnu nútímalegt og á sinni tíð á skjön við flest það er ritað hafði verið á íslenska tungu. Ekki varð hins vegar framhald á þessari þróun að sinni. Íslenskir lesendur þurftu að bíða í nokkra áratugi eftir frekari „módernisma“ í íslenskri skáldsagnagerð. Framúrstefnuskeiði Halldórs Laxness var að ljúka – í bili. Hann sneri sér að því að skrifa stór og mikil raunsæisverk á borð við Sölku Völku, Sjálfstætt fólk og Heimsljós. Með þeim endurnýjaði hann kröftuglega íslenska frásagnarlist sem færði honum Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1955.
Helstu heimildir: Árni Sigurjónsson: Laxness og þjóðlífið 2. Frá Ylfíngabúð til Urðarsels. Rvík 1987. Hallberg, Peter: Halldór Laxness. Njörður P. Njarðvík íslenskaði. Rvík 1975. Sami: Vefarinn mikli. Um æskuskáldskap Halldórs Laxness. Björn Th. Björnsson íslenskaði. Rvík 1957-60. Halldór Guðmundsson: „Loksins, Loksins.“ Vefarinn mikli og upphaf íslenskra nútímabókmennta. Rvík 1987. Halldór Laxness: Af menníngarástandi. Rvík 1986. Sami: Alþýðubókin. Rvík 1929. Sami: Dagar hjá múnkum. Rvík. 1987. Sami: Seiseijú, mikil ósköp. Rvík 1977. Sami: Skáldatími. Rvík. 1963. Sami. Úngur eg var. Rvík 1976. Sami: Vefarinn mikli frá Kasmír. 2. útgáfa 1948. Matthías Viðar Sæmundsson: Myndir á sandi. Rvík 1991. Ólafur Ragnarsson og Valgerður Benediktsdóttir: Lífsmyndir skálds. Rvík 1992.
(Birt í Morgunblaðinu 11. apríl 1997 í tilefni af uppfærslu Leikfélags Akureyrar á Vefaranum mikla frá Kasmír)