Afhuga kenningum

„Harmleikir voru, eins og sagt er stundum, þrettán í dúsíninu á þeim dögum,“ sagði Halldór Laxness um fjórða áratuginn undir ógnarstjórn Stalíns í útvarpsþætti í árslok 1963. Þátturinn var í umsjón Gunnars G. Schram og nefndist Á blaðamannfundi. Honum til aðstoðar voru Matthías Johannessen ritstjóri Morgunblaðsins og skáld og Bjarni Guðmundsson blaðafulltrúi. Tilefnið var útkoma Skáldatíma en bókin hafði komið eins og þruma úr heiðskíru lofti inn í íslenskt samfélag. Raunar sagði Gunnar í upphafi þáttarins að Skáldatími hefði „hrifið athygli þjóðarinnar svo með einmunum er.“

En af hverju sætti Skáldatími svona miklum tíðindum? Og markaði útgáfa bókarinnar slík tímamót á ferli Halldórs Laxness? Í Skáldatíma gerði Halldór vissulega upp við Stalín og sovétkommúnismann með eftirminnilegum hætti. „Það er fróðlegt að sjá hvernig Stalín varð með hverju árinu meira skólabókardæmi þess hvernig valdið dregur siðferðisafl úr mönnum þannig að maður sem náð hefur fullkomnu alræðisvaldi innan umhverfis síns er um leið orðinn algerlega siðferðislaus“, segir þar. Og á öðrum stað í bókinni ritar Halldór: „Stærsta axarskaft okkar vinstrisósíalista fólst í trúgirni. Það er í flestum tilfellum meiri glæpur að vera auðtrúa en vera lygari. Við höfðum hrifist af byltíngunni og bundum vonir okkar við sósíalisma. …Við trúðum ekki þó við tækjum á því hvílíkt þjóðfélagsástand var í Rússlandi undir Stalín.“ Í fyrrnefndum þætti hnykkti Halldór á þessu og sagði um stjórnarhætti Stalíns að þar hafi verið að á ferð „miskunnarlaust harðstjórnarkerfi að viðbættum ríkiskapítalisma.“

Halldór Laxness hafði verið samferðamaður Sovétríkjanna áratugina á undan og m.a. ritað tvær bækur á fjórða áratugnum, Í austurvegi og Gerska vfintýrið, um dásemdir samfélagsins sem þar var verið að byggja upp.

Árið 1963 kvað hins vegar við annan tón og í umræddum þætti var sagt að engu væri líkara en það væri ekki sami maður sem hefði skrifað Gerska ævintýrið og Skáldatíma. Því svaraði Halldór á þessa leið: „Maður er ekki sami maður nema kannski einn dag í senn.“ Og bætti við: „Ég skrifaði Gerska ævintýrið út frá því sem ég vissi best þá og náttúrlega í vissri von um að betur mundi fara í Sovétríkjunum sem þó varð ekki á tímabili Stalíns.“ Síðan vakti hann athygli á því sem einn ritdómari hefði sagt að það væru í raun fyrirvarar á flestum hlutum í Gerska ævintýrinu.

Ef litið er yfir sjötta áratuginn sést glöggt að lokauppgjör Halldórs Laxness við Stalín og Sovétríkin, sem fór fram í Skáldatíma, átti sér langan aðdraganda. Í Gerplu  (1952) hæddist Halldór að hinni fornu hetjuhugsjón Íslendingasagna en boðskapur sögunnar beindist ekki síður að nútímanum, trú manna á öfluga leiðtoga sem fylgt er í blindni. Þeir sem vildu gátu séð þarna deilt á Hitler og Stalín – leiðtogadýrkun – en í bókinni birtist einnig andstæða þeirra samfélaga þar sem ríkja sterkir leiðtogar eða einræðisherrar en slíkt fyrirmyndarsamfélag finnur skáldið meðal grænlenskra eskimóa. Frumbyggjarnir þekkja ekki annað en að allir séu jafnir og lifi í sátt og samlyndi og þeir hafa enga leiðtoga.

Árið 1960 sendi Halldór Laxness frá sér skáldsöguna Paradísarheimt þar sem aðalpersónan, Steinar bóndi, öðlast hugsjón og von um paradís á jörð. Hann fer að vitja hennar yfir hálfan hnöttinn en leitar í sögulok aftur til heimahaganna: Hugsjónin um þúsundáraríki reynist tál eitt. Í lokin virðist ekkert hafa gerst, það er sem Steinar standi í sömu sporum og áður en hann fór. Sjálfur sagði Halldór í grein um tilurð Paradísarheimtar sem birt er í Upphafi mannúðarstefnu:

Vitur maður hefur sagt, sá sem fer burt mun aldrei koma aftur; og það er af því að þegar hann kemur aftur er hann orðinn annar maður en hann var þegar hann fór … Og milli túnsins þaðan sem lagt var á stað og túnsins þángað sem komið er aftur liggja ekki aðeins konúngsríkin og úthöfin ásamt eyðimörkum veraldarinnar, heldur einnig fyrirheitna landið sjálft.

Steinar öðlast trú eða hugsjón sem hann glatar en öðlast nýja lífssýn í lokin. Sama má segja um Halldór Laxness. Sovétsósíalisminn reyndist ekki ekki sú Paradís sem til var ætlast. Hann hafði ritað tvær bækur á fjórða áratugnum um dásemdir Sovétríkjanna og leiðtoga þeirra, Stalín, en nú var eins og hann væri búinn að fá nóg af kenningum.

Þótt sinnaskipti Laxness hafi komið Íslendingum í opna skjöldu þá höfðu starfsmenn bandaríska sendiráðsins í Reykjavík skynjað nokkrum árum fyrr, eða 12. desember 1955, að eitthvað væri að breytast hjá þessum áhrifamikla manni. Carl H. Peterson sem starfaði í bandaríska sendiráðinu í Reykjavík ritaði eftirfarandi í trúnaðarskjali til yfirvalda heima fyrir: „[Laxness] hefur að undanförnu lagt sig fram um að neita því að hann sé kommúnisti, og í nýlegu útvarpserindi gætti meiri stillingar í málflutningi hans en vanalega, jafnvel þótt hann hvetti með almennum orðum til sjálfstæðis Íslendinga.“

Í Skáldatíma sagði Halldór í fyrsta skipti opinberlega frá því þegar hann varð vitni að því er leynilögregla Stalíns handtók Veru Hertzsch árið 1938 í Moskvu en hann var þá gestkomandi hjá henni. Vera átti dóttur, Erlu Sólveigu, með Benjamín H. J. Eiríkssyni. Árið 2000 kom loks í ljós að Vera hafði látist í fangabúðum í Kasakstan árið 1943 en um örlög dótturinar er ekkert vitað. Í fyrrnefndum þætti, Á blaðamannafundi, spurði Matthías Johannessen Halldór:

„Hvernig gátuð þér farið úr herbergi Veru Hertzsch til Skandinavíu að skrifa Gerska ævintýrið? Það get ég ekki skilið.“

Halldór svaraði: „Vera Hertzsch var þýskur kommúnisti sem var rússneskur ríkisborgari. Ég varð ásjáandi að því að hún var flutt burt frá heimili sínu og afhenti barn sitt þjónustustúlku sinni til þess að fá það síðan afgreitt til barnahælis. Á þetta hef ég alltaf litið þannig sem ég hafi orðið áhorfandi að slysi. Ég hef iðulega orðið áhorfandi að slysi, t.d. á götum stórborga, og þetta hef ég alltaf litið á sem eitt af þeim. En þetta voru þeir tímar þegar kerfi Stalíns var svo sterkt, svo sovereignt, að mér er ekki kunnugt um að nokkurt ríki hafi sótt fanga í hendur Rússa undir Stalín. Það kom fyrir að útlendir menn væru teknir þar, kommúnistar, og fluttir í fangabúðir, m.a. einn danskur kommúnistískur þingmaður. Það var eins óhugsandi að hrífa rússneskan kommúnistískan fanga úr höndum Stalíns eins og að taka mann upp lifandi sem eimreið hefur keyrt yfir. Það eina sem stóð í mínu valdi var að segja hlutaðeigandi persónum frá því sem hafði gerst, þeim mönnum sem málið var skylt. Meira stóð ekki í mínu valdi að gera. … Harmleikir voru, eins og sagt er stundum, þrettán í dúsíninu á þeim dögum.“

„Hver sá maður sem gengur með æskuhugsjón sína eins og steinbarn innan í sér alla sína hundstíð, er ekki mikils virði sem skáld; varla heldur sem manneskja,“ sagði hann síðar í samtali við Matthías Johannessen.